Veturinn hefur verið óvenjulegur og margir bíða óþreyjufullir eftir vorinu. Sumardagurinn fyrsti er í dag, en hann hefur verið lögbundinn frídagur hér á landi í nær hálfa öld. Haldið hefur verið uppá daginn með ýmsu móti í gegnum tíðina. Lifðu núna er ekki kunnugt um að aðrar þjóðir haldi fyrsta dag sumarsins hátíðlegan.
Gott sumar ef vetur og sumar frjósa saman
Það er gömul þjóðtrú að það vísi á gott sumar ef vetur og sumar frýs saman. Með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í bókinni Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing segir svo um sumardaginn fyrsta.
Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.
Skiptir oft um veður í kringum sumardaginn fyrsta
Nú um stundir trúir fólk meira á vísindin og veðurspár eru orðnar afar fullkomnar, en geta þær sagt okkur núna hvernig veðrið verður í sumar? Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagðist einmitt hafa verið að skoða útlitið með sumarveðrið þegar Lifðu núna bar þessa spurningu upp við hann. „Það er nú þannig að það er ekkert í hendi ennþá með hvernig sumarveðrið verður. Ef það er hafísvor er talið að sumarverðrið verði óstöðugt og kalt, en það er enginn hafís núna“ segir Einar og bætir við að það skipti oft um veður einmitt í kringum sumardaginn fyrsta. Það séu aðrir kraftar sem ráði sumarveðrinu en vetrarveðrinu.
Veðrið með svalara móti framan af sumri
Hann segir að Evrópska reiknimiðstöðin hafi gefið út veðurhorfurnar fyrir maí, júní og júlí og helst litið til þess að það sé sjávarkuldi undan suður- og suðvesturlandinu. Þannig séu líkur á að veðrið verði með svalara móti í vor og framan af sumri. En Evrópska reiknimiðstöðin segi hins vegar ekkert um ríkjandi vindáttir, sem skipti öllu þegar spáð er í hvernig sumarveðrið verður, nema þá helst að veik merki séu um austan og norðaustan áttir. Þýska veðurstofan telur hins vegar líklegra að áttin verði suðvestan. Það þýði að veðrið verði betra fyrir austan og norðan. „En ef áttin verður austanstæð verður gott og bjart veður á suðvesturlandi, óháð þessu með hitastigið“, segir hann „en spáin um vindáttirnar er varasöm og óskýr“.
Hvar lendir hæðarhryggurinn?
Þannig telur Einar að líkur séu á það verði ekki hlýtt á landinu snemmsumars, en síðari hluti sumarsins sé óráðin gáta. „Það er háð slíkum tilviljunum hvort það verður hæðarhryggur, með niðurstreymi lofts og sólskini yfir landinu, eða hvort hann verður yfir Skandinavíu og Bretlandseyjum. Hann segir að um miðjan maí, komi Þýska veðurstofan með spá fyrir allt sumarið, júní, júlí og ágúst og þá sé hægt að sjá lengra fram í tímann.
Íslendingar með eigið tímatal og sumardaginn fyrsta
Vísindavefur Háskóla Íslands fjallar um sumardaginn fyrsta og segir að áður en rómverska tímatalið hafi borist hingað með kirkjunni, hafi Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Samkvæmt því var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri, vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Sumardagurinn fyrsti er ævinlega á bilinu 19.- 25. apríl. Á visindavefnum segir einnig.
Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur. Meðal annars er vitað um sumargjafir að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Þá var haldin matarveisla sem þótti ganga næst jólunum. Fyrsti dagur sumars var líka frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var hann einnig helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á.