Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar
Þegar ég var í kennaranámi fyrir margt löngu síðan las ég um rannsókn á því hvaða áhrif væntingar kennara gátu haft á framistöðu nemenda. Í ljós kom að ef kennari hafði miklar væntingar til nemenda varð framistaða þeirra og námsárangur betri og svo öfugt, ef kennari hafði litlar væntingar til nemenda þá varð árangur þeirra lakari. Mér fundust niðurstöður þessarar rannsóknar mjög athyglisverðar og rifjaði þær reglulega upp fyrir mér eftir að ég fór að kenna. Í þessum niðurstöðum var vísbending um ábyrgð kennarans gagnvart nemendum; ef kennari vænti mikils af sínum nemendum mátti ætla að framistaða þeirra yrði betri en ella.
Þessi rannsókn rifjaðist upp fyrir mér núna þegar ég las um rannsókn sem gerð var í háskólanum í Kent í Bretlandi. Rannsóknarteymi rýndi 37 alþjóðlegar rannsóknir til að kanna það sem kallað hefur verið aldursbundin ógn af staðalímyndum (Age Based Stereotype Threat (ABST)). Niðurstaðan er að neikvæðar staðalímyndir um aldraða geta haft áhrif á minni þeirra og andlega getu og virðast hafa sambærileg áhrif á karla og konur. Viðmót gagnvart hinum eldri eins og að fara að tala hægar við þau og gera þannig ráð fyrir lakari heyrn og hægari virkni, virtist nægja til að draga úr andlegri getu þeirra.
Þetta eru afar mikilvægar niðurstöður nú þegar eldra fólki er að fjölga mikið. Samfélagið hefur ekki efni á því að gera eldra fólk gamalt fyrir aldur fram. Eitt af því sem skiptir þar máli er augljóslega að vinna gegn aldursfordómum og halda því að okkur öllum og minna okkur á,að það er ekki endilega samasem merki á milli aldurs og skertrar andlegrar getu. Það er full ástæða til að endurmeta stöðu eldri aldurshópa í ljósi þess að fólk er almennt við betri heilsu og hefur meiri menntun og efni en fyrri kynslóðir. Það er líka sífellt að verða til betri þekking á möguleikum þess að halda bæði andlegri og líkamlegri heilsu lengur og vísa ég þar m.a. til rannsókna Dr. Janusar Guðlaugssonar um mikilvægi hreyfingar fyrir eldri aldurshópa.
Stundum er talað um að lifa upp til væntinga einhvers og er þá í raun verið að vísa í viljann til að standa sig eins vel og vænst er. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að nú þegar verði farið að skoða það með hvaða hætti hægt er að vinna gegn aldursfordómum og gera eðlilegar kröfur og væntingar til eldra fólks um þátttöku og framlag til samfélagsins. Þar þurfa að koma að bæði atvinnulífið og hið opinbera. Samfélagið hefur ekki efni á því að rýra getu hina stóru hópa sem nú eru að komast á lífeyrisaldur og gera þau gömul fyrir aldur fram.