Tengdar greinar

Sumarið leggst vel í mig

“Hvenær kemur sumarið? Það kemur svona í júní. En þá er bara að gera eins og Eysteinn Jónsson fyrrum ráðherra sagði, Það er bara að fara út og klæða sig eftir veðri” , segir Kári Jónasson fyrrum fréttastjóri útvarps í samtali við Lifðu núna. Sumardagurinn fyrsti var mikill hátíðisdagur í fjölskyldu Kára. Faðir hans Jónas K. Jósteinsson var í stjórn Sumargjafar og undirbjó hátíðahöldin í borginni um margra ára skeið. Það voru skemmtiatriði í Bakarabrekkunni í Lækjargötu, Tjarnarbíói og víðar. Skátar, foreldrar og börn flykktust í bæinn. “Þetta var mikill dagur. Systir mín Kristín, átti stundum afmæli á sumardaginn fyrsta. Við fengum oft eitthvað nýtt eins og til dæmis sokka og gengum í bæinn með íslenska fánann”, rifjar Kári upp. Hann segir að þau hjónin fari ábyggilega ekki í bæinn í dag, en eiginkona hans Ragnhildur Valdimarsdóttir gefi börnunum alltaf eitthvað í sumargjöf.

Verður greinilega gott innlent ferðasumar

“Sumarið leggst vel í mig”, segir Kári. “Ekki síst eftir síðustu tilkynningar forsætisráðherrans um að allir eigi að verða frjálsir ferða sinna 1.júlí. Við hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík treystum á að við getum farið í ferðalögin sem búið er að skipuleggja í sumar. Við byrjum í maí og förum að öllu með gát. Þetta verður greinilega gott innlent ferðasumar og það er ekki úr vegi að fara eitthvað annað er bara á Gullfoss, Geysi og Þingvöll, Akureyri, Egilsstaði eða Stuðlagil”.

Örlagasaga Friðriks og Agnesar

Félag eldri borgara ætlar til dæmis að fara Vatnsneshringinn  í sumar og skoða Illugastaði þar sem þau Friðrik og Agnes drápu Natan Ketilsson. “Við ætlum að skoða æðarvarpið hjá henni Jóhönnu á Illugastöðum og líta á Hvítserk og selalátrin. Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum ætlar svo að segja okkur allt um Agnesi og Friðrik og fara með okkur á Þrístapa þar sem þau voru tekin af lífi, en afi hans og faðir komu nálægt þessari örlagasögu”.

Nýi Strandvegurinn spennandi

Kári segir ekki út vegi að benda þeim sem ætla að ferðast innanlands á, að það sé spennandi að fara Strandveginn svokallaða, sem var opnaður í fyrra. Sú leið liggur meðfram ströndinni frá Hvammstanga og að Þórshöfn á Langanesi. Vatnsnes hringurinn er ekinn og Tröllaskagi. Á þessum hring er ekið inn í Skagafjörð og komið þar við á öllum sögustöðum. Svo er farið til Siglufjarðar, Dalvíkur og Akureyrar. Þaðan er stefnan tekin á Húsavík, sem er að verða frægasti bær landsins, og ekið um Tjörnes og Melrakkasléttu til Þórshafnar. “Þetta er nýi strandvegurinn sem verið var að kynna í fyrra og menn hafa almennt ekki farið”, segir Kári. Hann segir að ætli menn að njóta ferðalagsins og skoða sig um, sé þetta tveggja daga ferð. Það sé hægt að taka hana í áföngum og gista á Akureyri.

Halda sig heima

Kári og Ragnhildur, ætla ekki að fara neitt til útlanda í sumar, en þau ætla að fara í ferð með gönguhópnum sínum eins og þau hafa gert á sumrin í næstum þrjátíu ár. Að þessu sinni ætlar hópurinn í Austur-Skaftafellssýslu. Þau ætla að vera á Brunnhóli, fara í kringum vestara Horn og skoða sig um við jöklana á Suðausturlandi.

Þau hjónin skella sér kannski í hjólreiðartúr á sumardaginn fyrsta, en þau fengu sér rafmagnshjól í fyrra og hjóla nú fram og tilbaka um höfuðborgarsvæðið. “Það er alveg ný og vistvæn upplifun að hjóla alla þessa stíga, sem liggja um höfuðborgarsvæðið. Manni finnst stundum hjólahóparnir á hjólastígunum fara býsna hratt, en það þurfa allir að gæta sín á hjólastígunum”, segir Kári.

 

 

Ritstjórn apríl 22, 2021 08:45