Ferðalag í litlu rými

Þegar lagt er upp í ferðalag eru margir virkilega uppteknir af því að vel fari um alla á meðan á því stendur. Þetta gengur svo langt að áður en farið er pökkum við niður því sem við hugsanlega gætum þurft á að halda fjarri heimili okkar. Hugsanirnar fara jafnvel út í það að taka með okkur matvæli sem við erum vön að fá heima þótt vitað sé að nóg sé til af mat þangað sem ferðinni er heitið. Við tökum með okkur fatnað sem dugar á heila herdeild í mánuð þótt við ætlum bara að vera í viku eða tvær fjarri heimilinu. Kannist þið við þetta?

Við hjónin höfum stundað siglingar í mörg ár og vorum fljót að finna út að það hefur ekkert upp á sig að taka með sér nema nákvæmlega það sem við þurfum að nota í ferðinni. Allt aukadót kom ónotað heim eftir fyrstu ferðirnar og svo fundum við líka út að allt er í lagi að borða mat sem kominn er nálægt síðasta söludegi. Mestu skipti að taka með sér góða bók og spilastokk.

Þessi reynsla okkar kom sér vel nú nýlega þegar við ákváðum að fá lánað lítið hjólhýsi, í vikuferðalag norður í land. Plássið í þessu hjólhýsi er lítið en í því er hitari svo okkur var aldrei kalt en þessi júnímánuður mældist sá kaldasti á norðurlandi á öldinni hvorki meira né minna. Ferðin hafði verið  skipulögð með löngum fyrirvara og þar sem þetta var hópur að ferðast saman var ekki um að ræða að flytja dagsetninguna. Við vonuðum bara að þegar að þessu kæmi yrðu veðurguðirnir okkur hliðhollir. En nei, því var ekki að heilsa. Öllum bauðst að vera á hóteli á mótsstaðnum en við vorum með Dropann góða. Við höfum margoft átt leið norður, farið til Akureyrar til að upplifa alls konar viðburði eða farið á skíði o.s.frv. og alltaf spænt þjóðveginn stystu leið. Nú skyldi farið hægar yfir og við lögðum af stað degi fyrr en hinir. Við ákváðum að stoppa fyrstu nóttina úti á Vatnsnesi á leiðinni norður á Dalvík þar sem fyrirhugað var að hópurinn hittist. Við komumst auðvitað að því að á leiðinni norður eru staðir sem eru svo merkilegir og áhugaverðir og við höfðum ætt fram hjá öll þessi ár. Það eru einmitt staðirnir sem allir útlendingarnir flykkjast til Íslands til að skoða á meðan við förum til annarra landa til að njóta. Það, út af fyrir sig, er efni í lokaritgerð.

Okkur leist ekki á blikuna því efir því sem við komum utar á nesið varð rokið meira og svo byrjaði að rigna líka. Ég þakkaði mínum sæla fyrir að eiga ekki fyrir höndum að berjast við súlur og tjald en við vorum alveg ákveðin í að flýja ekki inn á næsta hótel. Leiðbeiningarmyndbandið sem við höfðum séð af litla hýsinu sem við drógum, gaf fyrirheit um notalega nótt þrátt fyrir vind og regn. Við urðum að ímynda okkur hvernig umhverfið væri í sól og blíðu og það tókst, nóg til þess að okkur langar aftur á Vatnsnesið. Við ókum í gegnum Hvammstanga sem er einn af þessum bæjum þar sem allt fæst í kaupfélaginu. Þar voru til sölu barnaföt, alls konar matur, prjónavörur og svo auðvitað horn fyrir áfengi. Bærinn er fallegur og húsum vel við haldið og nálægðin við sjóinn býr til skemmtilega stemmningu. Sjómenn sjá veitingahúsum í nágrenninu fyrir spriklandi ferskum fiski en matreiðslumeistararnir koma oft langan veg til að versla við þá til að geta boðið gestum sínum upp á það allra besta. Það áttum við eftir að reyna á Blönduósi sem var næsta stopp. Á leiðinni þangað stoppuðum við að skoða Hvítserk sem oft er kallaður ,,tröllið í norðvestri“. Þetta er sérkennilegur 15 metra hár brimsorfinn klettur í sjó við botn Húnafjarðar. Hann stendur rétt í flæðarmálinu, austan við Vatnsnesið og dregur nafn sitt líklega af því að kletturinn er hvítur af fugladriti. Við börðumst út á útsýnispall þar sem við gátum virt þetta náttúruundur fyrir okkur. Á þeim palli voru margir útlendingar og ég afsakaði mig í bak og fyrir að veðrið væri svona vont. Þá sagði maður í hópnum: ,,Við erum alla daga að kafna úr hita heima hjá okkur svo að þetta er kærkomin tilbreyting og einmitt eitt af því sem við komum hingað til að upplifa. Við þurfum ekki meiri sól.“ Þá skildi ég frekar erindi margra þessara útlendinga, þeir eru ekki að koma til Íslands til að fara í sólbað eins og okkur þykir svo mikils um vert. Aðrir staðir eru betri til þess. En enginn þeirra staða hefur upp á okkar náttúru að bjóða.

