Tengdar greinar

Kynning

Margir íslenskir tannlæknar hafa lært í Ungverjalandi

Milli 400 og 500 manns hafa farið til tannlæknis hjá Madenta tannlæknstofunni í Búdapest í Ungverjalandi, á vegum Madenta á Íslandi sem Gunnar Jónatansson framkvæmdastjóri rekur.  Madenta er ein fjögura tannlæknastofa sem taka á móti Íslendingum í Búdapest. Gunnar segir að tannlækningarnar í Ungverjalandi séu í hæsta gæðaflokki. Þar sé að finna einn besta tannlæknaskóla í Evrópu og þangað hafi margir íslenskir tannlæknar sótt menntun sína.

Eiginkonan fór til tannlæknis í Búdpest

Það var eiginkona Gunnars sem fékk þá hugmynd að fá umboð fyrir tannlæknastofu í Búdapest, eftir að ungversk vinkona hennar hvatti hana til að prófa að fara til tannlæknis þar. Hún gerði það og var mjög ánægð. Í framhaldinu  gerði hún samning við Madenta tannlæknastofuna sem hún vissi að Danir notuðu mikið, um að fara í samstarf við þá um tannlækningar fyrir Íslendinga.  Þegar hún sneri sér að öðrum störfum, tók Gunnar við samningnum við Madenta tannlæknastofuna, en það var árið 2018.

Alltaf einhver frá okkur í hverri viku

Gunnar segir að áður en Covid skall á, hafi milli 200 og 250 manns farið árlega á þeirra vegum til tannlæknis ytra. Þegar faraldurinn stóð sem hæst varð hlé á þessum ferðalögum í eitt og hálft ár, en eftir að Covid gekk yfir hefur fjöldi þeirra sem fer, farið stigvaxandi.  „Það má segja að í hverri viku sé einhver á okkar vegum þarna úti, en aðsóknin er þó ekki ennþá komin í það sama og fyrir Covid“, segir hann.

Madenta er með tannlæknastofur í miðborg Búdapest

Yfirleitt ódýrara og gengur hraðar fyrir sig

„Ástæðan fyrir því að fólk velur að fara til tannlæknis í Búdapest er að þannig er hægt að spara sér umtalsverða peninga. Til viðbótar við þann ávinning, finnst mörgum líka gott hvað tannlækningarnar þar ganga hratt fyrir sig. Það getur tekið 4-6 mánuði að gera sömu hluti hér á Íslandi og hægt er að gera á einni viku þarna úti“, segir Gunnar. „Verðmunurinn á tannlækningunum úti og hér heima fer svolítið eftir því hvað er gert, en að meðaltali munar um helmingi á kostnaðinum. Munurinn er meiri þegar lagt er í stærri aðgerðir svo sem meiriháttar krónusmíði og tannplanta, en ef menn fara bara t.d. til að bæta við einni tönn á tannplanta,  koma þeir nokkurn veginn út á sléttu, vegna þess að ferðakostnaðurinn við kannski tvær ferðir á staðinn, jafnar mismuninn út“  Hann segir að margir sem leiti til þeirra, séu búnir að minnka við sig vinnu vegna aldurs, eða séu hættir að vinna. „Þá er ferðalagið í okkar huga bónus, en ekki eingöngu viðbótarkostnaður“.

Ef eitthvað kemur uppá

Gunnar segir að tannlækningarnar hjá Madenta hafi gengið vel og viðskiptavinirnir hafi gegnum gangandi verið ánægðir. „ En gallinn er vissulega sá, að ef eitthvað kemur uppá, þarf að sækja aðstoðina langt. En við erum með þrjá bestu tannlæknana þarna á stofunni. Ástæðan fyrir því að þeir sinna okkur er að það er erfiðara að stunda túrista tannlækningar en almennar tannlækningar. Sú staðreynd að fólk þarf að fljúga langar leiðir til að fá aðstoð, gerir að verkum að tannlæknarnir vanda sig enn meira og  allt er gert til að koma í veg fyrir að eitthvað fari úrskeiðis. Það er miklu auðveldara fyrir þá sem búa á sama stað og tannlækningastofan er að fá aðstoð ef eitthvað bregður út af“.

Búdapest þykir falleg borg

Ábyrgð tekin og hluti ferðakostnaðar greiddur

Það algengasta sem kemur uppá að sögn Gunnars er að tannkrónur losna. „ Límið getur gefið sig. Yfirleitt er ábyrgð tekin á viðgerðinni og þegar eitthvað slíkt gerist, tökum við þátt í ferðakostnaðinum til Búdapest og leggjum fram 200 evrur, sem er ekki óalgengt fargjald þangað. Fólk getur þá valið hvort það vill fara út eða verja þessum peningum í tannlækni hér heima og láta hann líma krónuna aftur. Þetta gerist ekki oft, en er það algengasta sem kemur uppá. Það gerist náttúrulega eitthvað hjá öllum, ég held að fáir tannlæknar geti sagt að það komi aldrei neitt upp hjá þeim.

Lausir gómar afleit lausn

Þeir sem sækja mest í tannlækningarnar í Búdapest eru þeir sem þurfa tanngervi og krónusmíði. Fólk vantar kannski allar tennur í góminn og þarf nýja góma uppi og niðri. „Núna eru þrjár leiðir sem hægt er að fara til að leysa þetta vandamál“, segir Gunnar. „Fyrsta og ódýrasta leiðin er lausir gómar sem er sísta lausnin.  Næsta lausn er að vera með tvo til fjóra tannplanta og smella gómi ofan á þá. Þriðja og síðasta lausnin er þannig að heill gómur er skrúfaður fastur á fjóra tannplanta. Tanngarðurinn er þannig festur með varanlegum hætti og fólk er með heilan góm sem liggur ofan á eigin gómi. Það er af þessum stóru aðgerðum sem fjárhagslegi ávinningurinn er mestur“.

 

Ritstjórn september 1, 2022 07:02