Hvernig met ég tölvukunnáttu mína?

Það eru ekki nýjar fréttir fyrir lesendur Lifðu núna að það er mikilvægt að viðhalda og helst stöðugt vera að bæta færni sína í að nýta sér tölvutæknina. Án slíkrar viðleitni er hætt við að maður verði fljótt utangátta í samfélaginu, sem verður stafrænna með hverjum deginum. Og sú þróun á bara eftir að halda áfram sbr. umræðuna um gervigreind og fjórðu iðnbyltinguna.

Ein aðgengileg og áhugaverð leið til að leggja mat á færni sína á þessu sviði er „Stafræna hæfnihjólið“ svonefnda. VR heldur Stafræna hæfnihjólinu úti, en það er ókeypis sjálfsmatspróf sem maður tekur á vefnum til að kortleggja stafræna hæfni sína. Í prófinu eru „sextán hæfnisvið greind á þínu persónulega hæfnihjóli,“ eins og því er lýst á síðunni stafaenhaefni.is. Á grundvelli niðurstaðna úr prófinu eru dregin út þrjú svið sem próftaka er ráðlagt að einbeita sér að því að styrkja. Með þær ráðleggingar í farteskinu er auðveldara að meta hvers konar endurmenntunarnámskeið hentar best til að styrkja sig á einmitt þeim sviðum þar sem skóinn helst kreppir.

Um stafræna hæfnihjólið

Markmiðið með stafræna hæfnihjólinu er að veita yfirsýn yfir hvaða mismunandi stafrænu hæfnisvið eru til og skipta máli, ásamt beinum uppástungum um hvernig auka megi hæfni á mikilvægustu sviðunum.

Stafræna hæfnihjólið var búið til af Center for digital dannelse, sem frá árinu 2009 hefur einbeitt sér að málefnum er varða stafræna hæfni og fræðslu því tengdu. Stafræna hæfnihjólið er fjármagnað af DIGCOMP, stóru rannsóknarverkefni hjá

Helstu svið stafrænnar hæfni hvers einstaklings.
Skýringarmynd Stafraenhaefni.is/Center for Digital Dannelse

Evrópusambandinu, sem sett var á fót í kjölfar þess að Evrópuþingið útnefndi stafræna hæfni sem eitt af átta kjarnahæfnisviðum símenntunar. Þýðing og kostun vefsins á Íslandi er fjármögnuð af VR.

Eftir Anders Skov hjá Center for Digital Dannelse er haft að tæknin sé í stöðugri þróun og opni sífellt á nýja möguleika. „Skilgreiningin á stafrænni hæfni er því síbreytileg og skal ávallt skoðast með hliðsjón af tæknilegu samhengi nútímans og hvernig við tileinkum okkur hana í leik og starfi.“

Mælingar á stafrænni notkun og netnotkun í Evrópu snúast nú meira um að greina aðgang og notkun en raunverulega hæfni (þ.e. að mæla gæði, viðhorf og aðferðir við notkun). Það að kunna á helstu stafrænu tólin og geta bjargað sér í netumhverfi er þó aðeins fyrsta skrefið í átt að framúrskarandi stafrænni hæfni, segir Anders Skov. Þróun stafrænnar hæfni ætti að vera áframhald á kunnáttu á tæki og tól, og felist sífellt meira í hæfnisviðum sem krefjist virkrar þátttöku, samskipta, gagnrýni og skipulags.

Mikil notkun ekki ávísun á hæfni

Aukin tölvu-, snjallsíma- og netnotkun eykur ekki sjálfkrafa getu fólks til þess að nýta sér tækni á mismunandi sviðum. Mikil notkun þýðir ekki endilega að einstaklingurinn öðlist hæfni í að beita gagnrýninni hugsun við leit og mat á upplýsingum. Það er mjög einfalt að viðhalda sama hæfnistigi og halda sig við að nota eingöngu sömu forritin. Þess vegna skal ekki líta svo á að mikil tækninotkun jafngildi mikilli stafrænni hæfni, fullyrðir Anders Skov frá Center for Digital Dannelse einnig.

Ljóst er að skilgreining á stafrænni hæfni mun breytast og aðlagast áframhaldandi tækninýjungum framtíðarinnar. Anders Skov segir að Stafræna hæfnihjólið sé til þess fallið að styðja við og stuðla að frekari hæfni einstaklinga samkvæmt skilgreiningu á stafrænni hæfni og byggi á nýjustu rannsóknum og kenningum á þessu sviði.

 

Ritstjórn janúar 17, 2022 16:01