Baðföt sem henta vaxtarlagi hvers og eins

Veðrið á suðvesturhorninu í sumar kallar svo sannarlega ekki á það að menn hugsi til baðfatakaupa, regnkápa væri nær lagi. En margir hugsa kannski gott til glóðarinnar að notfæra sér hausttilboð í sólina, sérstaklega þeir sem eyddu öllu sumrinu í að bíða eftir góða veðrinu sem ekki kom. Og þeir vilja ugglaust eiga góð baðföt til að spóka sig í á ströndinni. Það er alltaf gaman að fá sér nýjan sundbol eða bíkíni og það skiptir miklu máli að flíkurnar passi vel og henti vaxtarlagi eigandans. Á vefnum Livestrong.com, er skemmtileg grein um baðföt. Allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem þeir hugsa sér að stunda vatnasport, eða kúra á sólbekk undir sólhlíf með bók í hönd, segir meðal annars í greininni. Ef menn vilja draga að sér athygli klæðast þeir baðfötum í skærum litum, en ef þeir hafa ekki áhuga á því eru dempaðir og dökkir litir betri.

Það er hins vegar þrautin þyngri að finna baðföt sem passa. Úrvalið hér á Íslandi er náttúrulega ekki það sama og hjá stórþjóðunum, en engu að síður er gaman að skoða á myndunum á Livestrong hvaða snið af baðfötum henta hverjum og einum, allt eftir því hvernig fólk er í laginu. Við sjáum nokkur dæmi um það á myndunum hér fyrir neðan og einnig má smella hér til að lesa meira um þetta efni á Livestrong.com

Bent er á það í greininni, að það sé upplagt þegar sundfötin eru mátuð að prófa fyrst sína vanalegu stærð og búa sig svo undir að fara í aðeins upp í stærðum, þar sem flest baðfötin passi betur, séu þau tekin einu númeri of stór. Þeim sem ætla að kaupa sundföt á netinu er bent á að hafa öll mál við hendina og skoða stærðarkortin sem þar eru sýnd.  En það er eitt mikilvægt atriði sem bent er á í greinni : „ Mundu alltaf að ef baðfötin passa ekki, þá er ekki við þig að sakast, það eru baðfötin sem henta ekki“.

Hérna fyrir neðan koma nokkrar myndir af konum í baðfötum sem henta þeirra vaxtarlagi.

 

Ritstjórn júlí 26, 2018 09:40