Útsýnisflug yfir Reykjavík en ekki New York

Vesturbærinn og Seltjarnarnesið úr lofti

Það er öðruvísi að sjá vesturbæinn og Seltjarnarnesið úr lofti

Erna Indriðadóttir skrifar

Fyrir þá sem hafa gaman af að fljúga, er alveg sérstök upplifun að fljúga í þyrlu, ekki síst þegar bjartir og fallegir sumardagar renna upp eins og verið hefur að undanförnu.  Það sannreyndi ég nýlega, þegar ég brá mér í útsýnisflug með Norðurflugi yfir Esjuna og Reykjavík. Það var frábært að skoða borgina úr lofti.  Ég hef reyndar alltaf haft gaman af að fljúga og man hvað mér þótti ótrúlega skemmtilegt þegar ég fékk að fljúga í sveitina á vorin, en þá flaug ég náttúrulega með „föxunum“ til Akureyrar, þar sem flugskýlið var í grænum bragga við Eyjafjarðará.

Þyrlan var í eigu auðjöfurs í Argentínu

Í minningunni hófst ævintýrið um leið og vélin tók á loft í Reykjavík  og ég þreyttist ekki á að skoða fjöll og dali, hús sem voru eins og eldspýtnastokkar að stærð og örliltla bíla sem brunuðu eftir vegunum. Ég fékk svipaða tilfinningu þegar þyrlan tók á loft með okkur í útsýnisflugið á Reykjavíkurflugvelli. Þyrlan var raunar svo flott að það var alveg sérstaklega gaman að stíga um borð. Okkur var sagt að þessi þyrla hefði verið í eigu auðjöfurs í Argentínu. Hann hefði notað hana til að skreppa milli staða þar – og nú vorum við að fara að fá smjörþefinn af þessum lúxus. Þegar við vorum sest þurftum við að spenna vel á okkur beltin. Þar næst fengum við heyrnartól þar sem við gátum fylgst með fjarskiptum þyrlunnar við flugturninn. Risa gluggar voru bæði fyrir framan farþegana og til hliðar.  Ég fékk fiðrildi í magann þegar Sólveig Pétursdóttir þyrluflugmaður tók á loft, en þyrlan sem stóð á flughlaðinu fór lóðrétt beint upp í loftið og beygði svo í stórum sveig í átt að Esjunni og þarna gafst gullið tækifæri til að skoða húsin í vesturbænum alveg nákvæmlega. Þetta var frábært.

Sólveig þyrluflugmaður nýlent á Esjunni

Hika ekki við að fara í þyrluflug í fríum erlendis

Flogið var uppá Esju og þar settist þyrlan eins og fugl og við stigum út til að skoða útsýnið. Sólveig segir okkur að það séu að færast í vöxt að Íslendingar fari í útsýnisflug með þyrlum og það sé helst verið að gefa slíkar ferðir í gjafir. „Margir hika ekki við að eyða peningum til dæmis í þyrluflug þegar þeir eru í fríum erlendis, en það hefur verið minna um það hér heima. Það er ekki spurning að Íslendingum sem bregða sér í þessar ferðir hefur fjölgað mjög í sumar, líklega vegna Covid“, segir hún. „Þyrluflug á Íslandi er líka frábrugðið þyrluflugi til dæmis í New York. Þar er flogið yfir byggingar og lent á litlum þyrlupöllum, svipuðum bílastæðum. Við lendum hins vegar úti í Guðs grænni náttúrunni og útlendingr eru stundum mjög undrandi á því“. Sólveig segir að sumir sem komi í þyrluflug  hafi kannski aldrei flogið í þyrlu áður og séu því svolítið stressaðir, en segja svo þegar þeir lenda að þetta hafi ekki verið jafn hrikalegt og þeir héldu. „Fólk brosir allan hringinn og finnst þetta mjög skemmtilegt“, segir hún.

Fljúga yfir þekkt svæði úr kvikmyndum

Þessi sena úr Games of Thrones er tekin upp á Íslandi

Tvær ungar konur sem vinna hjá Norðurflugi eru menntaðir þyrluflugmenn.  Norðurflug hefur verið með sérstök tilboð í sumar fyrir Íslendinga sem vilja bregða sér í útsýnisflug, en annars hafa erlendir ferðamenn verið stærsti hópurinn sem flýgur með Norðurflugi í bæði styttri og lengri þyrluferðir til að skoða landið. Bandaríkjamenn eru stærsti hópurinn en Bretar eru einnig stór hópur að sögn Írisar Sigurðardóttur markaðsstjóra Norðurflugs. Félagið hefur líka skipulagt ferðir yfir nokkur þekkt svæði úr kvikmyndum, svo sem eins og Games og Thrones og Star Wars, en þyrlur frá Norðurflugi voru einmitt notaðar í flugi fyrir myndatökur í þessum myndum. Myndir af landslaginu sem fólk horfir á í „Fly over Iceland“ eru einnig teknar úr þyrlum Norðurflugs.   Það kennir sem sagt ýmissa grasa í þyrluferðum Norðurflugs og flestir ættu að geta fundið þar ferðir viið sitt hæfi.

Tilvalin gjöf fyrir ýmis tækifæri

Esjan og miðbærinn séð úr þyrlunni

Á leiðinni tilbaka frá Esjunni sáum við vel yfir austurbæinn og það er magnað að horfa svona  á Reykjavík úr lofti. Einhverra hluta vegna hafði ekki orðið af því hjá mér, en ég var búin að hugsa mikið um það á ferðum mínum til Bandaríkjanna, hvað það hlyti að vera æðislegt að skoða New York úr þyrlu.  En nú ferðumst við heima og þá laust þeirri hugmynd niður í höfuðið á mér að það hlyti að vera eins gaman að fara í útsýnisflug yfir Reykjavík. Þetta er skemmtileg  upplifun og gaman að bjóða barnabörnum, vinum eða ættingjum í slíka ferð. Það gæti verið tilvalin gjöf á stórafmælum, eða jafnvel fermingjargjöf. Að ekki sé talað um hvað það gæti verið skemmtilegt fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eiga þess ekki kost að komast upp um fjöll og firnindi, að fara í þyrluflug til að skoða landið.

Norðurflug er núna með sérstakt tilboð í gangi, en flug fyrir einn kostar 22.900 krónur. Með því að smella hér má sjá ferðirnar sem Norðurflug býður uppá.

Ritstjórn ágúst 19, 2020 08:07