Viðhorf og innri styrkur

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar                                               gundrunsg@gmail.com

Viðhorf fólks til sjálfs sín, annars fólks og aðstæðna skiptir miklu máli varðandi það hvernig einstaklingum farnast í lífinu. Það er mikill sannleikur fólginn í því að maður ráði talsverðu um hvernig aðrir koma fram við mann. Fyrir margt löngu var ég starfsstúlka nokkra mánuði á Grenásdeild. Þar voru þá nokkrir ungir menn sem höfðu lamast fyrir neðan mitti og sumir enn ofar í hryggnum. Mér er minnisstæður einn af þessum mönnum. Hann hafði eitthvað það við sig sem gerði það að verkum að engri starfsstúlku datt í hug að segja við hann: „Jæja vinur – eigum við nú að bursta í okkur tennurnar,“ –  setning af því tagi sem ég heyrði stundum umönnunarfólk mæla af munni fram, auðvitað í mestu vinsemd og tilraun til létta andrúmsloftið í námunda við erfiðleika.

Þessi fyrrnefndi lamaði maður hafði þannig viðhorf til sjálfs síns að hann leið ekki fólki að ganga of nærri sér á neinn hátt þótt hann hefði misst svona mikið af færni sinni. Þetta viðhorf og sálarstyrk hans fann maður og sá í augnaráðinu. Reisn þessa manns gagnvart örlögum sínum gleymist mér ekki.

Ég segi þessa sögu af því að hún kenndi mér hvað viðhorf skiptir miklu máli á vegferð lífsins. Maður ræður svo sannarlega á margan hátt hvernig komið er fram við mann og líklega er það eitt af því sem eldra fólk ætti að hugsa um. Jafnvel þótt það sé lasburða er það viðhorf þess sjálfs sem skiptir máli varðandi afstöðu annarra til þess. Sá sem hefur innri styrk og lætur umhverfið finna það losnar við „tannburstasetninguna“ og fleira í þeim dúr.

Við vitum öll að það er erfitt að breyta öðru fólki en viðhorfi sjálfs síns getur maður breytt ef þörf er á. Sennilega er þetta eitt það mikilvægasta sem hægt er að tileinka sér, ekki síst þegar staðan er hæpin af einhverjum ástæðum.

Það að láta ekki aðra koma fram við sig sem undirmálsmanneskju er einn helsti lykillinn að góðri andlegri líðan. Vissulega getur maður ekki alltaf komið í veg fyrir að fólk sé dónalegt eða sýni lítilvirðingu en maður getur með viðhorfi sínu og framkomu komið í veg fyrir að það gerist hvað eftir annað. Innri styrkur og einbeittur vilji er málið.  Það er eins og umhverfið skynji hvernig manni er innanbrjósts að þessu leyti.

Börn, sjúklingar og aldraðir eiga það gjarnan sameiginlegt að vera í veikri stöðu. Þá skiptir viðhorf og sjálfsmynd viðkomandi meginmáli og ekki síst það að mæta niðurlægingu af festu og snerpu. Sjálfsvirðing er eitt það mikilvægasta sem við eigum, hún er gulli betri. Annað fólk er ekki merkilegra en maður sjálfur. En jafnframt því leyfa ekki öðrum að koma illa fram bótalaust þarf þó að hafa vaðið fyrir neðan sig. Einu sinni fyrir löngu var ég mjög sár og vildi borga fyrir mig. Þá sagði lífsreyndur yfirmaður minn við mig: „Þú ert sár en þú skalt bíða – það hefur reynst mér vel.“ Þetta er gott ráð, lífið sjálft rekur oft ýmislegt ofan í kok á fólki. Mikilvægt er því að muna að það koma ekki allar stundir yfir í einu.

Guðrún Guðlaugsdóttir ágúst 28, 2023 07:00