Innflytjandi með mastersgráðu fær að skúra í Háskólanum

Djöfulsins snillingur er heitið á nýrri svartri kómedíu eftir alþjóðlega leikhópinn Reykjavík Ensemble. Verkið er unnið upp úr reynslu listamanna leikhópsins og upplifun þeirra af umsóknarferli innan hins íslenska innflytjendakerfis. Þetta er fjórða leikverk hópsins og var það frumsýnt í gærkvöldi í Tjarnarbíói.

Í leikritinu segir frá Urielu, sem Jördis Richter leikur. Hún er nýkomin til Íslands og sækist eftir áheyrnarprufu hjá Þjóðsirkúsnum. Í stað þess að komast inn í listaelítuna fellur hún í hringiðu kostulegra umsóknar- og auðkenningarferla, sem sjálfsafgreiðslukerfi Krónunnar sér um að meta.

Reykjavík Ensemble hópurinn skapar ný frumsamin sviðslistaverk með og fyrir fjölþjóðlega og fjöltyngda listamenn hér á landi í samstarfi við íslenkt listafólk.  Hann starfar undir stjórn pólsk-íslenska dúettsins, rithöfundarins Ewa Marcinek og leikhús- og óperuleikstjórans Pálínu Jónsdóttur.

Ewa Marcinek annar höfunda Djöfulsins snillingur, hefur gefið út ljóðabók hér á landi sem heitir Pólerað Ísland þar sem að hluta er fjallað um svipað efni og í leikritinu. Þar er því meðal annars lýst hvernig það er að vera Pólverji í vinnu í veitingabransanum á Íslandi. Hún segir hugmyndina að nýja verkinu hafa kviknað út frá starfi hennar með alþjóðlegum listamönnum síðustu ár. „Það eru miklar félagslegar breytingar að eiga sér stað á Íslandi og innflytjendur eru núna orðnir rúmlega 16% þjóðarinnar. Meðal þeirra eru listamenn, rithöfundar, dansarar, tónlistarmenn, kvikmyndagerðarmenn og leikarar, sem brenna í skinninu eftir að leggja sitt af mörkum. Við Pálína Jónsdóttir, sem skrifaði verkið með mér og er jafnframt leikstjóri, fengum einnig innblástur frá Gestaboði Babette, sögunni eftir Karen Blixen.  Hún er um hæfileikaríkan franskan flóttamann, sem auðgar sitt nýja samfélag með hæfileikum sínum“.

Sýningin í Tjarnarbíói er í alla staði faglega unnin og forvitnileg. Það er áhugavert að sjá og heyra hvernig það er fyrir útlendinga að flytja til Íslands. Líka ákveðinn skellur að upplifa hvernig tekið er á móti fólkinu sem kemur hingað til að vinna og borga skatta. Þeir sem ekki vilja fara í láglaunastörf geta ekki endilega vænst þess að fá vinnu og ekki listamenn eða leikarar. Manneskja með meistarapróf í líftæknifræði fær ekki að kenna í íslenskum háskóla, en hún má skúra gólfið í háskólanum og vonast eftir að fá einhvern tíma að skúra í líffræðideildinni! Okkar hlutverk er að þrífa, vinna og fá kennitölu eins og ein persónan í leikritinu kemst að orði. Þá þurfa útlendingar að ganga í gegnum stofnanafrumskóg til að berjast fyrir rétti sínum í kerfinu og biðin er oft löng.

Um boðskap sýningarinnar segir Ewa. „Boðskapurinn er einfaldur. Innflytjendur auðga íslenskt samfélag með list sinni og menningu og þeir þurfa stuðning og vettvang til að blómstra“.

Djöfulsins snillingur er framleitt af Reykjavík Ensemble í samstarfi við Tjarnarbíó. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Sviðslistasjóði, Nordisk Kulturkontakt og Nordisk Kulturfond. Næstu sýningar verksins verða í Tjarnarbíói 13. og 23. apríl. Aðstandendur sýningarinnar veittu lesendum Lifðu núna afslátt á sýninguna sem virkjast í gegnum TIX með kóðanum LIFDUNUNA.

Það þarf þolinmæði til að ganga í gegnum íslenskt skrifræði. Ljósmynd Patrik Ontkovic

Ritstjórn mars 31, 2023 16:09