Lítið samfélag á hjólum

Félagsmenn á tjaldsvæðinu á Hvammstanga.

„Það er einstaklega rómantískt og skemmtilegt að ferðast um landið á húsbíl. Ég veit eiginlega ekkert jafn skemmtilegt. Svo er það fólkið sem maður kynnist á þessu ferðalögum,  það er svo skemmtilegt að þú trúir því varla,“ sagði Elín Fanndal formaður Félags húsbílaeigenda glaðlega þegar Lifðu núna náði tali af henni þar sem  hún var stödd á tjaldsvæðinu á Blönduósi. Framundan er heil vika af skemmtun því „stóra ferð“ Húsbílafélagsins stendur nú yfir.  Rúmlega 100 húsbílaeigendur verða á ferð um Norð-Austurland og lýkur ferðinni í Ýdölum um næstu helgi þar sem verða mikil hátíðahöld.

„Við munum grilla mikið, hlæja mikið, dansa mikið og syngja enn meira,“ segir Elín. Hún segir að hún og maður hennar séu búin að vera í félaginu í ellefu ár. Þau hafi verið búin að heyra af félaginu og ákveðið að prófa að fara eina ferð  og það hafi verið svo gaman að þau hafi ákveðið að ganga í félagið. „Maður kynnist fólki alveg á nýjan hátt og  kynnist fólki allsstaðar að af landinu. Þetta er sérstakur félagsskapur, það má segja að þetta sé lítið samfélag á hjólum. Sama fólkið hittist í þessum ferðum ár eftir ár og það heldur tryggð hvert við annað. Svo bætast alltaf einhverjir nýir við eins og gengur,“ segir Elín.

Fólk á öllum aldri skemmtir sér saman.

Hún segir að flestir í félaginu sé fólk á miðjum aldri. Margir haldi að þetta sé félagsskapur ellibelgja en svo sé alls ekki.  Yngsti félaginn sé 36 ára og sá elsti 96. Aldurbilið sé því mjög breytt. „Þegar við gengum í félagið vorum við með þeim yngstu og áratug síðar vorum við enn með þeim yngstu. Það fannst okkur umhugsunarefni og ákváðum að reyna að yngja upp í félaginu. Til þess höfum bryddað upp á ýmsum nýjungum svo sem að hafa sérstaka fjölskylduferð um hvítasunnuna sú fyrsta var í vor.  Þá voru börn og unglingar boðin sérstaklega velkomin og dagskráin var sniðin af þeirra þörfum. Þetta tókst vel og í kjölfarið fjölgaði yngra fólki í félaginu svo nú erum við ekki lengur yngst,“ segir Elín og skellihlær.

 Félag húsbílaeigenda skipuleggur átta ferðir yfir sumartímann.  Tvær nefndir eru starfandi á vegum félagsins, skemmtinefnd og ferðanefnd. Eins og nafnið bendir til þá sér ferðanefndin um að skipuleggja ferðirnar en skemmtinefndin hefur það hlutverk að skipuleggja skemmtidagskrá. „Annars er Félag húsbílaeigenda líka hagsmunafélag. Við reynum hvað við getum að fá afslætti bæði í verslunum og á tjaldsvæðum. Félagsmenn fá líka helmings afslátt af skoðunum á bílum sínum. Það má segja að félagsgjaldið sem er 9000 krónur fyrsta árið og síðan 7000 krónur eftir það borgi hálfa skoðunina en það kostar um 20 þúsund krónur að skoða hvern húsbíl. Þetta er því góður díll,“ segir Elín.  Þegar hún er spurð hvort að það fari ekki í taugarnar á öðrum ferðalöngum þegar þeir sjá langa röð af húsbílum úti á vegum fer hún að hlæja. „Félagið er orðið 36 ára og fyrst eftir að það var stofnað voru menn að keyra í röð en það er löngu liðin tíð. Fyrstu árin var til siðs að segja fólki að það ætti að leggja af stað á ákveðnum tíma og þá voru allir tilbúnir og fólk lagði í hann saman.

Húsbílar eru allskonar. Hér er Blái naglinn sem þau Elín og Daði Þór eiga.

 Það er langt síðan þessu var hætt. Nú leggja menn af stað þegar þeim hentar,  hver og einn ræður hvenær hann heldur út á þjóðvegina. Sumir halda líka að menn geri ekki annað en drekka í þessum ferðum og þetta sé eintómt vesen. Það er líka þjóðsaga. Auðvitað fá menn sér í glas en það eru aldrei læti eða leiðindi. Við gerum hins vegar mikið af því að spila, borða saman, syngja og dansa. Það er oft slegið upp balli bæði föstudags- og laugardagskvöld,“ segir Elín og hvetur fólk til að ganga í félagið það sé svo ótrúlega gaman. Hún segir að börn og unglingar séu velkomin í ferðir félagsins. Þeim þyki yfirleitt gaman í ferðunum enda sé ýmislegt gert til að skemmta þeim. Krökkunum  þyki gaman að kynnast öðrum krökkum og fá að vera með afa og ömmu eða pabba og mömmu úti í íslenskri náttúru. Þeir sem vilja kynna sér Félag húsbílaeigenda nánar geta farið á heimasíðu félagsins húsbill.is.  

 

Ritstjórn júlí 12, 2019 08:01