Lestin – þægilegur ferðamáti

Guðrún Ólafsdóttir er áhugamanneskja um lestaferðir sem hún segir að sé leyndarmálið sem íslenskir ferðalangar eigi margir eftir að uppgötva. Hún hefur haldið námskeið á vegum Endurmenntunar HÍ um þennan ferðamáta og líka um það að ferðast ein. Hún hefur komist að kostunum við næturlestar og segir að nú sé verið að bæta leiðakerfi þeirra, sér í lagi í Evrópu, þannig að fólk hafi raunverulegan valkost við flug þegar farnar eru langar leiðir. Fólk getur því varið nóttunum í að komast á milli staða og þá sé verið að slá saman hótelherbergi og þessum þægilega ferðamáta.

Engar biðraðir

Lengri lestaleiðir eru að hluta til settar til höfuðs flugsamgöngum því þegar borið er saman kolefnisfótspor er ólíku saman að jafna. Þar fyrir utan segir Guðrún að þægindin í lestum séu ótrúlega miklu meiri en í flugvélum þar sem sífellt sé verið að þrengja að farþegum eins og flestir kannist við. Það sem ber að varast þegar ferðast er með lest er að lestin bíður ekki eftir neinum. Hún kemur og fer og ferðamaðurinn ber alfarið ábyrgð á því að vera mættur þegar lestin kemur á brautarpallinn. Á móti kemur að fólk lendir sjaldan eða aldrei í biðröðum eins og á flugvöllum. Það eina sem ferðamenn þurfa að sjá alfarið um er að koma farangri sínum sjálfir um borð. Þegar farið er í flug þarf að tékka sig inn og bíða í vegabréfsskoðun. Síðan er biðröð við að komast um borð og bið eftir að komast út af því aðeins ein útgönguleið er á vélinni á meðan lestin er með marga útganga. Síðan er bið eftir töskum á áfangastað. Þetta segir Guðrún að sé stórt atriði þegar lestaferðir og flugferðir séu bornar saman.

Eins og hótel á ferð

,,Ég upplifi mig mjög örugga um borð í lestum,“ segir Guðrún. ,,Ég hef nú farið með þremur mjög ólíkum næturlestum. Í tveimur þeirra var ég eins og á hóteli. Maður læsir að sér og þegar farið er út í veitingavagninn læsir maður á eftir sér á meðan. Í næturlestum er alltaf starfsmaður sem aðstoðar farþegana og passar að allt sé í lagi. Hægt er að velja um að fá klefa fyrir einn eða fleiri og hvort maður vill fara í veitingavagninn sem getur verið eins og fínn veitingastaður eða fá morgunmatinn inn í klefa til sín. Það er í raun eins og að vera á litlu hóteli á ferð að ferðast um í lest svo ég tali nú ekki um þægindin að geta hreyft sig um og setið við borð að leggja kapal, spila, prjóna eða borða. Svo er mjög mikill kostur að lestarteinarnir liggja oft um önnur svæði en vegirnir svo maður er að sjá landið á allt annan hátt.

Síðan má ekki gleyma tengslum lesta við ferjur því þeir sem vilja nota flug sem minnst vilja líka nota ferjur. Íslendingar eru svo vanir því að hugsa alltaf fyrst um flug og bíl af því við búum á eyju. En nú eru fleiri kostir í stöðunni þegar út er komið.“

Interrail-passar í boði fyrir alla

Guðrún segir að þeir sem fóru í interrail ferðalög á yngri árum geti nú endurtekið leikinn því nú geti allir keypt slíkan miða. Með þeim er fólk komið með opinn lestarmiða um alla Evrópu.

Einfalt aö kaupa lestarmiða á netinu

,,Með allri rafrænu byltingunni er alveg jafn auðvelt að kaupa lestarmiða á netinu og flugmiða. Ferðamenn eiga bara eftir að venjast nýjum ferðamáta. Ég líki því ekki saman hversu mikið betur ég kann við ferðalag með lest en flugvél og mun héðan í frá alltaf velja lestina fram yfir ef ég get,“ segir Guðrún Ólafsdóttir lestaferðalangur.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn maí 5, 2022 07:00