Símtal getur bjargað

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Margt eldra fólk býr eitt og er hætt störfum. Það hefur kannski misst maka, skilið eða aldrei verið í sambandi. Þeim sem búa einir myndu vera öruggari ef þeir kæmu sér upp símasambandi við einhvern eða einhverja sér nána sem myndu þá koma á staðinn ef ekki er svarað og ekkert heyrist frá hinum aldraða.

Eldri borgari sem ég þekki fór niður í geymslu í kjallara hússins sem hann býr í um daginn. Þetta finnst fólki kannski ekki í frásögur færandi. En í þessari kjallaraferð gerðist það að hann hrasaði og var næstum dottinn ofan af stól. Hann slapp með skrekkinn en ferðin varð honum íhugunarefni. Hann var ekki einu sinni með símann sinn með sér og þaðan af síður með öryggishnapp, enda ágætlega á sig kominn að öllu leyti og rétt skriðinn yfir á eftirlaun.

Hins vegar varð kjallarafaranum ljóst að ef hann hefði dottið og slasast niðri í geymslu sinni hefði liðið á löngu þar til einhver fyndi hann. Einmitt af því að hann er að jafnaði víðförull í hversdagslífi sínu þá hefði fáum dottið í hug að hann lægi slasaður í kjallara íbúðarhúss síns.

„Þú ættir aldrei að fara niður í geymslu eða á aðra afvikna staði nema að hafa símann þinn með þér, þá ætti að vera hægt að miða þig út ef þú lægir meðvitundarlaus og aleinn,“ sagði sonur viðkomandi einstaklings. Þessa lífsreynslu ætlar hann að láta sér að kenningu verða. Vonandi er þetta rétt, að hægt sé að miða fólk þannig út. Það er að minnsta kosti hægt í allskonar sakamálamyndum.

Að fá samtal einu sinni á dag er líka aðferð til þess að einangrast ekki. Stundum koma fréttir af fólki sem fundist hefur látið heima sér eftir vikur, mánuði og jafnvel ár. Slíkt ætti ekki að koma fyrir. Fólk er víða að vinna í að koma upp nágrannavörslu um eigur sínar. Því ekki að koma upp „nágrannavörslu“ um þá sem búa í hinum ýmsu húseignum? Það er hægt að gera svo margt ef samkennd og vilji til þess að sinna samferðafólkinu er fyrir hendi. Fjölskyldur geta líka skipst á að hringja í þá sem búa einir. Fólk sem á börn ætti ekki að vera í þeirri hættu að liggja slasað langtímum saman án þess nokkur grennslist fyrir um það. Það eru þeir sem fáa eiga að sem eru í meiri hættu.

Ástæða er til að hjálpast að við að koma upp svona neti fyrir einbúa ef þeir hafa ekki hugsun á að gera það sjálfir. Sumir þeirra hafa samt hugsun á slíku. „Hættu aldrei að hringja í mig,“ sagði gamall maður mér venslaður við mig. Ég hringdi í hann samviskusamlega árum saman nánast daglega. Nú er hann dáinn og ég er enn að venjast því að get ekki hringt í hann og spjallað stutta stund. Það er því ekki bara í þágu einbúanna sem ástæða er til að koma á svona símasambandi. Hinir sem búa ekki einir græða líka á því félagslega að hafa samband við einhvern daglega. Skapar hlýju og nánd. Maður er manns gaman, sama á hvaða aldri fólk er.

Guðrún Guðlaugsdóttir ágúst 27, 2015 14:07