Örsögur frá áramótum

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Jól og áramót eru tími tilfinninga. Góðmennskan er í fyrirrúmi á jólum og endurfæðing á sér stað um áramót. Gott eða slæmt ár er að baki og óskrifað tímabil hefst með nýjum vonum. Sumir halda því fram að við sækjumst eftir að endurlifa jól og áramót æsku okkar. Í þessum pistli mun ég að bregða upp svipmyndum frá nokkrum áramótum í ævi minni.

Kvöldverðurinn smakkaðist vel enda móðir mín lagin við matreiðslu. Lambahryggnum höfðu verið gerð góð skil svo og ísnum sem móðir mín hafði útbúið með kuldablöndu í snjónum úti á tröppum því enginn var ísskápurinn. Frændfólk kom í heimsókn síðar um kvöldið og vindlalyktin ilmaði. Svo leið að miðnætti og farið var að huga að flugeldunum. Ég er fæddur og uppalinn á Akranesi og faðir minn ásamt félögum sínum rak útgerð. Venjan var að skipta um flugelda um áramótin í bátunum svo að nóg var af flugeldum og blysum til að fagna nýju ári. Á nýársdagsmorgun héldum við strákarnir í leiðangur til þess að safna prikum, ekki í neinum sérstökum tilgangi. Ekki þótti verra að ná flugeldum með heilum fallhlífum sem voru vinsælar um tíma og mátti nýta til leikja.

Gott var að komast heim á hótel mömmu um jól og áramót þegar ég var í Menntaskólanum á Akureyri. Ég vann í fiski fyrir jólin til að afla fjár fyrir námskostnaði. Lestur fyrir próf sem fram undan voru í janúar var gjarnan settur til hliðar um jólin þrátt fyrir góð áform. Áramótin þýddu að nú yrði haldið aftur norður og hótel mamma yfirgefið.

Svo kom mín yndislega kærasta og síðar eiginkona til sögunnar þegar við vorum bæði við nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Stúlkurnar voru tvær sem höfðu hafið nám í viðskiptafræði og voru þá einu stúlkurnar í deildinni. Þegar við útskrifuðumst saman árið 1969 var Elín Guðrún Óskarsdóttir kona mín, 6. konan sem útskrifaðist sem viðskiptafræðingur um 20 árum eftir að kennsla í viðskiptafræðum hófst. Nú voru áramótin svolítið vandamál hjá okkur. Við leystum það með því að vera hjá foreldrum Elínar í Reykjavík á aðfangadagskvöld en um áramótin hjá móður minni á Akranesi sem þá var orðin ekkja.

Við Elín gengum í hjónaband eftir tiltölulega stutt kynni þegar við vorum á þriðja ári í Háskólanum og hófum búskap í lítilli kjallaraíbúð í Grænuhlíð. Haldnir voru áramótadansleikir á vegum háskólastúdenta. Minnist ég þess að við hjónin sóttum á gamlárskvöld glæsilegan síðkjóladansleik sem haldinn var á neðri hæð Háskólabíós.

Bretland fékk formlega aðild að Evrópubandalaginu 1. janúar 1973. Þau áramót var ég við nám í markaðs- og sölufræðum í Háskólanum í Lancaster. Áramótin voru ekki frídagar í Bretlandi fyrr en landið var orðið hluti af bandalaginu. Við höfum ekki efni á því að fara í jólafrí heim til Íslands. Heldur fannst okkur Elínu og Sif, 3 ára dóttur okkar, daufleg áramót þar sem horfðum út um gluggann á íbúðinni sem við leigðum í Morecambe nágrannaþorpi Lancaster og söknuðum fjölskyldu- og áramótafagnaðarins heima á Íslandi. Engir flugeldar eða ytri merki þess að nýtt ár væri að ganga í garð.

„Pabbi þú mátt ekki reykja, þú getur fengið krabbamein,“ sagði eldri dóttir mín þar sem ég kveikti á flugeldum á gamlárskvöld með aðstoð vindils. Ég hef aldrei reykt en þessi vindill var eina reyking ársins. Bæði langaði mig til þess endurskapa vindlalyktina sem var á æskuheimili mínu á gamlárskvöld og einnig var mun auðveldara að kveikja á flugeldum og blysum með vindli. Eftir þetta var aftur horfið til stormeldspýtnanna og árleg vindlareyking lögð af.

Við ákváðum eitt árið að dvelja með börnunum okkur þremur á Flórída yfir jól og áramót. Þetta voru jólin og áramótin sem okkur fannst við hafa týnt þótt við kynntumst nýjum siðum. En við söknuðum við heimahaganna, vina og fjölskyldu og hefðanna. Við fórum aldrei aftur í slíka áramótaferð.

