Inga Dgný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar
Einu sinni var kona sem komin var af léttasta skeiði og hún var haldin fullkomnunaráráttu. Það var henni stundum dálítið erfitt þar sem hún var bæði gigtveik og orðin nokkuð þreytt og stundum kvíðin. Hún hafði þó áráttu fyrir því að eiga að vinna að þúsund og einu verkefni á sama tíma, gera þau öll fullkomlega vel þannig að enginn gæti nú sett út á framkvæmdina. Allt varð að vera í fullkomnu lagi, úti og inni, bíllinn hennar og húsið, landið og miðin.
Hún hafði erft frá formæðrum sínum vilja til að taka ábyrgð á mörgu og byrðin var henni stundum þung. Þó hafði nú enginn lagt byrðina á herðar henni, hún hafði kosið sitt hlutskipti sjálf. Fullkomna konan (með gigtina) var samt ekkert að hugleiða hvaðan byrðin væri komin, hún bara var þarna og ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að vera fullkomin. Enda var hún svo ansi dugleg, allavega áður en hún varð svona þreytt og gigtveik, hún gat haldið húsinu hreinu, tekið slátur, soðið sultur, unnið, stýrt og stjórnað og tekið gráður í háskóla. „Til hvers að gera hlutina ef það á að kasta til þeirra höndunum“ átti hún það til að hugsa og í hennar huga voru bara til tvær útgáfur, fullkomið eða ekki fullkomið. Og það sem var ekki fullkomið var ekki verðugt neinnar athygli og ekki þess virði að það væri gert.
Góðviðrisdagar að hausti voru stundum ákaflega erfiðir því að eins og allir vita þarf að nota góð veður. Sérstaklega á haustin. Þá þarf að ganga frá í garðinum, þvo gluggana að utan, slá garðinn, klára að taka upp kartöflur, þrífa bílinn, fara í berjamó, skipta út sumarblómunum fyrir haustlyng, sjóða sultur og saft og nota svo útsölurnar til að byrja á jólagjafainnkaupunum, svona ásamt öðru smálegu. Ég ætla nú ekki einu sinni að segja ykkur frá jólamánuðinum, þá fyrst átti nú allt að vera fullkomið. Reyndar var því nú þannig farið að því fleira sem var fullkomið hjá konunni því fleira stakk fram höfðinu og heimtaði ámóta fullkomnun, en það er nú önnur saga og lengri.
Þegar fullkomna konan (en þó gigtveika) var þreytt þá var hún líka fremur óánægð með sig sem kom fram í því að henni fannst mikilvægara en nokkru sinni að hafa allt fullkomið. Því þreif hún og pússaði mun meira en venjulega og varð því að sjálfsögðu mun þreyttari fyrir vikið. Það var konunni erfitt að verða þreytt.
Maðurinn fullkomnu konunnar skildi voðalega lítið í þessu, hann hélt að það ætti að njóta góðviðrisdagana en ekki að nota þá. Hann var hinsvegar góður og vænn maður og vissi að hann átti að vera glaður með að eiga svona duglega konu en stundum fannst honum að hún væri að mæðast í aðeins of mörgu. Hann var bara fyrir löngu búinn að læra að láta kyrrt liggja, hún tók því ekki alltaf mjög vel ef hann lét að því liggja að hún gæti kannski gert aðeins minna.
Svo kom að því að fullkomna (en þó gigtveika) konan) varð alltof þreytt til að halda áfram að vera svona fullkomin. Hún reyndi aftur og aftur að byrja á öllum verkefnunum sínum en allt kom fyrir ekki. Hún hreinlega gleymdi hvað hún hafði ætlað að gera, komst ekki nema stutt inn í verkefnahrúguna þá fór allt í þrot. Þetta var hið versta ástand, fullkomna konan hágrét yfir eigin ófullkomleika og vissi ekkert í hvorn fótinn hún átti nú að stíga. Eiginmaðurinn reyndi allt til að hjálpa fullkomnu (nú ófullkomnu) konunni en það var erfitt. Honum hafði jú alltaf fundist hún fullkomin og honum fannst það líka núna en því gat hún ekki trúað.
Einn dag þegar konan var búin að liggja lengi og gráta fullkomna lífið sitt ákvað hún að nenna þessu ekki lengur. Hún fór á fætur, setti annan fótinn fram fyrir hinn á mjög svo ófullkominn hátt vegna gigtarinnar en uppgötvaði sér til mikillar gleði að hún gat samt gengið. Ekki kannski hlaupið en hún gat gengið og það dugði. Svo leið dagurinn og konan gerði ýmislegt ófullkomið en mest gerði hún ekkert og það var best af öllu. Þá fyrst gat hún farið að skapa og hugsa skemmtilegar hugsanir.
Maðurinn hennar kom heim úr vinnunni og gladdist ákaflega yfir því hversu konan var ófullkomin og elskaði hana meira en nokkru sinni fyrr.
Konan er nú vissulega ófullkomin en miklu léttari á sér en áður því að byrðin þunga er farin og það munaði nú sannarlega um minna. Góðviðrisdagar að hausti snúast nú oftar um ísbíltúra og sjaldnar um tiltekt og bara þegar orkan og gleðin eru til staðar. Slíkra daga er notið og stundum eru þeir notaðir. Nú er ófullkomna konan miklu glaðari en hún var áður, sulturnar hennar eru keyptar í búð og hún er mikið til hætt að stýra og stjórna.
Hún hefur skilið að hún sjálf var aldrei og átti aldrei að vera fullkomin og það var óþarfi að reyna að fela það með fullkomnum verkum. Ekkert er fullkomið í veröldinni og meira að segja náttúran sjálf gerir mistök. Nú er konan þakklát fyrir ófullkomleikann og gerir sitt ítrasta til að gleyma ekki því sem hún hefur lært.
Inga Eydal er nýr pistlahöfundur hjá Lifðu núna. Hún er bloggari og með því að smella hér kemstu inn á bloggið hennar.