Er sextug manneskja gömul?

Hvenær er maður eða kona orðin gömul. Svarið ræðst af því á hvaða aldri sá sem svarar er. Samkvæmt rannsóknum skilgreinir fólk sem er undir þrítugu fólk gamalt þegar það nær 60 ára aldri. Ef fertugt fólk er spurt, segir það að fólk sé orðið gamalt þegar það nær 70 ára aldri. Ef fólk sem er á milli 60 og 70 ára er spurt segir það að fólk sé orðið aldrað eftir 74 ára aldur. Annað sem gerist þegar við eldumst er að við förum sjálf að skilgreina okkur yngri en við erum. Til dæmis segja áttræðir einstaklingar oft að þeir upplifi sig sjötuga og hver hefur ekki heyrt fimmtugt fólk staðhæfa að það upplifi sig ekki degi eldra en 35 ára.

Fólk á aldrinum 18 -29 ára telur það ellimörk að gleyma nöfnum annars fólks en helmingur þeirra sem eru orðnir þrítugir og eldri telja það til marks um að fólk sé orðið gamalt. Ungt fólk telur að þeir sem eru orðnir afar og ömmur séu gamlir á meðan afarnir og ömmurnar telja það hina mestu firru.

Sýn okkar á aldur breytist sem sagt stöðugt og það má ekki síst þakka auknu langlífi. Nútíma læknavísindi og tækni gera fólki kleyft að eiga lengra og betra líf. Sjötíu, áttatíu og jafnvel níutíu ára einstaklingar geta átt gott og gjöfult líf og gefið mikið af sér.  Þess vegna verðum við að endurskilgreina hvað það þýðir að vera gamall. Framfarir á sviði læknisfærði og velferðartækni verða þess væntanlega valdandi í framtíðinni að öldrun þýðir ekki endilega að við missum líkamlega og andlega getu, heldur verður aldrað fólk virkir samfélagsþegnar.

Ritstjórn apríl 10, 2019 09:13