Tengdar greinar

50 manna blandaður kór gefur lífinu gildi

Kór Félags eldri borgara í Reykjavík var stofnaður 1986 og hefur verið starfræktur nær samfleytt þar til í mars á þessu ári, en á þeim tíma voru að hefjast samkomutakmarkanir vegna Covid-19 faraldursins. Síðastliðin 6-7 ár hefur Gylfi Gunnarsson verið stjórnandi kórsins, en hann sagði starfi sínu lausu í sumar. Vegna ástandsins hefur nýr kórstjóri ekki enn verið ráðinn. Að sögn Gísla Jónatanssonar, formanns kórsins, standa vonir til þess að hægt verði að hefja kóræfingar aftur eftir áramótin. En eins og allir vita veltur það á árangri okkar í baráttunni við Covid-veiruna hvort samkomur eins og kórastarf verða leyfðar. Kór Félags eldri borgara í Reykjavík er 50 manna blandaður kór og að sögn Gísla hefur hver kóræfing gífurlegt vægi í lífi kórfélaga. Flestir hafa verið í öðrum kórum um ævina og vita hversu mikilvæg slík starfsemi er.

„Söngurinn hefur ómetanlegt gildi fyrir meðlimi kórsins sem koma endurnærðir á líkama og sál eftir hverja æfingu,“ segir Gísli. „Kórinn æfir alls konar lög, bæði íslensk og erlend, og haldnir eru tónleikar þar sem afrakstur æfinganna er sýndur.“

Ljóst er að kórastarf er eitt af því sem léttir lund kórfélaga og nú um stund veitir ekki af. Óskandi er að þessi góða starfsemi geti hafist aftur innan tíðar.

 

Ritstjórn nóvember 3, 2020 09:00