Gleym mér ei

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Sumt er ógleymanlegt og annað verður gleymskunni að bráð. Þetta vitum við öll.  Orðið gleymska fer samt ekki að verða ógnvænlegt fyrr en fólk eldist. Við búum dag hvern við mikið áreiti frá allskyns fjölmiðlum, umræðum og umferð svo eitthvað sé nefnt af því sem skellur á eyrum, augum og öðrum skilningarvitum. Mest af þessu fer „inn um annað og út um hitt“ eins og stundum er sagt. Flest höldum við okkur við það sem við þurfum að muna en reynum að útiloka hitt svo það rugli okkur ekki í ríminu.

Meðan fólk er ungt þá er gjarnan litið að gleymsku sem einskonar hugsunarleysi eða kæruleysi. Ung manneskja sem segir: „Úff, ég gleymdi að fara með úlpu á leikskólann þegar ég fór með strákinn minn þangað í morgun. Ég ætlaði að muna það en ég gleymdi því – Sorry.“ Eða viðkomandi segir: „Æ, ég gleymdi að ég átti að sækja kápu í hreinsun fyrir mömmu. So sorry, ég gleymdi því.“ – Svona ummæli vekja ekki þær hugsanir viðstaddra að eitthvað mikið sé að þessari manneskju. Sé viðkomandi hins vegar komin til dæmis undir sjötugt þá hrökkva viðstaddir meira og minna í kút og verða vandræðalegir. Þeir hugsa með sér: „Hræðilegt – hún/hann er farin að gleyma – hún/hann er líklega komin með heilabilun eða jafnvel Alzheimer. Ættingjar og vinir fara að horfa þýðingarmiklu augnaráði hverjir á aðra og þessi augnaráð segja öll hið sama: „Eitthvað mikið að! – Hún/hann þyrfti að fara í minnispróf.“ Síðan er fylgst  grannt með „þeim sem gleymdi“ og fólk tekur jafnvel að hvíslast á um að þetta gangi ekki lengur: – Nú hafi hún/hann gleymt að kaupa mjólk, hafi ekki getað nefnt föðurnafn tengdamóður frænda síns, gleymt kortinu sínu í vasanum á græna jakkanum og þannig mætti telja.

Allt þetta fyllir fólk ugg og það kemur spenna í samskiptin. Loks hvetur svo kannski einhver „málsmetandi“ í umhverfinu viðkomandi til að panta sér tíma hjá lækni í minnispróf. Sem betur fer kemur oftar en ekki í ljós að kvíðinn var ástæðulaus. Það er ekki óeðlilegt við það að gleyma hinu og  þessu af og til né heldur að gleyma nöfnum. Streita af ýmsu tagi er oft orsakavaldur gleymsku. Það hleðst einfaldlega of mikið upp af upplýsingum og eitthvað verður þá undan að láta. Allir gleyma ef áreitið er orðið alltof mikið.

Stundum er gleymska beinlínis líkn. Í skáldsögu Erich Maria Remarqueu: Der swarz obelisk (Fallandi gengi), sem gerist nokkru eftir fyrri heimstyrjöldina, segir á einum stað: „Menn verða að gleyma til að lifa“. Gleymska er stundum ómeðvitað ráð til þess að lifa sársaukaminna lífi. Þekkt er að stór áföll geta valdið miklu minnistapi hjá fólki á öllum aldri.

Blómið; Gleym mér ei er tengt rómantík í hugum Íslendinga. Þeir báru það í jakkaboðungum eða í peysum – gjarnan til marks um ást sína á einhverjum eða sendu það elskunni sinni þurrkað inni í ljóðabók. Nú eru aðrir tímar fólk sýnir ást sína með misstórum hjörtum á Facebook – blómið; Gleym mér ei er gleymt. Lifir nú helst í minningum hinna eldri og í skáldsögum og ljóðum. Ef ungt fólk í dag væri spurt um blómið Gleym mér ei væri ekki ólíklegt að sumt af því þætti tækt í minnispróf – svo fjarlægt er það orðið í hvunndeginum.

Gerist það hins vegar að fólk fer að setja skóna sína inn í ísskáp, gleymir að slökkva á vatnsrennsli eða hitaplötum og hættir að rata um íbúðina sín þá er komin rík ástæða til að hafa áhyggjur af gleymsku. En þar til ber á alvarlegri gleymsku er ágætt að hafa ekki of miklar áhyggjur. Lífsgleðin er mikilvæg.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir júlí 4, 2022 07:00