Heldur vil ég vera svöng

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

Stolt er merkilegt fyrirbrigði. Það er tengt sjálfsmyndinni sterkum böndum en er samt ekki sjálfsmynd hrein og skýr. Líklega er stolt frekar afstaða. Máltæki – vafalaust austurlensk speki – segir: „Þú getur ekki ráðið hvað hendir þig en þú getur ráðið hvernig þú tekur því“.

Hvað er þá eiginlega stolt? Líklega að vita sig standa óbugaða og hafa varast að falla í þá gryfju að verða fórnarlamb. Vorkunn annarra er aldrei ókeypis. Hún er kannski ágæt í bili en setur fólk skörinni lægra en hina – af ýmsum ástæðum.

Stolt er vissulega virðingarvert í sjálfu sér en á því þarf að vera hóf eins og flestu öðru. Stolt ætti ekki að meina fólki að njóta þess sem lífið hefur fram að færa. Mér varð þetta ljóst einu sinni þegar ég fór á myndlistarsýningu með konu sem ég þekkti.

Ég sagði við hana:  „Ættum við ekki að fá okkur eitthvað áður en við förum að skoða myndinar?“„Ég held ekki,“ svaraði konan áberandi kæruleysislega. Svipbrigði í andliti hennar urðu til þess að ég sagði: „Það má víst ekki bjóða þér kaffi og smurbrauðsneið?“ Konan neitaði fyrst en dróst svo á að þiggja boðið. Hún borðaði hægt og settlega – einum of settlega. „Þú ert þó ekki langsvöng?“ sagði ég hikandi. „Ég hef satt að segja ekkert borðað síðan í gær. Endar ná ekki saman,“ svaraði konan í einlægni. „Því lætur þú ekki vita að þú eigir ekki fyrir mat? Þú átt fólk að,“ sagði ég. „Ég vil ekki vera upp á aðra komin – heldur vil ég vera svöng,“ svaraði þessi stolta kona.

Miklar umræður hafa spunnist um fátækt. Lengi vel vildi fólk ekki tala um fátækt sína. Stolt þess bannaði slíkt af því að það vill ekki láta vorkenna sér. Nú hefur verið opnað á þá umræðu og þá breytist viðhorfið smám saman.

Það er sérkennileg mótsögn að fátækt fólk fær sjaldnast neitt ókeypis – hinir ríku fá það mun oftar. Undarleg þjónkun við peninga verður til þess að ríku fólki er boðið þetta og hitt. Það eru þó ekki fólkið sem slíkt sem er áhugavert heldur miklu fremur eru það peningar þess sem „fá allt ókeypis“. Boðsmiðar eru til dæmis gott dæmi um þetta – þeim er oft boðið ókeypis á alls kyns viðburði og í ferðir sem síst þurfa á slíku að halda.

Ýmislegt hefur vakið mig til þessara umþenkinga. Til dæmis að mikið veikt fólk vill ekki tala um sjúkdóm sinn. Stolt þess, meðal annars, kemur gjarnan í veg fyrir að það velji slíkt umræðuefni. Það vill ekki vera minni máttar. Hinir, sem lasnir eru, tala gjarnan hátt og mikið  um líðan sína.

Gott dæmi um stolt er afstaða fólks sem ekki getur lengur keyrt. Það er furðu oft tregt til að þiggja far hjá öðrum. Fólk vill í lengstu lög bjarga sér sjálft. Vill ekki „láta hafa fyrir sér“.

Þeir sem heyra illa vilja oft ekki vera með heyrnartæki, neita sér jafnvel um að hvá, geta sér heldur til þess hvað fólkið í kringum það er að segja. Af slíku leiðir stundum gráthlægilegur misskilningur. En – hinn heyrnarsljói á sitt stolt eins og aðrir.

Það er alltaf matsatriði hvað fólk á að ganga langt í að láta stoltið ráða. Ef togstreita myndast er sennilega gæfulegra að láta dómgreindina vinna fremur en stökkva beint inn í „Bjarts í sumarhúsa-heilkennið“. Heppilegast sýnist að varðveita góða sjálfsmynd hvað stoltið snertir – en þiggja þó þá hjálp sem sem nauðsynleg er. Slíkt getur jafnvel skipt sköpum um framhald vegferðarinnar. Tækifæri til að borga fyrir sig í einhverri mynd kemur líka oftast þótt síðar verði. Af samkenndinni sprettur samhjálpin.

gudrunsg@gmail.com

 

Guðrún Guðlaugsdóttir febrúar 12, 2018 12:45