Tengdar greinar

Er öðruvísi að vera móðuramma en föðuramma?

Það er þekkt að ömmum, finnst munur á því að vera föðuramma eða móðuramma. Á  norska vefnum viover60.no er grein þar sem segir að föðurömmur óttist það meira en móðurömmur að verða útundan þegar kemur að sambandinu við barnabörnin.

Óttast að missa af barnabörnunum við skilnað

Greinin byggist á norskri rannsókn sem fjallar um ömmur og hvernig hlutverk þeirra hefur þróast í gegnum tíðina. „Það er erfitt að vera föðuramma“, segir Randi Karin Sivertsen sem hafði umsjón með rannsókninni. Hún tók viðtöl við nokkrar ömmur fæddar í kringum 1950, sem margar hverjar veltu fyrir sér mismuninum á að vera föðuramma eða móðuramma.

Föðurömmurnar voru uppteknar af sambandi sínu við tengdadæturnar. Ýmist af því þær voru hræddar við að ef til skilnaðar kæmi, myndu þær missa af barnabörnunum, eða vegna þess að skilnaður hafði átt sér stað og þeim var umhugað um að halda sambandinu við barnabörnin. Þær óttuðust að missa af þeim.

Ekki óeðlilegt

Félagsfræðingur sem vitnað er til í greininni, segir ekki óeðlilegt að föðurömmur hafi þessar áhyggjur, vegna þess að oft séu það mæðurnar sem beri aðalábyrgðina á börnunum eftir skilnað. Þær biðji foreldra sína frekar um aðstoð með börnin, en tengdaforeldrana. Hafi feðurnir minna samband við börnin eftir skilnað en áður, þá fylgi það yfirleitt líka sjálfkrafa að sambandið milli foreldra hans og barnabarnanna minnkar einnig.

Svarið við þessu er að föðurömmur verða að vera í góðu sambandi við syni sína, segir í greininni. Bent er á að oft hafi sambandið við móðurömmuna hvort eð er verið orðið meira, áður en til skilnaðar kom og er það skýrt með nánu sambandi mæðra og dætra. Þar sem mæður eru oft meira með börnin sín þegar þau eru mjög ung, en feðurnir, skapast frá upphafi sterkt samband milli barnanna og móðurömmunnar.

Flestum ungum mæðrum finnst auðveldara að leita til mæðra sinna eftir aðstoð, en tengdamæðranna. Þannig að þó að par skilji ekki, er samband barnabarnanna oft meira við móðurömmu og afa eð föðurömmu og afa. Ef fólk skilur verður þetta svo enn meira áberandi en áður.

Þurfa að hafa gott samband við synina

Það er samt sem áður ekki talið sjálfgefið að samband barnabarna við móðurömmur sínar sé meira og betra en sambandið við föðurömmurnar. Talið er að það sé hugsanlega að breytast, með breyttu föðurhlutverki. Þegar feður taki meiri ábyrgð á umönnun barnanna, séu meira með þau og taki hluta af fæðingarorlofinu, taki foreldrar þeirra líklega einnig meiri þátt. Ungbarnaferður beri ábyrgð á því að taka foreldra sína meira inní umönnun barnanna sinna.

Það er ekki ósennilegt að einhverjum föðurömmum finnist þær útundan og finnist erfitt að keppa við móðurömmurnar. En ábyrgðin á þessu liggur fyrst og fremst hjá föðurömmunni. „Hún verður að sjá til þess að hafa mikið og gott samband við syni sína og ef þeir taka föðurhlutverkið alvarlega, held ég að þetta leysist sjálfkrafa“, segir einn rannsakenda um þetta efni.

Ritstjórn nóvember 10, 2021 07:22