Er húsnæðið orðið of stórt?
Þegar við erum komin á miðjan aldur fara margir að hugsa sér til hreyfings. Börnin flytja að heiman hvert af öðru og húsnæðið, sem hefur þjónað fjölskyldunni vel, verður skyndilega of stórt. Þá fer lífið að snúast of mikið um þrif því rykið safnast áfram í öll herbergin. Þá er betra að minnka við sig húsnæðið, sérstaklega á meðan fólk er enn heilsuhraust, því meira vit er í að nota peningana sem fást á milli í að eignast eða gera það sem hugurinn hefur lengi staðið til. En hvernig er best að haga málum þegar fólk hefur verið lengi á sama stað og hvert er best að fara?
Samkvæmt fasteignasalanum Jónasi Jónassyni hjá Valhöll fasteignasölu eru margir á þessum aldri ekki tilbúnir að fara úr einbýli í fjölbýli. Hjá þeim hópi eru minni raðhús eða minni einbýli vinsæl en þannig húsnæði liggi ekki endilega á lausu. Fyrir þá sem vilja fjölbýli eru íbúðirnar við Valsheimilið og Kirkjusandinn vinsælar en þar er verð mjög svipað. ,,Töluverður verðmunur er á hverfum en þó minni þegar kemur að nýjum eignum,“ segir Jónas. ,,Þegar fólk er tilbúið að fara í fjölbýli þá eru íbúðir sem tengjast þjónustu vinsælar og eru mörg hverfi sem koma til greina til dæmis Smárahverfið, Mjóddin, Mörkin, Hraunbær og Sjálandið í Garðabæ en í þessum hverfum eru fallegar blokkir með lyftu og góðu aðgengi.“
Jónas segir að mjög lítið hafi verið að gerast í Vesturbænum til þessa en nú sé verið að byggja á gamla Byko-reitnum vestur í bæ. Hann gerir ráð fyrir að það verði dýrari eignir sem fari í sölu þar líkt og annað sem hefur verið byggt á því svæði.
Yngra fólk segir Jónas að fari frekar í úthverfin þar sem það fær meira fyrir peninginn og nóg pláss er fyrir börnin.