Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar
„Mestu máli skiptir að eiga heilbrigð börn en ekki hvort þau er dætur eða synir“, sagði vinur minn eitt sinn þegar þau mál báru á góma. Ég get heilshugar tekið undir það. En ég hef skemmtilega reynslu af mismunandi viðhorfum í þessu sambandi.
Árið 1982 fórum við Tómas Holton, aðaleigandi ullarvöruútflutningsfyrirtækisins Hildu h.f., til Japan til þess að hitta innkaupafólk hjá stóru japönsku vöruhúsi í Tokyo. Ég var svo óheppinn að taskan mín fór með flugvél til Bandaríkjanna í stað Evrópu en þaðan hófst ferð okkar til Japan. Við áttum fund daginn eftir og mér leist illa á að koma á fundinn klæddur krumpuðum ferðafötum. Ég fór því í fataverslun í leit að jakka. Slíka verslun fann ég, en ermarnar á stærstu jökkunum reyndust mér sem kvartermar. Nú voru góð ráð dýr hvað gera skyldi. Þá kom mér til hugar að leita að yfirstærðar fataverslun sem ég fann og þar var jakki sem passaði. Stærðin var „King size.“ Þegar ég kom heim á hótel og sýndi Tómasi jakkann sagði hann að ef einn starfsmaður hjá Hildu sem var nærri 2 metrar að hæð hefði verið með okkur hefði hann þurft að leita að „Dragon size“.
Við héldum til fundar á skrifstofu verslunarkeðjunnar morguninn eftir og þar mætti okkur hópur yfirstjórnenda verslunarinnar. Í hópum voru eingöngu stjórnendur af karlkyni og ein kona sem var túlkur. Eitt það fyrsta sem gestgjafar okkur lögðu til var að fara út að borða en slíkt er háttur Japana til þess að kynnast væntanlegum viðskiptavinum. Við gengum út úr fundarherberginu til lyftunnar og var ég fremstur. Þegar að lyftunni kom rétti ég út hendi og bauð stúlkunni að ganga fyrst inn. Snarlega var henni ýtt aftast í röðina. Við áttum ánægjulegan málsverð. Fundarmenn töluðu japönsku og stúlkan þýddi jafnharðan. Veitt var vel og skálað oft í sake. Virtist sakeið hrífa meira á gestgjafana en gestina. Færðist fjör í mannskapinn og þá kom í ljós að nokkrir í hópnum töluðu ensku og þýsku. Svo kom að því að farið var að ræða persónulega hagi og þá fengum við spurningu sem ég hef ekki fengið fyrr eða síðar: „Hversu marga syni eigið þið?“ Ekki var spurt um barnafjölda. Naut Tómast nú mun meiri virðingar hópsins en ég þegar hann upplýsti að synir hans væru þrír auk einnar dóttur en ég upplýsti að ég ætti einn son og tvær dætur.
Útflutningsráð Íslands undanfari Íslandsstofu hóf starfsemi sína í október 1986. Ég var fyrsti framkvæmdastjóri ráðsins. Í þessum október mánuði gerðist tvennt. Leiðtogafundur Gorbachev og Regan var haldinn í Reykjavík og tengdist ÚÍ þeim fundi. Einnig hafði verið skipulögð opinber heimsókn Steingríms Hermannssonar þáverandi forsætisráðherra til Kína. Viðskiptasendinefnd, fjölmiðlafólk og starfsfólk fylgdi Steingrími og var ég formaður sendinefndarinnar. Markmiðið með þessari ferð var að auka menningarleg samskipti og viðskiptatengsl milli Kína og Íslands. Móttökur Kínverja voru höfðinglegar og ferðin afar vel skipulögð af hálfu Kínverja. Margt skemmtilegt gerist í þessari ferð. Mikið var um ræðuhöld og kynningar við hin ýmsu tækifæri. Steingrímur heillaði Kínverjanna með þakkarræðum sínum sem grundvallaðar voru á reynslu hvers dags og oft með tilvitnanir í kínverska heimspekinga. Hann talaði alltaf blaðlaust nema í eitt skipti í lokahófinu þegar hann var með undirbúna skriflega ræðu. Kínverskur embættismaður lýsti eitt sinn hrifningu sinni við mig. Hann sagði íslenska forsætisráðherrann alltaf tala beint frá hjartanu. Heimsóknum erlendra þjóðhöfðingja til Kína var þá að fjölga. Embættismaðurinn sagði flesta þjóðhöfðingja koma með skriflegar ræður að heiman en Steingrímur flytti einlægar tilfinningaþrungnar ræður sem Kínverjar kynnu að meta.
Í hverjum kvöldverði þurfti að flytja þakkarræður. Þegar viðskiptasendinefndin var í fylgd Steingríms og fylgdarliðs hans flutti Steingrímur þakkarræðuna sem var flutt fyrir síðasta rétt sem voru gjarnan allt að þrettán. Ef viðskiptasendinefndin var í aðskilinni ferð flutti ég þakkarávarpið. Þar sem margt sama fólkið fylgdi okkur eftir, þurfti að finna nýtt þakkarefni fyrir hvert tilefni. Steingrímur var snillingur í því. Ég fann nýtt þakkarefni fyrir hverja ræðu sem ég þurfti að flytja. Eitt kvöldið ákvað ég að tileinka þakkarávarp mitt hve góður kínverskur matur er, en ég er mikill aðdáandi. Túlkar í ferðinni voru ekki alltaf þeir sömu en í ferðinni var m.a. túlkur sem dvalið hafði á Íslandi, stundað nám við Menntaskólann í Hamrahlið og talaði dágóða íslensku. Hann túlkaði ræðu mína þetta kvöld sem ég flutti á íslensku. Í ræðu minni sagði ég að á Íslandi væri orðatiltæki sem segði að leiðin að hjarta mannsins lægi um magann og því væri mér afar hlýtt til kínversku þjóðarinnar. Túlkurinn þýddi og þegar ég leit yfir fjölmennan salinn sá ég að Kínverjarnir horfðu í forundran hverjir á aðra. Túlkurinn hefur væntanlega þýtt bókstaflega og ekki áttað sig á boðskapnum. Ég lærði þá lexíu að þegar túlkað væri fyrir mig ætti ég ekki að nota orðatiltæki eða málshætti sem þýðandinn hugsanlega skildi ekki.
Eitt kvöldið sátum við og einn túlkurinn saman og ræddum málin. Þessi túlkur var giftur og átti eina dóttur, en á þessum tíma voru takmarkanir á barneignum í Kína. Við ræddum m.a. fjölskyldumál. Mér kom þá til hugar spurningin í Japan og spurði túlkinn hvort hann kysi frekar að eiga stúlku eða dreng. „Ekki spurning,“ svaraði túlkurinn, „ég vil eiga stúlku.“ Ég spurði af hverju. „Þegar við hjónin verðum gömul og flytjumst til barns okkar, mun dóttir hugsa mun betur um okkur en tengdadóttir.“
Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, en verandi faðir yndislegra dætra og yndislegs sonar get ég ekki gert upp á milli hvort er betra. Mér þykir jafn vænt um bæði kynin.
5585 orð