Heilinn slappast ekki ef hann er þjálfaður líkt og vöðvi

Námið fangaði mig gjörsamlega, segir Gísli.

Gísli hyggur á ritun pólitískar ævisögu sinnar.

„Þegar ég settist niður fyrir rúmum þremur árum til að skrifa um reynslu mína af stjórnmálum í nær hálfa öld gerði ég mér ljóst að ég hafði ekki þekkingu til að skrifa og greina, frekar en veðurglöggur bóndi í hlutverki veðurfræðings. Það var því ekki annar kostur en að setjast á skólabekk og nema fræðin,“ segir Gísli Baldvinsson sem útskrifaðist með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands í júní. Áður hafði hann lokið gráðu í náms- og starfsráðgjöf.

Liðtækur bloggari

Gísli er mörgum kunnur vegna afskipta sinna af stjórnmálum, hann hefur verið einn af liðtækari bloggurum landsins um áratuga skeið. Fyrst á Moggablogginu og síðar á Eyjunni. Um þessar mundir bloggar hann á Stundinni. Í kynningu á honum þar segir: Hann bloggar að mestu um þjóðfélagsmál og málefni líðandi stundar. Ekkert er honum óviðkomandi. Einkunnarorð hans eru: jöfnuður-réttlæti-sanngirni.  Það þarf því ekki að koma á óvart að lokaritgerðin hans fjallar um stjórnarskrármálið titillinn er: Stjórnarskráin-stagbætta flíkin og undirtitillinn er: Hvers vegna fjaraði undan stjórnarskrármálinu 2009-2013?

Námið fangaði mig

Gísli segist hafa farið í stjórnmálafræðinina án þess að hafa sett sér ákveðið markmið . „Fyrst svona án þess að taka próf eða vera í fullu námi. En viti menn, námið fangaði mig algerlega og áður en ég vissi var ég farinn að taka próf og skila verkefnum. Í byrjun fór mikill tími í lestur og grúsk en líkt og í líkamsrækt þjálfast maður. Heilinn slappast ekki með aldrinum ef hann er þjálfaður líkt og vöðvi. En ég hafði líka góðan tíma, kominn á eftirlaun og eigin herra.“

Fann ekki fyrir aldursmun

Lokaritgerðin í höfn.

Lokaritgerðin í höfn.

Hann segir að honum hafi verið vel tekið af samnemendum og kennurum. „Bæði nemendur og kennarar tóku mér mjög vel og reyndar fann ég aldrei fyrir aldursmun nema að þegar kennarar og nemendur spurðu mig um einstaka atburði semgerðust á seinni hluta 20. aldar. Það er upplifun minni af þeim atburðum. Þetta var bæði fyrir mig og aðra skemmtileg greining.“

Líkt og veðurfræðin

Hann segir að nánast allt hafi komið honum á óvart í náminu.„Fyrir mig gamlan hund í pólitíkinni var mikill lærdómur að beita vísindalegum aðferðum og sannreyna atburði  með talnavísindum. Stjórnmálafræði líkt og veðurfræði er skoðun á liðnum atburðum, greining á atburðum og spá fyrir um framvindu út frá talnagögnum og reynslu.“

Pólitíski reikningurinn

„Sá sem fer í nám á miðjum aldri eða síðar er skipulagðari og hefur betra yfirlit um skilvirkni í námi. Það gat ég sjálfur metið sem náms- og starfsráðgjafi.“ Að lokinni útskrift frá Háskólanum hélt Gísli til Spánar og naut þess að vera í fríi þar um hríð. Hann segist ekki enn vera farinn að skoða að fara í framhaldsnám. „Það kemur til mín síðar ef löngunin kallar,“ segir Gísli. Það er þó ýmislegt á döfinni hjá honum. „Framundan er ritun pólitískrar ævisögu minnar. Ekki endilega til þess að græða á slíkum skrifum miklu frekar að gera upp þann pólitíska reikning fyrir mína sál.“

Ritstjórn júlí 8, 2016 09:47