Faðmlög bæta heilsuna

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Fyrir nokkrum árum var ég vitni að því að faðir kvaddi ungan son sinn. Faðirinn var ásamt eiginkonu sinni á leið í langt ferðlag. Hann kvaddi son sinn með handabandi og hvatti hann í föðurlegum tóni til þess að vera stilltan og prúðan meðan mamma og pabbi væru fjarverandi. Sjálfur er ég alinn upp í faðmlagafjölskyldu þar sem flestir fjölskyldumeðlimir tóku utan um hvern annan þegar fólk hittist. Ég á þrjár eldri systur og þær hafa sagt mér að furða væri að eitthvað hefði orðið úr mér eins mikið og ég var kjassaður sem lítið barn. Í fjölmennri fjölskyldu eiginkonu minnar er mikil hefð fyrir faðmlögum. Þar tóku föðursystkini hennar ekki aðeins utan um hvert annað heldur kyssust á munninn bæði konur og karlar. Faðmlög og snerting er okkur hjónum því eðlileg. Tengdabörnum og vinum var það misjafnlega eiginlegt að faðmast þegar kynni hófust en allir sem ég hef stofnað faðmlagasamband við, tóku því vel þegar komið var yfir fyrsta þröskuldinn. Börn læra það sem fyrir þeim er haft segir máltækið. Barnabörnin eiga að gefa ömmu og afa faðmlag við komu og brottför þegar við hittumst. Ánægjulegt er að sjá að barnabörnin okkar faðmast oft þegar þau hittast. Ég faðma eðlilega ekki alla sem ég hitti og heilsa en þegar ég faðma einhvern hef ég tekið viðkomandi inn fyrir ákveðinn tengslahring.

Ég tel mikilvægi snertingar vera mikið og rannsóknir sýna að þær eru í raun heilsusamlegar. Á Internetinu fann ég grein sem heitir 10 ástæður fyrir því að við þurfum að lágmarki 8 faðmlög á dag. 10 Reasons Why We Need at Least 8 Hugs a Day. Í greininni segir að faðmlög séu ótvírætt mikilvæg leið til að bæta heilbrigði. Rannsóknir sýni að faðmlög, og einnig hlátur, séu áhrifamikil leið til þess að hafa góð heilsufarsleg áhrif t.d. á einmanaleika, þunglyndi, kvíða og streitu. Rannsóknir sýna að gott faðmlag þar sem hjörtun slá saman hafa eftirfarandi áhrif til góðs:

  1. Faðmlag skapar traust og tilfinningu fyrir öryggi og leiðir til opnari og heiðarlegri samskipta.
  2. Faðmlög auka Oxytocin gildi í líkamanum sem m.a. hafa góð áhrif á einmanaleika, einangrun og reiði. Oxotocin er af sumum nefnt ástarhormónið.
  3. Faðmlag í lengri tíma hefur áhrif á Serotonin gildin í líkamanum, bætir geð og eykur hamingjutilfinningu.
  4. Faðmlög styrkja ónæmiskerfið með því að örva Thymus kirtilinn sem jafnar framleiðslu líkamans á hvítum blóðkornum og viðheldur góðri heilsu.
  5. Faðmlög styrkja sjálfsöryggi. Flest erum við föðmuð og snert af fjölskyldu okkar frá fæðingu. Snerting síðar á ævinni minnir okkur á þessa upprunalegu snertingu og styrkir sjálfsöryggi okkar.
  6. Faðmlög slaka á vöðum og leysa spennu úr líkamanum. Faðmlög geta dregið úr verkjum og sársauka þar sem þau leiða til betra blóðflæðis.
  7. Faðmlög geta leitt til jöfnunar á taugakerfinu. Einstaklingar sem gefa og fá húðsnertingu sýna breytingar á leiðni húðarinnar sem leiðir til betri jöfnunar á taugakerfinu gegnum sjálfvirka hluta taugakerfisins (parasympathetic taugakerfið).
  8. Faðmlög kenna okkur hvernig á að gefa og þiggja. Við lærum að eiginleikinn að vera móttækilegur fyrir hlýleika ekki síður en að gefa, er mikilvægur og að streymið liggur í báðar áttir.
  9. Faðmlög eru eins og hugleiðsla og hlátur. Faðmlög kenna okkur að sleppa aðeins fram af okkur beislinu, njóta augabliksins og fara aðeins út fyrir hefðbundna hringinn.
  10. Orkan sem flyst á milli einstaklinganna við faðmlög er styrking á mannlegum tengslum. Þau hvetja til nánara sambands við aðra.

Þekkt er skilgreining Virginiu Satir sem er frægur fjölskylduráðgjafi. Hún sagði eftirfarandi: „Við þurfum 4 faðmlög á dag til þess að lifa af. Við þurfum 8 faðmlög á dag til þess að halda okkur við. Við þurfum 12 faðmlög á dag til þess að þroskast.

Margt fólk er snertifælið en aðrir vilja fleiri faðmlög. Ein rannsókn sýnir að þriðjungur fólks fær ekki daglegt faðmlag og 75% sögðust vilja fá fleiri faðmlög. Skemmtilegasti þáttur faðmlaga er að þau eru ekki framkvæmanleg nema einhver annar einstaklingur gefi á móti. Það þarf tvo til. Eigum við ekki að taka okkur saman og fækka þessum 75% með því að faðma þá sem okkur þykir vænt um. Það gæti leitt til betri heilsu og bætts mannlífs.

Þessi pistill birtist áður á Lifðu núna haustið 2015 og full ástæða til að rifja hann upp!

Þráinn Þorvaldsson júlí 11, 2022 06:55