Velgengni og fatastíll

Á áttunda áratug síðustu aldar kom út bókin Dress for Success eftir John Malloy. Höfundur fullyrti að klæðaburður hefði mikil áhrif á hvernig fólki gengi að klífa metorðastigann í hvaða starfsgrein sem var og margir tóku hann á orðinu. Eitt aðaleinkenni þess að velja fatnað með velgengni í huga er að kjósa vönduð efni og klassísk snið. Lítum á hvernig nokkrar valdakonur klæða sig en af þeim má margt læra.

Smekkvís með afbrigðum

Michelle Obama þykir einstaklega smekkvís. Hún hefur ævinlega valið sér föt sjálf þótt hún vafalaust gæti treyst á stílista. Stíll hennar er mjög klassískur en hún hikar þó ekki við að taka svolitla áhættu af og til.

Tískufyrirmynd ungra kvenna

Kate Middleton er glæsileg ung kona og allt frá því hún og Vilhjálmur prins opinberuðu trúlofun sína hefur klæðnaður hennar verið umfjöllunarefni bresku pressunnar. Það er segin saga að hvort sem prinsessan klæðist ódýrum kjólum eða dýrum hönnunarfötum selst allt upp sem líkist því sem hún var í við opinberar athafnir. Það hefur einnig vakið athygli að prinsessan hikar ekki við að nota sömu kjóla, jakka, buxur eða blússur aftur. Þar gengur hún einnig fram með góðu fordæmi því nóg er nú fatasóunin samt.

Áhugakona um föt

Oprah Winfrey hefur mikinn áhuga á fötum og skóm. Í gegnum tíðina hefur hún barist við aukakílóin og stundum haft sigur en hvað sem þyngdinni líður hefur hún ævinlega litið sérlega vel út og kunnað að velja föt sem fara vel.

Litrík en nokkuð einsleit snið

Hillary Clinton þótti frekar kerlingaleg og óspennandi þegar hún gekk inn í Hvíta húsið við hlið eiginmanns síns árið 1993. Hún leitaði aðstoðar stílista og líklega geta flestir verið sammála um að fötin sem hann valdi klæddu hana betur. Stíll hennar hefur tekið breytingum til batnaðar með árunum og hún einnig elst þannig að þau föt sem hún velur sér nú passa henni vel. Hún er ekki hrædd við að klæðast litum en mætti stundum velja ofurlítið djarfari snið.

Fylgihlutir setja svip á fatnaðinn

Kamala Harris velur ævinlega lítt áberandi klæðnað, vel sniðinn og vandaðann. Hún velur hins vegar stundum að binda litríka klúta um hálsinn eða fallega skartgripi sem lífga upp á klæðnaðinn þann daginn. Kamala ber sig ákaflega vel og fötin fara ævinlega vel á henni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 3, 2024 07:00