Aðalsteinn Örnólfsson skrifar
Á unglingsárunum verjum við mestum tíma með foreldrum okkar, systkinum og vinum. Þegar við komumst á fullorðinsár verjum við meiri tíma með vinnufélögum okkar, samstarfsaðilum og börnum, og á seinni árum verjum við æ meiri tíma ein.
Það er mismunandi eftir aldri hverjum við verjum mestum tíma með og það breytist eftir því sem árin líða. Á unglingsárunum verjum við mestum tíma með foreldrum okkar, systkinum og vinum. Þegar við komumst á fullorðinsár verjum við meiri tíma með vinnufélögunum, samstarfsaðilum og börnum og á seinni árum verjum við æ meiri tíma ein. En það þýðir ekki endilega að við séum einmana, heldur sýnir það eðli félagslegra tengsla og áhrif þeirra á líðan okkar.
Þegar við förum í gegnum lífið byggjum við upp persónuleg tengsl við mismunandi fólk – fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samstarfsaðila. Þessi sambönd, sem eru okkur öll mjög mikilvæg, þróast með tímanum. Þegar við eldumst byggjum við upp ný sambönd á meðan önnur umbreytast eða dofna og undir lok lífsins verjum við mörg okkar miklum tíma ein.
Til að skilja hvernig félagsleg tengsl þróast í gegnum líf okkar getum við skoðað gögn um hversu miklum tíma við verjum með öðrum og þá hverjum.
Myndin hér fyrir neðan sýnir þann tíma sem fólk í Bandaríkjunum segir að það verji í félagsskap annarra, miðað við aldur þess. Gögnin koma úr tímanotkunarkönnunum, þar sem fólk er beðið um að skrá allar þær athafnir sem það sinnir yfir heilan dag og fólkið sem var viðstatt meðan þær stóðu yfir. Eins og er höfum við aðeins gögn með þessa nákvæmni fyrir Bandaríkin – tímanotkunarkannanir eru algengar í mörgum löndum, en það sem er sérstakt við Bandaríkin er að svarendur bandarísku tímanotkunarkönnunarinnar eru beðnir um að skrá alla sem voru viðstaddir hverja athöfn.
Tölurnar á þessari mynd eru byggðar á meðaltölum fyrir þverskurð af bandarísku samfélagi. Aðeins er rætt einu sinni við fólk, en við höfum tekið saman áratug af könnunum, þar sem sjá má meðaltalstímann sem svarendur á mismunandi aldri segjast verja með öðru fólki.
Þegar við erum ung – sérstaklega á táningsaldri – verjum við miklum tíma með vinum, foreldrum, systkinum og stórfjölskyldu. Þegar við erum komin yfir tvítugt byrjar tíminn með vinum, systkinum og foreldrum að fara hratt niður á við. Þess í stað byrjum við að verja meiri tíma með maka og börnum. Myndin hér fyrir ofan sýnir meðaltal yfir Bandaríkjamenn, þannig að fyrir þá sem eiga börn er tíminn með börnum enn meiri, þar sem meðaltalið er dregið niður af þeim sem eru án barna.
Eins og myndin sýnir heldur þetta áfram allan 30, 40 og 50 ára aldur okkar – á þessu tímabili lífsins verja Bandaríkjamenn miklum af tíma sínum með maka, börnum og, sem kemur ekki á óvart, vinnufélögum.
Fyrir þá sem eru 60 ára og eldri sjáum við enn verulega samveru með vinnufélögum. Þetta er eðlilegt, miðað við að margir í Bandaríkjunum fara á eftirlaun um miðjan sjötugsaldurinn.
Hvað varðar samskipti okkar við aðra, bendir þetta graf til þess að sá fjöldi fólks sem við höfum samskipti við sé mestur í kringum 40 – 50ára, en eftir það breytast hlutirnir verulega. Og þetta er kannski mest áberandi þróunin á myndinni, eftir fertugt eyðir fólk sífellt meiri tíma eitt.
Eldra fólk ver miklum tíma eitt og sér og það er skiljanlegt. Tíminn sem við erum ein eykst með aldrinum þegar heilsan fer oft að bila og fólk missir ættingja og vini.
Reyndar búa margir sem eru eldri en 60 ára einir. Að búa einn er sérstaklega algengt meðal eldra fólks. Í dag búa næstum 4 af hverjum 10 Bandaríkjamönnum sem eru eldri en 89 ára, einir.
Annar athyglisverður punktur er að hluti fólks í öllum aldurshópum sem býr eitt, hefur farið vaxandi með tímanum. Þetta er hluti af almennari alþjóðlegri þróun. Eldra fólk eyðir meiri tíma eitt, en það þýðir ekki endilega að það sé einmana
Gögnin sýna að eftir því sem við verðum eldri höfum við tilhneigingu til að eyða meiri og meiri tíma ein. Það sem meira er, gögnin sýna líka að eldra fólk í dag ver meiri tíma eitt en eldra fólk gerði áður. Við gætum haldið að eldra fólk sé því meira einmana – en sú er ekki endilega raunin.
Að verja tíma einn er ekki það sama og að vera einmana. Þetta er punktur sem er vel viðurkenndur af vísindamönnum og hefur verið staðfestur með reynslu frá ýmsum löndum. Kannanir sem spyrja fólk um búsetufyrirkomulag, tímanotkun og einmanaleika, sýna að það að búa einn segir ekki endilega mikið til um hvort fólk er einmana eða ekki.
Ef við einblínum á einmanaleikann er lítið sem bendir til að hann hafi færst í vöxt í Bandaríkjunum og það sem meira er, einmanaleiki meðal fólks eykst ekki með aldrinum. Reyndar kom í ljós í nýlegri rannsókn að eftir 50 ára aldur – sem var elsti aldur þátttakenda í greiningunni – hafði einmanaleiki tilhneigingu til að minnka, þar til hann fór aftur að aukast um 75 ára aldur.
Þegar sönnunargögnin eru tekin saman er niðurstaðan ekki sú að við ættum að vera sorgmædd yfir öldruninni, heldur að við ættum að viðurkenna þá staðreynd að félagsleg tengsl eru flókin. Við höfum oft tilhneigingu til að líta á þann tíma sem varið er með öðrum sem merki um félagslega vellíðan, en gæði tímans með öðrum, og væntingar okkar, skipta meira máli fyrir tilfinningar okkar varðandi tengsl og einmanaleika.
Hér fyrir neðan má sjá mínúturnar sem eldra fólk í Bandaríkjunum ver með ýmsum hópum. – unnið úr úrtaki sem nær yfir 10 ár, frá 2009-2019
- Maður eyðir 485,53 mínútum á dag einn.
- Með vinnufélaga 5.22 mínútur á dag.
- Með börnunum sínum 45,01 mínútur á dag.
- Með fjölskyldu sinni 66,10 mínútur á dag.
- Með vinum/vini 35,59 mínútur á dag.
- Með maka (eiginkona, eiginmaður, kærasta, kærasti o.sv.fr.) 227,05 mínútur.