Kraftaverkin gerast á Viðgerðarverkstæðinu

Bresku sjónvarpsþættirnir The Repair Shop eru því miður ekki aðgengilegir hér á landi en nýlega náði greinarhöfundur að horfa á tvo þætti á ferðalagi. Þetta er fyrir margra hluta sakir einstakt sjónvarpsefni sem í senn segir mannlegar sögur, vekur áhuga á mannkynssögunni, varðveitir forna verkþekkingu og dregur úr sóun sem ekki er vanþörf á í nútímasamfélagi. En þetta er ekki neitt lítið svo skoðum aðeins út á hvað þessir þættir ganga.

The Repair Shop eða Viðgerðaverkstæðið er staðsett í gamalli hlöðu út í sveit. Þangað kemur fólk með gamla muni sem muna mega sinn fífil fegurri og eru oftar en ekki ónothæfir. Í hlöðunni bíður hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum sem notar sérþekkingu sína og umtalsverða hæfileika til að gera við, bæta og laga í viðleitni til að gefa þessum hlutum lengra líf.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Þessir hlutir eiga sér allir sögu. Sumir hafa fylgt fjölskyldu eigandans í nokkrar kynslóðir, aðrir hafa gengið í gegnum áföll með eiganda sínum og við þá alla eru tengdar minningar svo verðmætar að eigandinn getur ekki hugsað sér að skilja við hann. Við getum til að mynda nefnt bangsa sem ung kona kom með til að biðja Amöndu Middleditch og Julie Tatchell að laga. Þær eru sérfræðingar í mjúkum leikföngum eins og böngsum og loðdýrum af ýmsu tagi og þekktar undir nafninu Bjarnakonurnar. Bangsinn sem unga konan var með var einstaklega illa farinn. Hann var ekki bara slitinn heldur einnig þakinn sótblettum og hluti annars handleggsins var brunninn.

Viðgerðarverkstæðið er í gamalli hlöðu.

Bjargaðist úr húsbruna

Í ljós kom að bangsinn var það eina sem bjargast hafði úr húsbruna þar sem móður ungu konunnar lést. Upphaflega fékk móðirin bangsann að gjöf þegar hún var barn og hann gekk áfram til dótturinnar sem hélt mikið upp á hann. Hún flutti síðan að heiman eins og eðlilegt er en nótt eina kemur upp eldur á heimili móður hennar og hún vaknaði ekki og komst því ekki út. Eftir að slökkviliðið hafði lokið störfum fannst bangsinn svona útleikinn úti á blettinum fyrir framan húsið. Enginn veit hvernig hann komst þangað en dóttirin sem átti þarna von á sínu fyrsta barni þráði að geta átt bangsann áfram til minningar um móður sína og jafnvel leyft eigin barni að snerta hann og leika sér að honum.

Þær Amanda og Julie byrjuðu á að þrífa bangsann og taka allt tróðið úr honum. Að þeirra mati var mikilvægt að losna við reykjalyktina vegna þess að ef það tækist ekki myndi bangsinn minna meira á martröðina tengda andláti móðurinnar en góðu stundirnar sem þær mæðgur áttu saman. Næst er bangsinn tekinn í sundur og allt efni sem nýtilegt var notað í að byggja hann upp aftur. Auðvitað þurfti að bæta við nýju efni og það var gert gamalt með ýmsum ráðum svo það passaði við hitt. Á endanum tókst þeim að skila bangsa, sem var sannarlega ekki eins og nýr, heldur auðsjáanlega sá gamli góði en í mun betra ástandi en áður og nægilega góðu til að eiga mörg ár enn hjá eiganda sínum.

Móðir og dóttir komu líka á Viðgerðarverkstæðið með silfurhring með bláum steini. Hringurinn sá átti sér ótrúlega sögu með upphafi í seinni heimstyrjöldinni. Þrettán ára pólsk stúlka kom heim til sín í Varsjá dag nokkurn árið 1944 og fann móður sína látna í rústum heimilis síns. Hún leitaði til kirkjunnar í hverfinu sínu og var komið fyrir í klaustri á vegum hennar. Bakgarður klaustursins lá að gyðingahverfinu í Varsjá. Nasistarnir höfðu lokað hverfinu og fólkið þar inni svalt heilu hungri. Nunnurnar í klaustrinu gerðu sitt besta til að hjálpa og sendu meðal annars börnin með mat inn í hverfið.

Tókst naumlega að forða lífi sínu

Þetta var stórhættuleg iðja. Börnin vissu það en þau fóru samt. Eitt sinn tókst söguhetju okkar að koma brauði til gyðingakonu. Hún beygði sig niður, fór með fingurinn inn í faldinn á kápunni sinni, tók upp hring og rétti ungu pólsku stúlkunni sem hætti lífi sínu á þennan hátt til að bjarga samborgurum sínum frá hungurdauða. Skömmu síðar var söguhetja okkar aftur á ferð í hverfinu ásamt dreng og þau voru gripin. Drengurinn var skotinn á staðnum en söguhetju okkar tókst að flýja.

Hún var upp frá því ekki örugg í klaustrinu svo hún lagði af stað fótgangandi upp í sveit. Þar var hún tekinn af þýskri eftirlitssveit sem vissi ekkert um þátt hennar í að færa gyðingum mat en vegna flækings, sem var í augum nasistanna svipaður glæpur og forðum í íslenska bændasamfélaginu, var hún send í nauðungarvinnu á þýskum bóndabæ. Í stríðslok lagði hún aftur af stað fótgangandi til móts við frelsið og fyrir tilviljun lenti hún á yfirráðasvæði Breta og var send til Bretlands. Og áttatíu árum síðar voru dóttir hennar og dótturdóttir mættar í hlöðuna með hringinn góða sem gyðingakonan gaf henni, nú brotinn, og báðu gullsmiðinn á Viðgerðarverkstæðinu að búa til úr honum hálsmen. Það var gert og tókst ákaflega vel.

Inn í frásögn kvennanna fléttuðu þáttagerðarmenn broti af sögu Varsjár á stríðinu og lýstu hinum hroðalegu aðstæðum í gyðingahverfinu. Þarna fékkst sem sagt persónuleg og hjartnæm saga tveggja kvenna sem lifðu hörmungartíma stríðsins. Önnur sýndi mannúð þótt það hefði getað kostað hana lífið en hin þakkaði á þann eina hátt sem henni var fært í þeim hroðalegu aðstæðum sem henni voru búnar. Gripurinn sem sameinaði þær fékk með hjálp Dominic Chinea endurnýjun lífdaga. Steinninn blái var hengdur um háls barnabarns hetjunnar ungu og í gegnum hann yrði sagan varðveitt í fjölskyldunni í nokkrar kynslóðir í viðbót.

Margar fleiri sögur mætti rekja hér en í hverjum þætti koma við sögu nokkrir munir. Til að mynda lítið mótorhjól, smíðað af föður systkinanna sem komu með það. Hjólið var illa farið en gert upp og gert gangfært. Gamall bassamagnari sem glatt hafði eiganda sinn í árdaga pönksins fékk einnig viðgerð og varð fær um að gegna hlutverki sínu þegar gamla hljómsveitin hans kom saman aftur. Ótrúlegustu kraftaverk gerast í höndum sérfræðinga Viðgerðarverkstæðisins og gamlar klukkur sem enginn hefði trúað að yrðu nothæfar að nýju taka að ganga og slá á heila tímanum.

Það væri óskaplega ánægjulegt ef til að mynda íslensk streymisveita fengi leyfi til að sýna þessa þætti því í þeim er svo ótal margt sem hefur gildi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 30, 2024 07:00