Tjáning er undirstaða mannlegra samskipta og við erum mismunandi þjálfuð í að tjá hugsanir okkar. Margt bendir einnig til að við séum líka mismunandi vel til þess fallin frá náttúrunnar hendi að lesa í framkomu annarra og aðstæður. Hin svokallaða tilfinningagreind sker úr um það hversu fær við erum en hún þykir ákaflega eftirsóknarverð á vinnumarkaði nútímans. En allt má þjálfa og betrumbæta og bók Sirrýjar, Betri tjáning, örugg framkoma við öll tækifæri, miðar að því að færa öllum tækin og tólin sem þarf til að ná til fólks og bæta samskiptin.
Bókin er einstaklega vel skipulögð. Hver kafli hefur sitt viðfangsefni og verkefni til þjálfunar. Reynslusögur af vondum eða góðum samskiptum skýra síðan og undirstrika þann kjarna sem höfundur vill koma á framfæri. Sirrý hefur lengi kennt góða tjáningu og vegna þess að þetta er henni sérstakt áhugamál er hún einstaklega fróð á þessu sviði. Í þessari bók miðlar hún þeirri þekkingu á lipran og aðgengilegan máta.
Það er aldrei of seint að bæta samskipti sín og tjáningaraðferðir en það getur munað ótrúlega miklu að geta sett sig í spor annarra og byrja samtöl á réttum grunni. Betri tjáning, örugg samskipti við öll tækifæri er sérlega fín handbók og skemmtileg aflestrar að auki.