Félagsleg einangrun og einmanaleiki hafa aukist mikið í vestrænum samfélögum. Svo mjög raunar að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO, hefur líkt einmanaleika við faraldur. Rannsóknir vísindamanna sýna svo að einmanaleiki hefur alvarleg áhrif á heilsufar fólks. Áður fyrr var hverfisverslunin samkomustaður þar sem nágrannar hittu hvern annan, ræddu veðrið og málefni líðandi stundar og allir þekktu kaupmanninn. Þetta er liðin tíð en víða erlendis eru stórmarkaðir farnir að sýna viðleitni til að gera ópersónulegar verslanir vinalegri.
Margar ástæður eru fyrir þessum vexti einangrunar og einmanaleika, meðal annars miklar breytingar á samfélagsgerðinni. Sú fyrsta er einfaldlega aukið langlífi. Eftir starfslok horfa flestir fram á mörg ár sjálfstæðis og frelsis. Heilsubrestur eða skortur á félagslegum tengslum fyrir eftirlaunaaldur getur hins vegar gert það að verkum að fólk njóti ekki samvista við aðra í eftir að vinnunni lýkur.
Önnur ástæað er að eldra fólk býr flest í sjálfstæðri búsetu en ekki inni á heimilum barna sinna eins og algengt var á Íslandi fyrir um það bil öld. Það er aðeins einni til tveimur kynslóðum frá þeim sem nú tilheyra elstu kynslóðum samfélagsins.
Spjallkassar og hjálparkörfur
Margvíslegt félagslíf og þátttaka í trúartengdu starfi skapar mörgum þá tilfinningu að tilheyra og einnig skapast þar tengsl og samstaða sem kemur í veg fyrir einangrun þótt fólk eldist. Erlendar rannsóknir benda til að slík tengsl séu minni nú en áður og það getur haft sitt að segja um aukna einangrun. Í könnun á vegum stjórnarráðs Íslands kom í ljós að 41% eldra fólks á Íslandi taldi sig ekki einmana en um 6% sagðist vera mjög einmana.
Nýlega var birt grein á Lifðu núna um sérstakt átak gegn félagslegri einangrun sem gert var í Hollandi og þar kom fram að víða höfðu stórmarkaðir og matvöruverslanir komið upp sérstökum spjallkössum þar sem eldra fólk gat fengið afgreiðslu á sínum hraða og spjallað við afgreiðslufólkið um daginn og veginn. Síðan höfum við frétt af sambærilegu í breskum verslunum þar sem hægt er að taka sérstakar körfur sem segja starfsfólki að sá sem ber þær þurfi aðstoð við að versla og vilji gjarnan spjalla.
Í Auckland á Nýja Sjálandi er í Eastridge Shopping Center hægt að taka innkaupakörfur með stól sem hentar fyrir fullorðna. Annað hvort getur fólk þá tekið sér pásu og sest einhverja stund því það er lýjandi að ganga milli rekka í stórum verslunum eða fengið ættingja með sér í innkaupaferðina og sá keyrir þá vagninn. Þessir vagnar heita Caroline Cart‘s eftir fatlaðir dóttur hönnuðarins Drew Ann Long. Þegar dóttir hennar eltist varð erfiðara að hafa hana með í verslunarferðir og þess vegna settist Drew Ann niður og hannaði þessa vagna en fljótlega varð ljóst að þeir nýttust fleirum í þeim verslunum sem bjóða upp á þá.
Ekki nein skipulögð þjónusta hér
Lifðu núna lék forvitni á að vita hvort stórmarkaðir og helstu verslanir hér hefðu skoðað einhverjar leiðir til að koma til móts við eldri borgara eða bjóða þeim sérstaka aðstoð og þjónustu.
„Þetta eru áhugaverðir punktar og held að þetta hafi ekki verið gert með svona skipulögðum hætti á dagvörumarkaði á Íslandi áður. Allavega að mér vitandi. Krónan er með sérstaka áherslu á lýðheilsu barna og unglinga og umhverfismál. Við erum með samfélagsstyrki Krónunnar sem snýr að því að styrkja nærumhverfi verslana. Hægt er að lesa meira um það á: https://kronan.is/styrkir
Eitt af því sem við höfum t.d. gert er að styrkja ákveðin lýðheilsuverkefni sem snýr að samverustundum fyrir eldri borgara, t.d. gönguhóp í Mosfellsbæ eða Ringó-íþróttastarf á Hvollsvelli. Við erum alltaf með augun opin varðandi svona málefnum og fögnum því umræðunni,“ segir Daði Guðjónsson forstöðumaður markaðs- og umhverfismála hjá Krónunni.
„Við erum ekki með sérstaka sérþjónustu fyrir eldri borgara. Þetta er hins vegar mjög góður punktur sem við tökum áfram,“ segir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir markaðs- og upplifunastjóri Hagkaupa.
„Við höfum aðstoðað eldri viðskiptavini símleiðis með hvernig þau panti í gegnum netið, ásamt því að bjóða eldri viðskiptavinum að vera app-áhrifavaldar eða í prufuhópum þegar við komum með Samkaupaappið,“ segir Birkir Einar Björnsson gæða- og þjónustustjóri Nettó og Iceland. „Spjallkassarnir ,sem þú nefnir, eru gríðarlega áhugaverðir það og eru eitthvað sem við þyrftum að skoða. Við erum alltaf að leita að nýjum leiðum til þess að koma á móts við okkar viðskiptavini.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.