Eldri konur sem kjósa að ferðast einar

Það er fátt sem er jafn skemmtilegt og að ferðast. Það er góð leið til að kynnast nýju fólki og nýjum siðum. Öðlast nýja lífsreynslu. Mörgum konum sem eru komnar yfir miðjan aldur stendur stuggur af því að ferðast einar en það er þó lítið mál ef gætt er að nokkrum öryggisatriðum. Lynn Clare er pistlahöfundur í Denver, Colorado. Hún skrifar meðal annars pistla um konur á besta aldri sem kjósa að ferðast einar. Lynn segir að það sé afar mikilvægt að gæta öryggis sé maður einn á ferðalögum. Eitt af því sem hún bendir á er að fólk sé vakandi fyrir umhverfi sínu, sama hvar það er statt, á flugvöllum, lestarstöðvum, veitingastöðum eða hótelum. Takið eftir því sem er að gerast í kringum ykkur. Ef þið eruð staddar á fjölförnum stöðum, byrjið þá á að kynna ykkur útgönguleiðir og hvar sé aðstoð að finna ef eitthvað kemur upp á. Áður en þið haldið af stað, lærið þá nokkur lykilorð í tungumáli heimamanna og lærið utanað neyðarnúmer á staðnum, ráðleggur hún.

Lynn segir að fólk sé yfirleitt afskaplega hjálpsamt þegar það átti sig á að eldri kona sé ein á ferð. Hún segir að konur eigi samt að gæta mjög vel að því að gefa ekki of mikið af persónulegum upplýsingum um sig. Sjálf segist hún ekki gefa upp fullt nafn sitt og stundum gefi hún upp rangt nafn. „Ég gef ekki upp fullt nafn nema hjá flugfélögum, bílaleigum og á hótelum. Auk þess hef ég oft annað tilbúið nafn sem ég gef fólki upp ásamt nýju tölvupóstfangi. Póstfangi sem ég bjó til áður en ég fór af heiman. Ef ég er ekki viss um hvort ég eigi að treysta fólki gef ég því nýja tölvupóstfangið. Ef mér líst á það get ég verið í sambandi við það síðar með þessu móti án þess að gefa of mikið upp um sjálfa mig,“ segir Lynn. Hún segist gæta þess að merkja ferðatöskur sínar á þann hátt að ekki sé hægt að sjá hvað standi á merkimiðunum. Þá geti þeir sem standi næst henni í biðröðum ekki lesið á miðana. Það sama eigi við um ferðaskjöl hennar, hún gæti þess að ókunnugir sjái ekki nafn hennar, heimilisfang og tölvupóstfang. Á hótelum leggi hún herbergisnúmer sitt á minnið og hendi umslaginu utan af lyklakortinu. Hún vilji ekki að nokkur viti í hvaða herbergi hún dvelji ef hún týni lyklinum sínum. Hún segir að starfsmenn í gestamóttökum gæti þess yfirleitt að kalla ekki upp herbergisnúmer viðskiptavina í áheyrn annarra. Það sama sé þó ekki upp á teningnum meðal annarra starfsmanna, til dæmis þeirra sem eru að þjóna í sal. Hún segir að konur eigi að biðja um að það sé ekki gert, þær kjósi að halda herbergisnúmerinu leyndu.

Þegar dvalið sé inni á hótelherbergi eigi alltaf að hafa „ónáðið ekki“ skiltið á hurðarhúninum utanverðum. Herbergisþernur eigi það til að opna og koma inn sé það ekki gert. Hún hafi líka lent í því að aðrir gestir hafi vaðið inn á hana vegna þess að þeir fengu rangt herbergisnúmer. Það sé minni hætta á slíku ef fólk sjái að einhver sé í herberginu. Passið upp á verðmætin ykkar og notið peningaskápa sem oft er að finna inni á herbergjunum eða látið starfsmenn hótelsins sjá um að geyma ferðaskjöl, peninga og greiðslukort fyrir ykkur. Lynn ráðleggur öllum að taka mynd af vegabréfinu sínu og senda sjálfum sér í tölvupósti. Þannig sé hægt að nálgast upplýsingar um vegabréfið á örskotsstund týnist það.

Lynn segist kjósa að dvelja á hótelum með veitingastöðum. Þá geti hún borðað kvöldverð án þess að þurfa að yfirgefa hótelið, ef henni líst ekki á nágrennið, veðrið sé vont, eða hún sé sein fyrir.

Hún segir að konur eigi ekki að fara neitt með ókunnugum. Hótelið eigi að sjá til þess að útvega öruggar ferðir til og frá hóteli, svo og skoðunarferðir um nágrennið. Þá minnir hún á að þegar hótelið sé yfirgefið ætti fólk að muna eftir að taka með sér nafnspjald frá hótelinu með heimilisfangi og símanúmeri. „Ekki auglýsa það á samfélagsmiðlum hvert þú ætlar að fara eða hvað þú ætlar að gera,“ segir Lynn. Þú getur sagt frá ferðalaginu þegar þú ert komin heim aftur.

Að lokum ráðleggur hún konum að taka lítinn farangur með sér. Í flestum tilvikum dugi að taka með sér handfarangurstösku og handtösku. Maður þurfi ekki aðstoð við slíkan farangur. Hún ráðleggur svo konum að vera með innanklæða veski sem þær geti falið undir peysu eða jakka.

Ferðalög eru dásamleg, segir Lynn og bætir við að konur ættu ekki að láta það stoppa sig að ferðast einar. Að vera einn á ferðalagi er skemmtilegt og maður kynnist nýju fólki og upplifir nýja hluti, segir hún og bætir við að konur eigi ekki að láta hræðslu við óvæntar aðstæður koma í veg fyrir að þær njóti þess að ferðast.

Ritstjórn júlí 18, 2019 07:19