Tengdar greinar

Vegferðin úr lituðu hári í grátt

Ertu búin að ákveða að láta gráa litinn í hárinu vaxa fram? Langar þig til að hætta að lita hárið og leyfa gráa litnum að njóta sín? Ef þú hefur aldrei litað hárið og það hefur fengið að grána í ró og næði á löngum tíma, þarf ekkert að gera. En ef ekki og þú hefur litað hárið, tekur breytingin ákveðinn tíma. Á meðan er hárið ekki alltaf sérlega fallegt á litinn og þess vegna leitaði vefsíðan, sixty and me ráða hjá sérfræðingum, svona fyrir þá sem eru að velta fyrir sér að draga gráa litinn sinn fram í dagsljósið. Hvernig er best að fara að þessu? Úr varð þessi litla grein sem fylgir hér stytt og endursögð.

Guggnaði á gráa hárinu

Greinarhöfundurinn segist hafa verið orðinn ansi grár í rótina eftir Covid og alls kyns lokanir sem fylgdu í kjölfarið, enda hafði hún ekki komist á hárgreiðslustofuna í nokkra mánuði og fannst þess vegna alveg upplagt að klára dæmið og láta hárið bara verða grátt. En því miður segir hún, guggnaði hún á þessu og dreif sig til hárgreiðslukonunnar sinnar um leið og það var hægt í lok árs 2020, til að fá hana til að lita hárið aftur.

Það tekur tíma fyrir gráa hárið að vaxa fram

Gerir gráa hárið mig gamla?

Þegar fólk fór að umgangast á ný eftir heimsfaraldurinn fór hún að hitta vinkonur sínar aftur og fannst þá virkilega flott hvað margar þeirra voru orðnar alveg gráhærðar, eða komnar með „salt og pipar“ lit.  Það sem olli henni hins vegar áhyggjum var aldursþátturinn í því að verða gráhærður. Hún segist ekki alveg skilja hvers vegna, því þegar hún horfi á vinkonur sínar svona fallega gráhærðar, finnist henni þær líta ótrúlega vel út. En þegar hún hugsi um sjálfa sig með grátt hár, þá finnist henni að hún muni eldast um 20 ár við að verða gráhærð. Og hárgreiðslufólk hafi jú bent  á að konur þurfi að vera ákveðnar og sáttar við þá ákvörðun sína að leyfa gráa hárinu að vaxa, ef þær fari út í það á annað borð.

Ráð fyrir þá sem vilja hætta að lita

Hér á eftir fara nokkur ráð frá fagfólki í hárgreiðslu, um hvernig hægt er að ganga í gegnum það að hætta að láta lita hárið og verða gráhærður á auðveldan og þægilegan hátt.

  • Prófið að setja hárið upp   Eitt ráðið er að setja hárið upp á meðan það er að grána. Það getur hjálpað til við að blanda gráa litnum saman við litaða hárið á fallegan hátt, sem eykur ánægjuna og hvetur konur áfram.
  • Látið setja strípur í hárið  Það getur verið góð leið til að leyfa hárinu að grána í rólegheitum að fá hárgreiðslukonuna þína til að setja í þig strípur í tveimur litum. Þá er annar liturinn hafður aðeins dekkri en náttúrulegi liturinn sem þú ert með, en hinn hafður svolítið ljósari en þinn eiginn litur er. Grái liturinn stingur þá ekki jafn mikið í stúf og hann myndi gera ef hann vex út í „einlitu“ hári.
  • Klippið hárið stutt  Það getur verið auðveldara að láta gráa látinn vaxa fram ef hárið er stuttklippt. Litamunurinn verður ekki jafn áberandi og það tekur skemmri tíma  en ella að láta hárið verða alveg grátt.
  • Hugsið vel um hárið  Hársérfræðingarnir minna á að það þurfi að hugsa vel um hárið þegar það fer að grána. Það er mikilvægt að nota olíu eða næringu í hárið og sleppa því til dæmis að vera stöðugt að blása það með heitum blásara. Málið er að hárið haldist áfram skínandi og heilbrigt.
  • Farið rólega í að láta gráa hárið vaxa  Sérfræðingunum ber saman um að það sé gott að fara rólega í að láta gráa hárið vaxa fram. Og breyta litaða háralitnum smám saman, þannig að hann blandist gráa litnum vel á nokkuð löngum tíma. Þá stendur grái liturinn að lokum einn eftir.
Ritstjórn janúar 26, 2023 07:00