Djarfur stíll fer aldrei úr tísku

Eugene Ionescu skrifaði leikrit sitt Nashyrningana um þá undarlegu og sterku hvöt mannsins að vilja alla tíð falla í hópinn, vera með. Mjög fáir hafa svo ríkt einstaklingseðli að þeir beinlínis leggi sig fram um að skera sig úr. Þeir eru þó til og það fólk vekur ævinlega eftirtekt og ýmist aðdáun eða fyrirlitningu. Í sjálfu sér er í lagi að tilheyra hvorum hópnum um sig en verra að samfélagið setur reglurnar um hvað er eðlilegt og æskilegt og þær breytast í sífellu.

Allt kemur einhvern tíma í tísku og tískan fer í sífellda hringi. Það er bara staðreynd. Á einum tíma er æskilegur kvenvöxtur grannt mitti og ávalar línur en svo tekur við tímabil mjórra strákalegra stelpna og holdugar konur áttu einnig sinn tíma. En það á líka við um allt annað. Eitt sinn þótti mikil goðgá að ganga í hvítum buxum á veturna, það var líka ótækt ef saumar á nærbuxum sáust í gegnum þröngar gallabuxur en svo kom í tísku að láta g-strenginn standa upp úr buxunum. Og hárið mátti ekki vera svona og ekki hinssegin.

Eitt sinn var undirrituð stödd í fermingarveislu og þar var roskin frænka fermingarbarnsins. Sú var með mikið og sítt, sérlega fallegt hár og ég gat ekki stillt mig um að dást að því. „Já,“ sagði konan afsakandi. „Ég get ekki fengið mig til að klippa þótt allir segi að konur á mínum aldri klæði betur að vera með stutt. Ég hef oft orðið fyrir því að fólk heldur að ég sé mikið yngri þegar það sér aftan á mig en svo verður það alveg hissa þegar ég sný mér við.“

Eins og gulur páskaungi

Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði eitthvað þessu líkt og ég varð eiginlega orðlaus. Hið sama átti við þegar vinkona mín bankaði upp hjá mér á leið brúðkaup, klædd sólgulum geysilega fallegum kjól. Hún var brún og hraustleg og leit einstaklega vel út og ég hrósaði henni. „Æ, er ég ekki alveg eins og páskaungi,“ svaraði hún. „Kannski er ég líka alltof áberandi fyrir brúðkaup.“

En erum við einhvern tíma of áberandi eða of ungleg fyrir okkar aldur? Það er ekki langt síðan að framan á kvennatímaritum mátti sjá fyrirsagnir á borð við:

Föt sem þú ættir ekki að klæðast eftir fimmtugt

Besta hárgreiðslan fyrir konur á „þessum“ aldri

Skór fyrir ömmur

Tíu kjólar fyrir ömmurnar

Allt eru þetta raunverulegar fyrirsagnir en til allrar lukku fer þeim fækkandi enda ótal áhugaverðar og smart ömmur löngu búnar að afsanna að bara tíu kjólasnið passi fyrir þær og hárgreiðslan geti verið hvernig sem er. Lengi voru líka ákveðnir litir mjög ríkjandi meðal íslenskra kvenna og stór hluti þeirra klæddist varla öðru en svörtu. Svo áberandi var þetta að ungur Grikki í heimsókn hér á landi spurði í einlægni: „Af hverju eru svona margar ungar ekkjur á Íslandi? Er það sjósókn ykkar?“ Í heimalandi hans klæddust nefnilega fáar konur svörtu nema þær sem misst höfðu menn sína. Það þýðir þó ekki að allar hömlur séu úr sögunni og okkur sé ekki enn sagt fyrir um hvernig við megum, eigum og verðum að vera, í hvaða mót við eigum að falla. Og við förum eftir þeim. Þráin eftir að falla í hópinn byrjar strax í leikskóla og jafnvel þar eru börnin meðvituð um hvaða föt ganga á leikvellinum og hver ekki.

