Hefur þú talað við ömmu í dag?

Margir sem eru farnir að eldast eru einmana, og uppkomin börn þeirra, sem eru á kafi í atvinnulífinu, hafa ekki tíma til að heimsækja þá að staðaldri. Hér eru nokkur ráð til þeirra sem eru í þessari stöðu, en þau eru fengin úr grein af vef Danska Ríkisútvarpsins, DR. Það er Dorthe Boss Kyhn sem skrifar.

Margir eldri Danir eru einmana og eiga erfitt með að rjúfa einangrunina sem þeir finna fyrir. Á sama tíma eru uppkomin börn þessa fólks á kafi í atvinnulífinu og með stöðugt samviskubit gagnvart foreldrum sínum. Þetta heyrir María Lilja Jensen, ráðgjafi í öldrunarmálum, að minnsta kosti oft. „Við heyrum mikið um að fólk í þessari stöðu sé með samviskubit. Því finnst það ekki hafa nægan tíma til að líta til aldraðra foreldra sinna. Við vitum að þetta fólk hefur meira en nóg að gera og það er ekki hægt að gera kröfur um að það bæti meiru við sig. En það er mögulegt að gera fólki þetta auðveldra með ýmsum hætti“, segir María Lilja.

Biðjið um hjálp

Menn í þessari stöðu eiga ekki að vera hræddir við að biðja aðra um aðstoð. Við getum skipulagt heimsóknirnar betur. Það er til dæmis hægt að fá systkini sín í lið með sér og aðra í fjölskyldunni. Þannig er hægt að deila ábyrgðinni og heimsækja foreldrana sem eru farnir að eldast, til skiptis. Heimsóknirnar dreifast þá meira yfir vikuna og fjölskyldan vinnur saman að því að leysa málið. Menn eiga heldur ekki að óttast að biðja nágranna foreldra sinna um hjálp. Það er hægt að spyrja þá hvort þeir vilji hafa auga með íbúð þeirra við hliðina og láta vita, til dæmis ef gluggatjöldin eru ekki dregin frá, eða ef þau taka eftir einhverju óvenjulegu. „Maður heldur kannski að það sé ekki hægt að biðja óviðkomandi fólk um svona hluti, en það er okkar reynsla að flestir nágrannar eru alveg til í að aðstoða með þessum hætti“, segir María Lilja.

Fáið sjálfboðaliða í heimsókn

Það er ýmislegt annað hægt að gera. Það er til dæmis hægt að hafa samband við öldrunarþjónustu sveitarfélagsins eða félög sem taka að sér að heimsækja eldra fólk. Rauði kross Íslands býður til dæmis upp á slíka heimsóknarþjónustu. Milli 500 og 600 sjálfboðaliðar taka þátt í henni og eitt af því sem þeir gera er að heimsækja eldra fólk sem er einmana. Hlutverk heimsóknarvina RKÍ er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju, segir á heimasíðu Rauða krossins. Heimsóknarvinir spjalla við fólk, hlusta á það, þeir spila, föndra og fara með fólki út að ganga, í bíó, á kaffihús eða í bíltúr. Allt eftir því hvernig aðstæður viðkomandi eru og hvað þeir vilja gera.

Þetta dugir!

Það getur verið erfitt að horfa upp á það þegar foreldrar manns verða gamlir og missa kraftana. Við það snúast hlutverkin við. Allt í einu þarf maður sem uppkomið barn að verða eins konar foreldri foreldra sinna. „Margir segja við okkur að þeir viti ekki hvað þeir eigi að taka sér fyrir hendur, þegar þeir til dæmis heimsækja aldraða foreldra sína á hjúkrunarheimili, þar sem þeir sitja kannski í móki mest allan tímann eða sofa“, segir María Lilja. Hún segir jafnframt: „Menn verða að gera það upp við sig, hvað þeir treysta sér til að gera mikið og segja við sjálfa sig, að það sé nóg. Það þarf ekki endilega að vera svo mikið. Þegar þú heimsækir aldraða móður þína á hjúkrunarheimili er kannski alveg nóg að þú sért til staðar. Sitjir hjá henni með prjóna, eða með bók. Nærveran skiptir máli. En ræddu við starfsfólkið á stofnuninni þar sem foreldri þitt býr, til að fá leiðbeiningar um hvað best er að gera“.

Þessi grein birtist fyrst á Lifðu núna í maí 2015

Ritstjórn júlí 13, 2022 07:02