Eitt af því sem við tökum með okkur út úr Covid tímabilinu er að það þarf ekki að fara til útlanda í leit að einstakri upplifun og ævintýrum. Ísland
hefur margt upp á að bjóða af veisluborði hinnar einstöku náttúru. Gönguleiðir hafa verið skipulagðar, stígar lagðir og ár verið brúaðar. Þannig að komast má þurrum fótum inni á milli fjalla í dýrlegu umhverfi. Sumir vilja frekar vaða og þá er það líka hægt en brýrnar auðvelda öllum aðgengi og mikilvægt er að byggja upp meginleiðir. Einn af þeim sem staðið hafa fyrir framkvæmdum og skipulagningu á þessu sviði er Gunnlaugur Benedikt Ólafsson en hann er uppalinn og ættaður frá Stafafelli í Lóni, sem er forn kirkjustaður. Þar er merk saga helgigarðs í þúsund ár með hjáleigum og fjallabýlum.
Frá Stafafelli liggur meginleið um Eskifell, Kollumúla og Víðidal og er hún kölluð Austurstræti. Þessi 50 km leið er eitt stórkostlegasta þversnið
íslenskrar náttúru. Frá votlendi og fuglalífi um birkihvamma, litskrúðug gil og sundurskorin gljúfur að hæstu tindatoppum og gróðurlausum hálendismelum. Út frá Austurstræti er hægt að ganga yfir í næstu sveitir, inndali Álftafjarðar og inndali Fljótsdals. Frá Eskifelli má ganga inn Skyndidal yfir í Hoffellsdal. Með göngubrú á Víðidalsá sem lokið var á síðasta ári kom þessi samtenging á öllu fjalllendi Stafafells. Nú er hægt að fara þurrum fótum alla leið yfir fjórar brýr, þ.e. Hnappadalsá,
Jökulsá við Einstigi. Jökulsá við Kollumúla og svo Víðidalsá. Þarna er ævintýraveröld sem myndar hið fagra millispil milli skriðjökla í suðurátt og djúpra fjarða í austurátt. Eystra og Vestra Horn eru útverðir fjallahringsins sem eru 12 milljón ára djúpbergs innskot. Fjöllin tengjast merkilegri jarðfræði með fjölbreytileika í litum og formum.Á myndunum hér má sjá sýnishorn af himneskri náttúrufegurð svæðisins.
Allar myndir eru teknar af Gunnlaugi B. Ólafssyni.