Draumur hippans varð að martröð

Eiturlyf voru fylgifiskur unglingamenningarinnar uppúr 1968, bæði erlendis og hér heima. Hippamenningin festi rætur á Íslandi og náði hámarki vorið 1972, að því er fram kemur í Rokksögu Íslands eftir Gest Guðmundsson, en hún kom út árið 1990.  Hipparnir fóru ekki í manngreinarálit, segir í bókinni. Stéttaskiptin þurrkaðist út á meðan menn flutu á kosmískum bylgjum og víkkuðu út skynjun sína við sýrutónlist, hass og skapandi hugsun. En svo fór að fjara undan hippamenningunni.  Vorið 1972 slógu margir þeirra saman í stóra hasssendingu og þegar hún var komin til Reykjavíkur þvældust hundruð ungmenna um í endalausu hasspartíi, þar til fíkniefnalögreglan stöðvaði allt saman. Þá greip um sig ótti meðal hippanna, segir í Rokksögunni.

Ekki bætti úr skák að nú fóru afleiðingarnar að koma í ljós af ofnotkun hippanna á hassi og LSD á undangengnum misserum. Stöðugt bárust fréttir af ungu fólki sem hafði þurft að leita á náðir geðsjúkrahúsa, sumt illa haldið, og hippagengið varð hrætt. Mörgum fór líka að leiðast að sitja sljóir yfir hasspípunum og lögðu þeim ýmist alveg eða minnkuðu reykingar sínar stórlega. Aðrir vímugjafar héldu innreið sína, einkum áfengi, en einnig amfetamín og önnur örvandi lyf. Veturinn 1972-1973 var hippamenningin í upplausn.

Unga fólkið brást misjafnlega við því.

Margir sneru sér þá í burtu og gerðust pólitískir í hugsun, en aðrir hófu enn æðisgengnari leit að Sannleikanum. Þeir tóku LSD hvað eftir annað, pældu í gegnum austurlenska doðranta og sögðu sig úr lögum við launavinnu og aðra fylgifiska hins borgaralega samfélags. Þeir lögðu í óvissuferð um eigin hugarheima og slepptu öllum landfestum. Flestir komu heilir að landi og reynslunni ríkari, en aðrir misstu alla landsýn, lentu í villum og þokum og rönkuðu við sér á geðdeildum. Sumir eru þar enn.

Hippadraumurinn stóð ekki nema í örfá misseri hjá flestum, segir í Rokksögunni.

Sumir vöknuðu upp með andfælum og skelltu sér út í lífið eins og það hafði gengið fyrir sig í gær og hjá fyrri kynslóðum. Aðrir hristu svolítið hausinn og ásettu sér svo að gera einhvern hluta þessa draums að veruleika, en þriðji hópurinn flýtti sér að reyna að sofna aftur í von um að endurtaka drauminn. Þá var hann orðinn að martröð.

Þeir sem voru unglingar og ungt fólk á þessum umbrotatímum eru nú milli sextugs og sjötugs og margir þeirra lifa því borgaralega lífi sem átti ekki beint uppá pallborðið hjá æskunni á sínum tíma. Hún vildi, eins og segir í Rokksögunni „stefna í allt aðra átt en að feitum embættum og fjölskyldu í raðhúsi“

 

Ritstjórn júní 25, 2018 10:00