Réttu skórnir, réttu buxurnar

Í barnskóla eykst þrýstingurinn og aldrei er hann meiri en á unglingsárunum. Þá gerum við hvað sem er til að fá að vera með, klæðum okkur í þessa strigaskó og enga aðra, nákvæmlega þessar gallabuxur og alls ekki í þetta eða hitt. Hárið er líka litað og klippt eftir forskrift hópsins og það hvort við reykjum eða látum það vera, hvort við drekkum eða neytum efna. Þessi hópþrýstingur heldur áfram inn í fullorðinsárin og konur finna hann mjög sterkt og reyna iðulega að fara eftir því sem þeim er uppálagt hvað klæðnað, hárgreiðslu og snyrtingu varðar. Til allrar lukku hætta samt flestar að taka mark á skoðunum annarra og fara að skapa sér eigin stíl og klæðast einfaldlega eingöngu þeim fatnaði sem þeim líður vel í.  Ferlið getur hins vegar verið sárt meðan á því stendur, eins og raunar allar þessar sögðu og ósögðu félagslegu kröfur sem við eigum erfitt með að standa undir. Maðurinn er hjarðdýr og meðal slíkra dýrategunda er hið kunnuglega límið sem heldur hjörðinni saman. Sebradýr eru ekki röndótt fyrir tilviljun. Okkur er einfaldlega eðlislægt að sækjast eftir viðkenningu og samþykki. Viljum finna að við séum velkomin og tilheyrum hinum vegna þess að við erum eins, eigum eitthvað sameiginlegt.

Líklega er þessi þörf hvergi sýnilegri en á samfélagsmiðlunum. Þar keppast margir við að sýna leikstýrða og tilklippta útgáfu af eigin lífi og lagfærða mynd af sjálfum sér. Nái þeir vinsældum og útbreiðslu sitja hinir eftir og velta fyrir sér hvers vegna þeim gangi svo illa að ná þessum staðli, svona mikilli fullkomnun. Þarna eru menn í senn byggðir upp og brotnir niður. Ekki það að allir eiga margar útgáfur af sjálfum sér. Ein mætir í vinnuna, önnur er heima, sú þriðja fer í veislur og fjórða á samfélagsmiðlana. Hver er einlægustu og raunsannasta útgáfan af okkur sjálfum verður svo stundum óskýrt og mörkin mást út.

Að njóta viðurkenningar

Allir þrá hins vegar heitast að njóta viðurkenningar, ástar og aðdáunar fyrir að vera einmitt eins og þeir eru og í því liggur þversögnin. Á hinn bóginn eru svo til og verða alltaf til manneskjur sem ekki geta sniðið sig að samfélagskröfunum, kunna ekki að bregða sér í mismunandi hlutverk og sníða sig til svo þær falli að hverju tilefni eins og flís við rass. Við tölum um að þetta fólk sé félagslega heft eða hafi ekki góða félagsgreind. Í sumum tilfellum er það hins vegar hreinskiptnara og eðlilegra en margir í kringum það. Einnig er til hópur fólks sem beinlínis nýtur þess að brjóta upp og fara gegn öllum viðteknum venjum og hugmyndum. Þeir sem rækta einstaklingseðli sitt og eru hreyknir af því. Skapa eigin tísku í fatavali og útliti og segja nákvæmlega það sem þeim hentar þegar þeim hentar.

Hversu langt menn ganga er svo mjög mismunadi. Við dáumst að sumum vegna þess að þeir standa með sjálfum sér, eru frumlegir og skemmtilegir meðan við forðumst aðra og útskúfum þeim vegna þess að þeir þykja skrýtnir, ögrandi og hornóttir. Margir úr þeim hópi búa við að þeim er ýtt út í horn og aðrir forðast þá eftir bestu getu. Við leiðum hjá okkur það sem við skiljum ekki, sebrahestinn sem er með bletti en ekki rendur. Samfélagið hefur alltaf átt erfitt með að takast á við það sem er öðruvísi og í stað þess að skapa því rými hafa menn leitast við að sníða af því vankantana til að hægt sé að koma því einhvern ásættanlegan kassa. Vissulega ríkir meira sjálfræði nú en oftast áður í samfélaginu. Í fyrsta sinn svo vitað sé í menningarsögunni berjast menn gegn því að klæðaburður, hárgreiðsla, húðlitur, líkamsvöxtur, kynhneigð eða útlit nægi til að gera fólk ómarktækt og útlægt úr meginstraumi samfélagsins. Vissulega er björninn ekki unninn en segir það ekki töluvert um tímana að viðleitnin er til staðar?

Ritstjórn desember 26, 2023 07:00