Með glýju í augum

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Því er oft haldið fram að hægt sé að draga skynsamlega lærdóma af sögunni. Í hugum flestra er þetta væntanlega sannara en frá þurfi að segja. Menn líta hins vegar gjarnan með nokkuð ólíkum hætti til þessara sanninda. Sumir virðast jafnvel vilja ganga í allt aðra átt í þessum efnum en aðrir, eins og dæmi eru um. Það átti til að mynda við þegar þeirri hugmynd var varpað fram fyrir skömmu, að fá löngu látinn mann nánst til að starfa með arkitektum nútímans, eða öfugt, við að koma þaki yfir höfuð alþingismanna og þeirra fylgdarliðs. Margir töldu eðlilega að þar væri um aprílgabb að ræða, en svo virðist hins vegar ekki hafa verið.

Sú uppákoma sem varð í kjölfar þessa alls skýrist væntanlega af því að sumir eiga það til að líta til fortíðar með glýju í augum. Það var ekkert allt svo miklu betra áður fyrr. Næsta víst er að það á ekkert síður við um arkitekta eða húsameistara eins og ýmislegt annað. Og það hlýtur einmitt þess vegna að vera heppilegra að reyna að draga skynsamlega lærdóma af sögunni, eins og segir hér í byrjun, frekar en að leitast við að endurlífga hana. Slíkt getur án efa auðveldlega oft á tíðum farið út í hreina vitleysu. Í þessu samhengi kemur til að mynda upp í hugann nokkuð sem greint er frá í ritverkinu Saga Reykjavíkur – í þúsund ár 870-1870, eftir Þorleif Óskarsson, sem Iðunn gaf út fyrir nokkrum árum.

Í þessu mikla verki er þess einmitt sérstaklega getið, að stundum megi draga skynsamlega lærdóma af sögunni. Er það sagt í framhaldi af frásögn af afstöðu fræðimannsins Jóns Ólafssonar úr Grunnavík í Jökulfjörðum, eða Jóns Grunnvíkings eins og hann var einnig kallaður, sem hélt því fram árið 1737, að kaupstaðir væru bæði óþjóðlegir og í ósamræmi við íslenskt eðli. Þeir hefðu enda aldrei verið þegar „þeir gömlu forfeður vorir stóðu í sínum bestum blóma“ og þeir kappar sem þá byggðu landið „hefðu aldei bragðað að byggja þar nokkuð þess konar.“

Ég ætla að vona að þeir sem vilja ganga hvað lengst í því að upphefja fortíðina nú á tímum, fari ekki að taka sér Jón Grunnvíking of mikið til fyrirmyndar.

Í Sögu Reykjavíkur segir frá því, að gagnstætt þróun mála í nálægum löndum, þá hefði ekkert raunverulegt þéttbýli orðið til á Íslandi, hvorki á miðöldum né á 16. og 17. öld. Segir höfundur að ýmsar orsaki hafi verið þarna að baki, en vinsælasta skýringin í seinni tíð sé andstaða valdastéttanna í bændasamfélaginu, sem hafi öldum saman staðið vörð um óbreytt ástand. Á Íslandi hafi ríkt hálfgert einræði jarðeigenda. Þá er þess getið að heimildir bendi til þess að með vaxandi útgerð við landið á 15. öld hefði komið upp vísir að þorpum við aðalverstöðvarnar þar sem verkafólk og aðrir hafi séð sér farborða með veiðum og vinnslu fyrir útvegsbændur og einnig fyrir útlendinga. Þessi byggð hafi hins vegar verið kæfð til að verja hagsmuni íslenskra bænda.

Menn gengu einnig svo langt á þessum tíma, að binda í lög, að útlendingar mættu ekki hafa hér vetursetu nema alger nauðsyn krefði. Og af hverju? Jú, það væri hættulegt að hafa þessa útlendinga hér, því þeir sætu við sjóinn og lokkuðu til sín þjónustufólkið. Íslenskir bændur stæðu þá eftir hjálparvana og gætu lítið aðhafst.

Minnir þetta ekki óhuggnanlega mikið á ýmisilegt sem verið er að fást við enn þann dag í dag? Svona með hliðsjón af kvótakerfi og stöðunni á vinnumarkaði, misskiptingunni og misvægi ýmiss konar, afstöðunni til útlendinga, of fleira og fleiri mætti nefna.

Næsta víst er að að það var ekki hagur almennigs sem réð för á þessum löngu liðnu tímum. Þannig var það ekki til hagsbóta fyrir hinn vinnandi mann, karla eða konur og börnin þeirra, að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun. Eða þegar allt var gert til að afstýra samskiptum almúgans við útlendinga. Það væri auðveldlega hægt að draga skynsamlega lærdóma af þessari sögu. Það gerist hins vegar ekki ef menn eru með glýju í augunum.

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson apríl 20, 2015 15:22