Þegar börnin voru ung og bjuggu heima, spiluðum við á nýársdag gamla vinsæla jólaspilið Púkk. Frá spilinu eru komin ýmiss þekkt orðatiltæki eins og „að leggja í púkkið“ og „lukkunnar pamfíll“. Við spiluðum upp á eldspýtur eða krónur en fyrr á árum var gjarnan spilað um þorskkvarnir sem börn söfnuðu til þess að eiga sem mest af spilapeningum og jafnvel kaffibaunir.

Sérstakir atburðir hafa stundum komið upp í lífi mínu. Sumir vilja nefna slíkt tilviljanir aðrir handleiðslu. Ég hallast að hinu síðar nefnda. Ég hef alltaf unnið mikið og langan vinnudag. Oft hef ég farið á vinnustað minn utan vinnutíma en aldrei á hátíðisdögum og alls ekki á nýársdag. Ég var framkvæmdastjóri fyrirtækis sem hét Hilda, í níu ár. Fyrirtækið þróaði og flutti út ullarfatnað og var að stærstum hluta í eigu Tómasar og Hönnu Holton. Einn nýársdag að loknum hádegisverði fannst mér ég eiga erindi á skrifstofu fyrirtækisins sem var í Bolholti. Þegar ég kom inn á skrifstofuna, sem einnig hýsti móttöku handprjónavara, streymdi á móti mér gufa. Í ljós kom að stórt stykki úr ofni í handprjónamóttökunni hafði brotnað og sjóðandi vatnið streymdi um gólfið og var á leið fram í skrifstofuna. Ég kallaði til hjálparfólk m.a. frá tryggingarfélaginu og starfsfólk Hildu. Eftir að lokað hafði verið fyrir vatnið og húsnæðið hreinsað fór allt vel. Vel má hugsa sér afleiðingarnar, skjöl og húsnæði kannski ónýtt ef ég hefði ekki farið á skrifstofuna og sjóðandi vatnið hefði runnið allan daginn og nóttina fram á næsta dag.

Við hjónin getum stundum verið nokkuð ævintýragjörn. A-vagn er ferðavagn sem hefur veitt okkur mikla ánægju á sumarferðalögum. Þegar við vorum duglegust fórum við í síðustu útileguna á Þingvöll í lok nóvember. Þá snjóaði. Vagninn geymum við í bílskúrnum yfir veturinn. Um tvenn áramót ákváðum við að stelast með vagninn upp í Heiðmörk í eina nótt. Fyrri áramótin settum við okkur niður á bílastæði Heiðmerkur sem hæst stendur. Skemmtilegt var að horfa á flugeldana séð frá Heiðmörk. Nýársdagsmorgun var bjartur og fagur og þegar sólin kom upp og lýsti upp Bláfjöllin fór ég út og söng einn í auðninni, „Hvað boðar nýárs blessuð sól“. Seinni áramótin vorum við á öðrum stað. Algert logn var þá á gamlárskvöld og sérstakt var að horfa á reykinn frá flugeldunum leggjast eins og þoku yfir höfuðborgarsvæðið.

Við bjuggum í Hamborg í Þýskalandi um tíma. Við eigum breska vini og ákváðum að heimsækja þá um jól. Við snerum til baka á gamlársdag. Hlýtt var í veðri þegar við héldum til Bretlands fyrir jól og ákváðum við til öryggis að slökkva á olíukyndingunni í húsinu sem við leigðum á meðan við værum í burtu. Þegar við komum til baka var komið frost og heldur kalt í húsinu. Eftirminnilegt var þegar við settumst til borðs á gamlárskvöld klædd í útifatnað.

Margs er að minnast frá áramótum á langri ævi. Flest nútímafólk minnist ekki fátæktar og skorts um áramót eins og margir þeirra sem á undan okkur eru gengir. Þeir eru samt of margir sem eiga slíkar minningar nú á tímum. En um jól og áramót leitar hugur flestra til æskunnar og þeirra hátíðahalda sem þá voru í heiðri höfð. Nú eru það börnin okkar sem leiða nýjar hefðir um áramót og við foreldrarnir fáum að fylgja með. En minningar liðinna áramóta ylja okkur þeim eldri alltaf um hjartaræturnar.

Megi nýtt ár færa lesendum Lifðu núna farsæld og hamingju.

 

Þráinn Þorvaldsson desember 31, 2020 12:48