Við ókum síðan áfram og stoppuðum hjá Borgarvirki sem er klettaborg á ásnum milli Vesturhóps og Víðidals. Í Borgarvirki er hlaðinn grjótveggur frá fornu en hann var endurhlaðinn á árunum 1940-50. Virkið er friðað vegna minja en inni í því eru rústir af tveimur skálum og hruninn brunnur. Útbúnar hafa verið  tröppur svo búið er að auðvelda fólki að komast þangað upp.

Eftir Borgarvirkið stoppuðum við á Blönduósi sem er enn einn staðurinn sem við höfum ekið fram hjá og í mesta lagið stoppað á bensínstöðinni þar sem fást hamborgarar eins og á öðrum bensínstöðvum. En af því við vorum núna í ,,menningarferð“ ákváðum við að keyra inn í bæinn. Þar blasir við gamli bærinn en þjóðvegurinn lá áður þar hjá en er núna utan við bæinn svo fáir taka sér tíma til að skoða hann. Þar sem við vorum að taka beygju til að fara út úr bænum aftur vorum við svo heppin að mæta konu sem ég þekkti og vissi að hún og maður hennar hefðu farið í ferðamennsku á Blönduósi. Þau heita Inga og Gísli Egill og margir kannast við þau en hún er grafískur hönnuður, hann ljósmyndari. Við Gísli störfuðum saman á Gestgjafanum á sínum tíma og ég vissi sem var að þau hjónin væru mikið listafólk og matargerðrlistin þar á meðal. Við vorum auðvitað drifin í inn í kaffi að gömlum sið og fengum að kynnast stórkostlegri starfsemi í fyrirtæki þeirra sem þau kalla Brimslóð Atelier og er staðsett þar sem brimið skellur á rétt fyrir utan norðurgluggann eins og þennan dag. Í betra veðri er vel hægt að ímynda sér aðra fegurð. Inga og Gísli bjóða meðal annars upp á gistingu og mat fyrir gesti og kynningu á því hráefni sem þau nota við matargerðina. Þau bjóða upp á námskeið og engin takmörk eru fyrir möguleikum sem þau hjónin sjá í því skyni að bjóða ferðamönnum upp á merkilega matarupplifun. Brimslóð Atelier er sannarlega falin perla í íslenskri ferðamennsku.

Frá Blönduósi lá leiðin til Dalvíkur þar sem við hittum hópinn sem við ætluðum að verja helginni með. Á laugardeginum var farið til Grímseyjar sem var upplifun sem Íslendingar mega ekki láta fram hjá sér fara. Þegar í eyjuna var komið, eftir nokkuð stranga siglingu á móti vindi, mætti okkur heimamaður sem fór með okkur um eyjuna. Í mannfæðinni í eyjunni þurfa allir að fara í öll störf. Fararstjórinn var til dæmis kona sem sinnti líka stafi rafstövarstjóra og aðstoðaði í búðinni þegar þörf var á, veitingakonan á veitingahúsinu sá líka um að taka á móti og leysa landfestarnar á ferjunni. Mannlífið og dýralífið í eyjunni er verulega ólíkt því sem við eigum að venjast og fuglalífið er meira en annars staðar en hvorki hundar eða kettir eru velkomnir þarna og fuglinn fær því að þrífast óáreittur.

Daginn eftir var gengið frá Dalvík inn Svarfaðardalinn undir dyggri fararstjórn Kristjáns Eldjárn á Tjörn sem sem sagði okkur skemmtilegar sögur og endaði á því að flytja tónverk í kirkjunni áamt dóttur sinni. Ferðin var stórkostleg í alla staði og aldeilis óhætt fyrir Íslendinga að leggja leið sína út á eigið land.

Til upplýsinga fyrir lesendur var litla, dásamlega hjólhýsið af gerðinni Caretta en aftan á því er líti eldhús þar sem hægt að tengja vatnskút svo maður er meira að segja með rennandi vatn þótt dvalarstaðurinn sé á fáförnum stað úti í villtri náttúrunni.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 30, 2022 08:52