Sköp mín eru hvorugkyns í fleirtölu  

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Ég heyrði nýlega íslenskan málvísindamann segja að íslenskan skipaði sér í hóp “kynjuðustu” tungumála heims og að í íslensku skipi karlkynið öndvegis sess.

Karlkyns orð eru ríkjandi í íslensku, en orð í kven-og hvorukyni eru víkjandi. Konur og menn tilheyra til dæmis bæði mannkyninu, og oft er sagt, “að konur séu líka menn”.  En aldrei er sagt að karlar tilheyri kvenkyninu og karlar séu líka konur. Karlkynið er almengið, en kvenkynið er brot af því.

Á mínum skólaárum var íslensk stafsetning eitt erfiðasta fagið mitt og ég kveið alltaf fyrir stafsetningaprófum. Ég óttaðist að ég mundi stafa orð, sem áttu að vera með ypseloni með einföldu i, setja s í endingu sagnar þar sem átti að vera zeta, eða skrifa orð með litlum staf, sem áttu að hefjast á stórum staf. Önnur mistök sem ég óttaðist var endingin á lýsingarhætti nútíðar og þátíðar í eintölu, þar sem karlkynsverur fengu tvö nn, en kvenkynsverur eitt n.

Dæmi um þetta er setning eins og þessi: Karlinn er (eða var) farinn heim, en konan er (eða var) farin heim, hundurinn var óvænt hlaupinn upp í fjall, en kindin var óvænt hlaupin upp í fjall.

Ég velti oft fyrir mér þessum mismun og hef oft spurt mig af hverju það þurfti tvö nn til að lýsa því að karl sé farinn eða hundurinn hlaupinn. Komust karlinn og hundurinn kannski lengra eða hraðar heim eða upp í fjall en konan og kindin með eina enninu?

Það er fjöldi annarra orða í íslensku, sem hafa fleiri stafi þegar vísað er til karls en þegar vísað er til konu. Lýsingarorð eru gott dæmi um þetta. Til dæmis er karl sagður vera fríður, ljótur, hár, smár, grannur, feitur, skemmtilegur eða leiðinlegur. Kona er hins vegar sögð vera fríð, ljót, há, smá, grönn, feit, skemmtileg eða leiðinleg.

Hér er verið að lýsa sömu kostum og göllum karla og kvenna, en lýsingarorðin í þessum setningum í karlkyni hafa samanlagt 14 stöfum fleiri en sömu orðin í kvenkyni. Karlkynið er sem sagt ekki aðeins ríkjandi kyn innan íslenskunnar, heldur tekur það líka til sín fleiri stafi úr stafrófinu og tekur fyrir vikið meira rými en kvenkynið í rituðu máli.

En það sem gerir íslensku líka frábrugna mörgum örðum tungumálum, er að allt, jafnt lifandi sem dautt, er annað hvort karlkyns, kvenkyns, hán eða hvorugkyns. Í ensku eru aðeins mannverur karlkyns, kvenkyns eða hán, allt þar fyrir utan, lifandi sem dautt, er hvorugkyns.

Þessi munur á íslensku og ensku, tungumálunum tveim, sem ég tala jöfnum höndum, varð kveikjan að ljóði, sem ég samdi á ritlistarnámskeiði fyrir nokkrum árum, en þar var okkur uppálagt að skrifa hugleiðingu um líkama okkar og kyn. Ég áttaði mig á því þá, að á ensku eru allir líkamshlutar mínir hvorugkyns, en á íslensku eru þeir annað hvort karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns.

 Um þetta einkenni íslenskunnar samdi ég ljóð, sem á ensku ber titilinn “My Multi-gendered Body” og fylgir það hér með í lauslegri þýðingu:

  “Hinn þríkynja líkami minn”.

Á íslensku er

r mitt

hvorugkyns

sem vex upp úr

karlkyns skalla

og prýðir

kvenkyns hauskúpu mína

Hauskúpan

hvílir

á karlkyns hálsi,

sem situr sæll

á kvenkyns öxlum

og fram úr öxlunum tveim

standa karlkyns handleggir

á þeim miðjum

eru karlkyns olnbogar

og neðst karlkyns úlnliðir

áfastir tveim

kvenkyns höndum

með karlkyns lófum og

hvorugkyns handarbökum

og með samanlagt tíu

karlkyns fingrum

sem skarta

tíu kvenkyns nöglum

Áður nefndur

karlkyns háls minn

hvílir á hvorugkyns baki

sem nær niður að

hvorugkyns mitti mínu

og þar fyrir neðan

eru kvenkyns mjaðmir

og framan á þeim

er karlkyns magi

en að aftan karlkyns rass

og neðst fyrir miðju

hvíla sköp mín

í hvorugkyni fleirtölu

Áföst mjöðmum mínum

eru tvö hvorugkyns læri

og hné í hvorugkyni

sem tengja lærin

karlkyns

fótleggjum

sem enda

í karlkyns öklum

 þar taka við karlkyns

hælar 

tengdir

kvenkyns ristum

og kvenkyns iljum

áfastar þeim eru tíu

kvenkyns tær með

tíu kvenkyns nöglum

Við talningu kemur í ljós að á íslensku eru 13 hlutar af líkama mínum karlkyns, tíu í  kvenkyni og sex í hvorugkyni. Þó mjótt sé á munum á milli karl-og kvenkynsheita, þá eiga karlkynsorðin vinninginn, nema hvað?

 

Inga Dóra Björnsdóttir október 17, 2022 07:00