Þriðjudaginn 1. febrúar mun nýrri vefsíðu Stafraent.is verða hleypt af stokkunum, en þar mun verða að finna margs konar upplýsingar og hjálpartæki til að bæta tölvufærni fólks, bæði almennings og starfsmanna fyrirtækja. Vefurinn er samstarfsverkefni Samtaka verslunar og þjónustu, VR og Háskólans í Reykjavík sem jafnframt nýtur stuðnings ríkisins.
Á hinum nýja vef Stafraent.is verður líka að finna niðurstöður úr glænýrri könnun á tölvufærni þjóðarinnar. Niðurstöðurnar staðfesta meðal annars það sem fyrri slíkar kannanir hafa sýnt – að elstu aldurshóparnir skera sig nokkuð úr þar sem þeir meta kunnáttu sína á þessu sviði lakari en hinir yngri.
Eva Karen Þórðardóttir, framkvæmdastjóri verkefnisins Stafraent.is, útskýrir að til standi að á nýja vefnum eigi bæði starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja, en ekki síður einstaklingar og almenningur allur, að geta nálgast gagnlegar upplýsingar um allt sem varðar stafræna hæfni, eins og það er kallað. Með því er átt við bæði almenna tölvufærni og aðra hæfni sem þarf til að geta nýtt sér öll þau tækifæri sem í hinum margvíslegu stafrænu lausnum nútímans (og framtíðarinnar) felast.
Vilja „brúa stafræna hæfnibilið“
„Þetta á að vera svona fyrsta stopp fyrir alla þá sem sýna því áhuga
að bæta stafræna hæfni sína eða starfsmanna í fyrirtækjum,“ segir Eva Karen í samtali við Lifðu núna. Aðstandendur Stafraent.is hafa sett sér það markmið að „brúa stafræna hæfnibilið“, en með því er átt við bilið milli þeirra sem hafa hæfnina til að nýta tækni stafrænnar umbreytingar í sína þágu og geta þannig notið ávinningsins af henni og hinna sem eftir sitja. „Bilið á jafnt við á milli einstaklinga, fyrirtækja og þjóða og það er bæði gríðarlega mikilvægt og risastór áskorun að brúa það og tryggja að íslenskir einstaklingar, fyrirtæki og þjóðin öll séu meðal þeirra fremstu í heimi í nýtingu stafrænnar tækni til að tryggja samkeppnishæfni og lífsgæði,“ segir Eva Karen.
Sjálfspróf og ábendingar um námskeið
Á nýja vefnum verða tenglar á sjálfspróf sem hjálpa fólki að meta hvar það stendur í tölvufærni/stafrænni hæfni. Þar er bæði um að ræða Stafræna hæfnihjólið, sem VR hefur haldið úti í nokkur ár (og fjallað var um hér fyrir skemmstu), en líka annað próf sem hefur þann kost að vera svolítið einfaldara en Stafræna hæfnihjólið. Síðarnefnda prófið hefur þó þann galla að vera (enn sem komið er) bara á ensku.
Eva Karen segir að á grundvelli niðurstaðnanna úr áðurnefndri könnun komi skýrt í ljós á hvaða sviðum stafrænnar hæfni fólki finnst það helst skorta kunnáttu. Á grunni þessara upplýsinga sé nú þegar verið að undirbúa námskeið sérsniðin til að gera fólki kleift að bæta sig á þeim sviðum sem það telur sig helst skorta kunnáttu. Það sé von aðstandenda Stafraent.is að allir sem taki slíkt sjálfspróf muni í beinu framhaldi af greiningunni sem út úr prófinu kemur geta skráð sig á námskeið sem „adresseri“ greinda veikleikaþætti viðkomandi á sviði stafrænnar hæfni. Yfirlit yfir þau námskeið eigi að verða að finna þar á sama stað, og þannig skapist „one stop shop“ fyrir fólk sem vill gera eitthvað í því að bæta stafræna hæfni sína.
Eva Karen vekur líka athygli á því að einu sinni í mánuði verði á vegum Stafraent.is haldinn svonefndur Stafrænn morgunn, opinn fræðslufundur á netinu þar sem sérfræðingar halda erindi og svara spurningum áhugasamra.
Liður í stefnumörkun um samkeppnishæfni
Í inngangstexta á Stafraent.is kemur fram, að hin Norðurlöndin eru meðal fremstu þjóða á sviði stafrænnar umbreytingar í atvinnulífi og á vinnumarkaði á meðan vísbendingar eru um að Ísland sé að dragast aftur úr. Forsvarsmenn þessara mála á Norðurlöndunum eru sammála um að samstarf er lykilatriði þegar kemur þessum málum. Markmiðið með verkefninu Stafraent.is er því að vinna að vitundarvakningu, upplýsingagjöf og eflingu stafrænnar hæfni meðal Íslendinga, svo að „íslenskir einstaklingar, fyrirtæki og þjóðin öll séu meðal þeirra fremstu í heimi í nýtingu stafrænnar tækni til að tryggja samkeppnishæfni og lífsgæði,“ eins og framkvæmdastjórinn Eva Karen Þórðardóttir segir.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.