Fornbílamenning í fókus í Reykholti

Um liðna helgi söfnuðust saman í Reykholti í Borgarfirði fornbílar, eigendur þeirra og áhugafólk um fornbílamenningu. Tilefnið var að menningarsetrið Snorrastofa, með Berg Þorgeirsson fremstan í flokki, stóð fyrir málþingi og bílasýningu þar sem fjallað var um gamlar bifreiðar, varðveizlugildi þeirra og sögulegt samhengi. Dagskrárstjóri var Snorri Jóhannesson.

Bergur Þorgeirsson

Meðal ræðumanna á málþinginu var Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, en hann talaði um bifreiðar í vörzlu Þjóðminjasafnsins, en þar á meðal er fyrsti embættisbíll forseta Íslands af Packard-gerð sem hefur verið gerður glæsilega upp.

Bjarni Þorgilsson, formaður Fornbílaklúbbs Íslands, og Rúnar Sigurjónsson, stjórnarmaður í klúbbnum, fjölluðu sameiginlega um varðveizluaðferðir og verkkunnáttu þar sem fornbílar eru annars vegar. Hvaða bílar eru varðveizluverðir? Hvernig er bezt að fara að því að vernda svona tæki gegn tímans tönn? Þetta var meðal spurninga sem þeir Fornbílaklúbbsfélagar svöruðu í sínu erindi. En þeir veltu líka vöngum yfir framtíð fornbílamenningar á Íslandi – hvernig vekja mætti áhuga ungu kynslóðarinnar á að varðveita samgöngutæki fortíðarinnar, sem segja svo mikið um daglegt líf og tíðaranda liðinnar tíðar.

Þór Magnússon

Þá fjallaði Jóhannes Reykdal, ritstjóri og blaðamaður, um sögu bílsins á Íslandi, en Jóhannes hefur á löngum blaðamennskuferli skrifað margt og mikið um bíla, þar á meðal bækur um fornbíla. Hann er langt í frá hættur að skrifa um þetta áhugamál sitt þótt á eftirlaunaaldur sér kominn: Ásamt fleirum heldur hann úti Bílablogginu (bilablogg.is).

Gestir málþingsins fengu líka kynningar á Samgönguminjasafninu á Ystafelli, Samgöngusafninu á Skógum, Fornbílafélagi Borgarfjarðar og Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri.

En þótt erindin á málþinginu hafi öll verið hin áhugaverðustu er óhætt að fullyrða að það sem vakti mestan áhuga málþingsgesta voru fornbílarnir sjálfir sem lagt var í röðum á bílastæðinu fyrir neðan kirkjuna í Reykholti, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Bílar frá bandarísku bílagullöldinni voru áberandi. Hér er Oldsmobile árg. 1959. Við hlið hans sést í Range Rover af fyrstu kynslóð.

 

Evrópskir fornbílar voru líka mættir – Alfa Romeo GTV6 t.v., Volvo 240 t.h.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn júní 9, 2022 10:39