Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Eldri systir mín gifti sig sumarið 1968. Hún var nýorðin átján ára. Henni og kærasta hennar hafði boðist lítil íbúð til leigu vestur í bæ og vildu ólm fara að búa. Á þessum árum kom óvígð sambúð ekki til greina, svo eina leiðin til að láta drauminn rætast var að ganga í það heilaga og gerðu þau það í snatri.
Ungu hjónin voru að vonum að öllu óreynd í heimilishaldi og komu því oft í kvöldmat til mömmu upp í Hlíðar og eftir að hafa horft á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu með okkur skutlaði mamma þeim gjarnan heim.
Eitt kvöldið þegar mamma hafði keyrt þau heim uppgötvaði ég, þar sem ég sat með yngri systur minni fyrir framan sjónvarpið, að 45 mínútur voru liðnar frá því að hún fór með systur mína og manninn hennar heim og var ekki komin til baka.
Hvernig stóð á því? Ég rauk í símann og hringdi í systur mína og tjáði hún mér að mamma hefði keyrt þau upp að dyrum og hefði ætlað beint heim aftur. Við þessi orð fylltist ég skelfingu, í mínum huga var aðeins ein skýring á því af hverju mamma hafði ekki komið heim aftur. Hún hlyti að hafa lent í slysi.
Ég skellti á systur mína og hringdi í ofboði í lögregluna og spurði hvort appelsínugul fólksvagen bjalla hefði lenti í slysi á Hringbrautinni eða á Miklubrautinni. Konan á lögreglustöðinni svaraði mér sallaróleg, að engin slys né árekstrar hefðu orðið í Reykjavík enn sem komið væri á þessu kyrrláta síðsumarkvöldi.
Ég róaðist um stund við hennar orð, en þegar ekkert bólaði á mömmu fylltist ég örvæntingu á ný og tókst að sannfæra sjálfa mig og systur mínar um, að fyrst mamma hefði ekki lent í slysi, þá hlyti hún að hafa ákveðið að fara að heiman og væri nú komin út úr bænum á leiðinni út í buskann.
Í krafti þessarar sannfæringar hringdi ég aftur í lögregluna og spurði nú stúlkuna á stöðinni hvort sést hefði til appelsínugulrar fólksvagen bjöllu á ferð á vegunum utan Reykjavíkur.
Hún sagði svo ekki vera, lögreglan fylgdist ekki grannt með bílaumferð á vegum landsins og ef, bætti stúlkan á stöðinni við, móðir mín væri týnd gat lögreglan ekki hafist handa við að leita að henni fyrr en 24 stundum eftir hún fór að heiman.
Ég lagði símann á reið og hneyksluð, hvernig í ósköpunum datt konunni í hug að við myndum bíða í 24 tíma með að leita að mömmu og rauk inn í svefnherbergi til pabba og vakti hann, en hann var einkar kvöldsvæfur maður. Ég skipaði honum snökktandi að fara strax á fætur og fara út að leita að mömmu. Við öll þessi læti vaknaði yngsta systir mín og fór svo að pabbi tók hana með sér hágrátandi í náttfötunum í leigubíl til að leita að mömmu.
Rétt hálftíma síðar, um ellefu kom mamma gangandi upp tröppurnar á húsinu okkar glöð í bragði með spilaborðið sitt undir hendinni. Við stukkum út í ofboði og spurðum mömmu ævareiðar hvar í ósköpunum hún hefði eiginlega verið. Hún sagði okkur að á leiðinni heim hefði hún keyrt fram hjá húsi Unnar vinkonu sinnar í næstu götu og séð ljós í stofuglugganum og því ákveðið að koma við og ná í spilaborðið sitt, en Unnur hafði haldið síðasta spilaklúbbinn. Unnur bauð mömmu inn og þær vinkonurnar gleymdu stað og stund yfir sjerrýglasi í kvöldhúminu.
Já en, spurðum við mömmu, af hverju lést þú okkur ekki vita? Mömmu varð fátt um svör, og fljótt fóru að renna á okkur tvær grímur, sjálf gat ég ekki svarað því af hverju mér og okkur systrum fannst mömmu skylt að tilkynna okkur um allar sínar ferðir, meðan við sjálfar gerðum það bara endrum og eins? Pabbi og litla systir okkar komu heim ekki löngu síðar og, aldrei þessu vant sagði pabbi ekki neitt, og við fórum öll slegin að sofa og ég auk þess full af skömm og sektarkennd yfir því að hafa staðið fyrir þessari uppákomu.
Þó þetta atvik hafi aldrei verið rætt frekar, hafði það djúp áhrif á mig. Það vakti mig til umhugsunar um stöðu húsmæðra og mæðra í íslensku samfélagi. Móðir mín, var eins og stærsti hluti giftra kvenna á Íslandi á þessum árum, heimavinnandi húsmóðir.
Hún var á vakt allan sólarhringinn við að sinna þörfum dætra sinna fimm og eiginmanns síns. Hún sá um allt og vissi hvar allt var og hvað allir þurftu. Og hún átti alltaf að vera til taks til að svara spurningum og þjóna okkur, og ef hún brá sér af bæ, þá átti hún auðvitað að láta okkur vita hvert hún var að fara og hversu lengi hún ætlaði að vera að heiman. Og þegar henni láðist að koma heim á réttum tíma, eins og þetta umrædda kvöld, var aðeins ein möguleg skýring á því, hún hlyti að hafa orðið sér að voða eða væri týnd og því þurftum við á fá aðstoð lögreglunnar til að finna hana.
Þessi uppákoma hafði líka mikil áhrif á mömmu og það var ekki hrein tilviljun sem réði því, að þrem árum síðar, eða árið 1971, sótti hún um vinnu og lét okkur ekki vita af því fyrr en hún hafði verið ráðin í starfið.
Þó kvenréttindahreyfingin á Íslandi væri að rumska á ný um þessar mundir og giftar konur væru farnar að hugsa sér til hreyfings út á vinnumarkaðinn, þá urðu vinkonur mömmu mjög hissa á þessu uppátæki hennar, og töldu skýringinguna helst vera þá, að tekjur pabba dygðu ekki lengur til að framfleyta fjölskyldunni.
En við vissum betur. Mamma vildi ekki lengur gegna hlutverki eiginkonunnar og húsmóðurinnar, sem var á vakt allan sólarhringinn og við gátum gengið að vísri “á bak við eldavélina” eins og einn góður maður sagði eitt sinn, að húsmæður ættu að dvelja flestum stundum.
Mamma vildi ekki bara komast út úr eldhúsinu heldur út úr húsinu og inní hringiðu atvinnu-og þjóðlífs og naut þess í botn að fá launseðil í lok hvers mánaðar.