Reyndu að skilja karla sem eru komnir yfir sextugt

Er hægt að finna ástina með góðum manni eftir sextugt? Já, það er hægt, fullyrðir bandarískur stefnumótaráðgjafi sem hér gefur konum sextíu ára og eldri nokkur holl ráð.

„Ég veit það vegna þess að ég gerði það sjálf og margir skjólstæðinga minna hafa gert það sömuleiðis. Spurningin er bara hvernig? Þessi þrjú ráð sem ég ætla að gefa hér geta hjálpað þér að koma ástarlífi þínu í gang og aukið möguleika þína á að vekja hrifningu og ást sem varir.

1. Hugaðu að útliti þínu

Ég keypti alltaf sama toppinn í fimm mismunandi litum. Síðan mátaði ég þá við svartar gallabuxur og — ekki hlæja — Birkenstock-skó. (Þeir eru að vísu aftur komnir í tísku!) Þetta virkaði þegar ég byrjaði fyrst að fara á stefnumót, úthverfamamma á fertugsaldri, en það hætti að virka þegar ég fór á stefnumót á sextugsaldri. Ég mátaði bókstaflega allt sem ég átti innan um hrúgu af fötum. Samt hafði ég ekkert til að klæðast á stefnumóti. Það kemur svo sem ekki á óvart miðað við hvað ég var gamaldags í tískunni.

Að lokum kviknaði á perunni hjá mér og ég áttaði mig á því að ég þurfti að uppfæra eitt og annað í lífi mínu. Ég fór til hárgreiðslukonunnar og bað um strípur. Hún hló og sagði mér að nú væri það kallað að „highlighta“. Einnig fór ég í fótsnyrtingu.

Ég losaði mig við skóna, gallabuxurnar og alla mislitu toppana sem ég var með í fataskápnum. Ég man að ég fann fimm bleikar blússur, 10 svarta stuttermaboli og nokkrar pólóskyrtur í ýmsum litum. Engin furða að ég skyldi ekki finna neitt til að klæðast á stefnumóti.

Loks fann ég verslun sem bauð persónulega ráðgjöf í fatavali mér að kostnaðarlausu. Þannig öðlaðist ég breytt útlit með þrenns konar múnderingu sem ég gat blandað saman fyrir stefnumót. Og þegar ég fór á stefnumót leið mér ótrúlega vel. Að lokum var ég farin að koma fram af öryggi og sýna frumkvæði — nokkuð sem karlar laðast að í fari kvenna.

2. Reyndu að skilja karla sem eru komnir yfir sextugt

Karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri eru ekki sömu strákarnir og þú kynntist á unglingsárunum eða um tvítugt. Þeir hafa breyst í gegnum árin, rétt eins og við. Karlar vilja umfram allt fá að vera karlar, ekki konur í karlmannslíkama. Þeir tala og hlusta á annan hátt en við konur.

Ég hef kennt mínum skjólstæðingum að nota töfrasetninguna „geturðu aðstoðað mig?“ Eða: „Viltu gera mér greiða?“ Þessi orð vekja gjarnan hetjuna sem vill koma til bjargar með tilþrifum sem valda því að okkur líður eins og við séum dáðar og elskaðar. Karlar vilja sannarlega gera konuna í lífi sínu hamingjusama. Gættu þess bara að meta viðleitni hans þegar hann gerir það.

Treystu mér, þessi orð eru göldrótt. Ég hef séð hvernig þau virka í eigin lífi og lífi skjólstæðinga minna. Prófaðu að nota þau á mennina sem þú vilt laða að þér og halda í.

3. Ekki reiða þig eingöngu á stefnumótavefi

Stefnumótasíður geta verið erfiðar yfirferðar í leitinni að ástinni. Þær eru afar einhliða. Allir taka skyndiákvörðun á forsendum ljósmyndar. Þannig ferðu á mis við fjölda frábærra manna sem myndast kannski ekki vel eða eiga erfitt með að lýsa persónuleika sínum í orðum.

Notaðu endilega stefnumótavefi, en farðu líka út og hittu karlmenn í eigin persónu. Þannig færðu betri yfirsýn, þú sérð hvernig maðurinn lítur út, hvernig persónuleiki hans er og hvernig þetta tvennt samsvarar sér.

Einn skjólstæðingur minn hitti manninn sinn á Meetup.com, annar hitti eiginmann sinn á biðstofu.

Byrjaðu að tala við karlmenn hvar sem þú ert og lærðu að daðra. Að mínu mati verðum við aldrei of gömul til að daðra og það er gaman! Nei, þú þarft ekki að blikka augunum látlaust, en þú vilt brosa nóg.

Önnur leið til að finna manninn er í gegnum sambandsráðgjafa eða matchmaker sem leitar einhvers sem passar við þig. (Því miður er þessi starfsstétt ekki til hér á landi, svo vitað sé, en kannski væri þetta atvinnutækifæri fyrir einhvern!) Kosturinn við að nota slíka ráðgjafa er sá að þeir rannsaka gaumgæfilega gagnaðilann áður en þið hittist; nokkuð sem þú þarft að gera sjálf á netinu með því að fletta í gegnum tugi prófíla.

Hvort heldur sem þú notar stefnumótavef, hittir karlmenn í raunveruleikanum, eða notar ráðgjafa, þá þarftu samt að hitta marga karlmenn til að finna prinsinn þinn.

Að fara á stefnumót er eins og að leita að draumastarfinu. Þú verður að vita hvað þú vilt og hvernig þú ætlar að fá það. Ábendingarnar þrjár sem ég hef deilt hér eru frábær leið til að byrja.“

Ritstjórn september 7, 2021 07:00