Börn og safnið sem var bannað börnum

Börn þurfa að læra að lesa list, ekki bara njóta hennar heldur einnig skilja hana. Úr hvaða jarðvegi hún sprettur, hvert er táknmálið og hvers vegna kýs listamaðurinn þetta viðfangsefni og þessa aðferð til að vinna úr því. Bækur Margrétar Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur eru mikilvægt skref einmitt í þá átt og eru svo einstaklega vel unnar að það er sérstaklega gaman að gefa börnum þær. Sú nýjasta, Anna, Einar og safnið sem var bannað börnum segir sögu Einars Jónssonar myndhöggvara og Önnu konu hans, og safnsins sem varð til efst á Skólavörðuholtinu.

Einar Jónsson fæddist árið 1874 og ákvað ungur að verða listamaður. Í raun er það merkilegt að hann og aðrir frumkvöðlar íslenskrar myndlistar skyldu ákveða að leggja listina fyrir sig því þeir höfðu lítinn aðgang að list og höfðu varla séð listaverk. Sköpunargáfan og þörfin fyrir að tjá sig á listrænan máta virðist hafa verið svo rík í eðli þeirra að í raun höfðu þeir ekki val. Listasafn Einars Jónssonar varð síðar til vegna þess að Einar hét því að gefa íslensku þjóðinni stórt safn listaverka sinna ef ríkið byggði hús yfir þau og hann og Önnu.

Byggingin hófst árið 1916 og Anna og Einar fluttu inn árið 1921 en safnið var opnað árið 1923. Í dag væri Reykjavík mun snauðari ef þetta mikilfenglega hús með þessum dásamlegu verkum stæði ekki einmitt þar sem það er.  Margrét segir einstaklega skemmtilega og vel frá þeim hjónum, lífshlaupi þeirra áður en þau hittast, fyrstu kynnum þeirra, trúlofun og seinna flutningnum til Íslands og framlagi þeirra til menningarlífsins.

Líkt og áður í bókum þeirra stallna er mikið lagt í alla úrvinnslu og útlit. Umbrotið er fallegt, pappírinn veglegur, myndirnar vel valdar og textinn vandaður. Margrét er líka ansi nösk á að finna nýstárleg og skemmtileg sjónarhorn sem eru líkleg til að vekja áhuga barna á viðfangsefninu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 21, 2024 07:00