Brokkólí – ofurfæðutegund

 

Brokkólí er vítamínrík káltegund sem er í flokki ofurfæðutegundanna vegna gífurlegrar næringar sem þessi grænmetistegund gefur okkur. Nafnið er dregið af ítalska orðinu broccolo sem er blómið af káltegundinni og broccoli er fleirtalan af því orði. Íslenska heitið er spergilkál og óhætt er að fullyrða að er ekki nógu oft á borðum landsmanna. Spergilkál er ræktað í miklum mæli hér á landi og er sérlega ljúffengt hrátt en margir kjósa frekar að matreiða það. Hér gefum við nokkrar uppskriftir sem gott er að prófa sig áfram með en brokkólí er gott sem meðlæti með bæði fiski og kjöti. Hér er uppskrit að bokkóli þar sem það er eldað sem meðlæti með grænmetisbuffi frá fyrirtækinu Móðir jörð og er kallað brokkólíbuff. Í þeirri máltíð er mikið af þessari ofurfæðutegund.

Ristað brokkólí 

brokkólí, ferskt og skorið í bita

olía að eigin vali, má vera kókosolía

salt og pipar

100 g parmesanostur, rifinn

Hitið ofninn í 190°C. Hafið plötuna í miðjum ofninum. Skerið brokkólíið í bita og hafið hvern hæfilegan munnbita. Setjið bitana í skál og hristið saman með olíu og salti og látið helminginn af parmesanostinum smanvið. Gætið þess að allir bitarnir séu húðaðir með olíu og kryddi. Hér má setja 2 msk. af tamarisósu samanvið ef vill.

Dreifið nú bitunum jafnt á bökunarpappír og hafið bil á milli þeirra svo þeir nái að ristast. Látið ristast í ofninum í u.þ.b. 20 mínútur en gætið þess að þeir brenni ekki. Snúið bitum við eftir 10 mín. Dreifið afganginum af parmesanostinum yfir og berið fram heitt. Dreifið ristuðum möndluflögum yfir áður en rétturinn er borinn fram. Þær eru bæði ljúffengar og hollar.

Sólskinssósa

Sólskinssósa frá Móður jörð

sýrður rjómi

Blandið Sólskinssósunni til helminga með sýrðum rjóma.

Smjör­soðið brokkólí stend­ur fyr­ir sínu

Þeir sem kjósa einfalda eldamennsku er alveg óhætt að mæla með smjörsoðnu spergilkáli. Sjóðið það í 5  mínútur og hellið vatninu af. Setjið 50 g af smjöri í pottinn og látið bráðna yfir brokkólíið. Berið fram heitt.

 

Gómsætir brokkólíbitar

1 brokkólíhaus, skorinn í bita

¼ bolli fínt saxaður laukur

2 egg, þeytt

½ bolli cheddarostur

¼ bolli parmesanostur

¾ bolli brauðrasp

salt og pipar

¼ tsk. hvítlauks- og/eða paprikuduft

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið brokkólíið í 5 mín. Hellið vökvanum af bitunum og þerrið. Setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman. Látið brokkólíbitana út í þannig að þeir húðist vel. Setjið á smjörpappírsklædda ofnskúffu og bakið í 25 mínútur. Gott er að snúa bitunum eftir 10 mínútur. Berið fram með góðri sósu, t.d. tómatsósu ef börnunum finnst það gott.

Ritstjórn janúar 5, 2018 14:08