Dúkkulísuleikur

Inga Dagný Eydal.

Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar

Þegar ég var lítil (algeng byrjun á pistlunum mínum) var einn af uppáhaldsleikjunum dúkkulísuleikur. Einhvernvegin held ég að börnum nútímans þyki ekki sérstaklega mikið til dúkkulísa koma. Ég hef margoft boðið frændsystkinum mínum að leika með dúkkulísurnar sem ég geymi enn en engum hefur hingað til þótt þær neitt spennandi. Þær eru jú flatar pappírsbrúður með frosinn andlitssvip en stóri kosturinn við þær voru öll hlutverkin sem hægt var að láta þær fara í. Þær áttu oftast alls kyns fatnað, þær gátu verið í sparikjólum, gallabuxum, regnkápum, vinnufötum … og ef að enginn fatnaður var til sem hæfði tilefninu eða hlutverkinu þá voru fötin teiknuð, lituð og klippt út. Þannig fór fram heilmikil hönnun, ekki bara hönnun á hlutverkum og mátun við þau heldur einnig fatahönnun með tilheyrandi útfærslum. Þessi sami hlutverkaleikur var leikinn með barbídúkkum og við systir mín gátum jafnvel leikið hlutverkaleik bara með okkur sjálfar undir dulnefnum — þetta gerðu flest börn og gera sjálfsagt enn. Það er mikilvægt að æfa sig fyrir lífið.

Með aldrinum koma svo á okkur kröfur um að leikurinn breytist í alvöru og æfingarnar breytast í fullmótað leikrit með bæði áhorfendum og gagnrýnendum. Þá er mikilvægt að hafa tileinkað sér það sem til er ætlast — nú er ekki bara spurningin um að hafa gaman af leiknum, nei nú þarf að velja hlutverkið með góðum launum, virðingu og metorðum og helst með samfélagslegu gildi — eða það þykir heldur vera plús. Í öllu falli þarf að velja og velja rétt. Sumum tekst reyndar betur til en öðrum og smellpassa í hlutverkin sín en aðrir halda bara áfram að vera tvívíðir og flatir … en það er nú önnur saga.

Hlutverk sem krefjast háskólanáms þykja göfug, þótt launin séu ekki alltaf há en ennþá nýtur starfsnám ekki sömu virðingar og bóknámið. Þó eru miklu fleiri sem geta auðveldlega lært að vera viðskiptafræðingar en smiðir. Smiðir er stétt sem hefur góða faglega menntun og býr að auki yfir handverksþekkingu sem fær mig til að vilja hneigja mig þegar ég mæti þeim á götu. Ættu að njóta endalausrar virðingar. Að ég tali nú ekki um störf sem ekki krefjast sérstakrar menntunar og fáa dreymir líklega um og þá meina ég að verða ófaglærður starfsmaður í nútíma samfélagi. Það hlýtur eiginlega að vera aðdáunarverðara en flest annað ef maður hugsar málið. Ég t.d. dáist meira að unga fólkinu sem vinnur á kassa í stórmörkuðum en flestum öðrum.

Að standa upp á endann og renna vörum undir geislann, hlusta á endalaust pípið í kassanum, horfa í augun á okkur þreyttum, tættum, geðvondum, jafnvel dónalegum en brosa samt. „Má bjóða þér poka, má bjóða þér afritið, takk fyrir og góða helgi“ — þetta er starf sem ég myndi ekki treysta mér til að vinna. Það voru engin dúkkulísuföt fyrir þetta starf.

Í gamla daga var það þó framtíðarstarf að vera starfsmaður í verslun. Konurnar í stóru búðinni voru í lekkerum nælonsloppum, þekktu öll börnin í hverfinu og unnu megnið af starfsævinni í sömu búðinni. Enda hafði ég lengi framan af ákveðnar væntingar um að verða búðarkona. Karlmennirnir voru annað hvort í kjötborðinu eða verslunarstjórar (auðvitað). En enginn hefur slíkar væntingar lengur og Systur og Svönur (þær hétu þetta í stóru búðinni) nútímans njóta ekki mikillar virðingar.

Nútíma íslensku samfélagi þykir sæmandi að borga flestum ófaglærðum, laun sem duga þeim ekki til framfærslu. Sama samfélagi þykir þannig sæmandi að lægstu laun dugi fólki ekki til að borga húsaleigu, leysa út lyfin sín, gefa börnum sínum hollan og góðan mat, fara til tannlæknis og svo mætti lengi telja. Okkur þykir sæma að þeir sem eru orðnir aldraðir og þeir sem ekki geta unnið vegna færniskerðingar og veikinda njóti sömuleiðis ekki þeirra sjálfsögðu réttinda í velferðarsamfélagi að hafa í sig og á.

Heill og hamingja eiga að geta verið allra en ekki bara þeirra sem eiga peninga og hafa völd í krafti þeirra. Öll okkar störf eru mikilvæg og við eigum öll skilið að njóta virðingar og velferðar, ekki bara 10% af lítilli þjóð. Því væri ráð að leggja dúkkulísurnar til hliðar og vera alvöru fólk.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Inga Dagný Eydal júlí 12, 2021 07:30