Viðar Eggertsson leikari og leikstjóri skrifar.
Það er gott að eiga vin, vin sem elskar mann skilyrðislaust, vin sem fylgist með hverju fótmáli manns af ástúð, vin sem bíður manns heima og fagnar innilega þegar maður kemur heim.
Ég er svo heppinn að eiga slíkan vin. Það er hann Ísar. Átta ára gamall smáhundur. Hann lítur á mig sem besta vin sinn. Hann heldur mér selskap og sér um að ég hreyfi mig nægjanlega á hverjum degi.
Dag hvern fer hann með mig í göngutúra svo ég fái nægja hreyfingu og útivist. Ferðir okkar saman um nágrennið verða oft ævintýraferðir þar sem við upplifum og sjáum alls konar smálegt sem oft er skemmtilegt, fallegt og athyglisvert. Þannig þjálfar hann mig í líkamlegri hreyfingu og viðheldur athyglisgáfu minni.
Mikið væri líf mitt snautlegt og viðburðasnauðara án hans, að ég tali ekki um hve heilsa mín væri bágbornari.
Það hefur verið sýnt fram á, með ýmsu móti, hvað gæludýr geta veitt mikilli jákvæðni inn í líf fólks og þá ekki síst inn í líf eldra fólks. Enda eru hundar gerðir út sem heimsóknarvinir á vegum Rauða krossins á öldrunarstofnunum til að létta lund heimilisfólks þar og veita þeim ánægju og gleði. Það hefur stytt þeim stundirnar og veitt þeim lífsfyllingu að verða bestu vinir hundsins.
Því er stórundarlegt að það skuli viðgangast að húsfélagsfundir í fjöleignahúsum banni alfarið gæludýrahald. Þar hefur meirihlutinn ákeðið slíkt og samþykktin síðan gengið í erfðir til allra þeirra sem síðar eignast íbúðirnar.
Slíkt er „löglegt“ en í rauninni á skjön við lögin.
Eins er mjög vafasamt þegar fasteignasalar auglýsa að í tilteknum fjöleignahúsum sé „gæludýrahald leyft“. Eins og þannig sé og verði um aldur og ævi.
Því það gilda lög í landinu um gæludýrahald í fjölbýlishúsum. Með þessum lögum á hver og einn hundur, eða annað gæludýr, rétt á að vera borinn undir atkvæði og fá rétt til búsetu ef tveir þriðju íbúðaeigenda hússins samþykkja heimilishald hans í fjölbýlinu. Hver samþykkt gildir eingöngu um t.d. tiltekinn hund og framlengist ekki fyrir aðra hunda sem síðar kynnu að koma. Þess vegna er það brot á lögum að samþykkja alfarið hundabann í fjölbýli eða að auglýsa að í tilteknu fjölbýli sé gæludýrahald leyft. Því slíkar samþykktir eru hrekjanlegar á húsfundi fjöleignahússins.
Á Alþingi liggur fyrir frumvarp frá þingmönnum Flokks fólksins, (lagt fram fimm þing í röð án þess að fá enn þinglega meðferð) sem mun útvíkka þennan rétt fólks til að hafa „besta vininn“ hjá sér í sinni eigin íbúð. Í frumvarpinu er kveðið á um að almennt sé gæludýrahald leyft í íbúðum fjölbýlishúsa, en réttur annarra í húsinu þó tryggður séu gild málefnaleg rök fyrir að úthýsa gæludýrinu.
Þegar ég eignaðist fyrri hundinn minn, einnig smáhund, bjó ég í fjöleignarhúsi með fimm íbúðum. Ég gekk með hann 10 vikna í öðrum lófanum á milli íbúða og spurði við hverjar dyr hvort hann mætti búa hjá mér. Meira segja hún Margrét sem bjó beint á móti og hefur alltaf verið hrædd við hunda samþykkti sambýling minn. Eftir því sem dvöl hans ílengdist fór Margrét að sýna honum vaxandi athygli og ástúð. Hún varð síðar sá íbúi hússins sem marg bauðst til að passa hann ef á þyrfti að halda og bauð honum oftast inn til sín í heimsókn. Eftir að ég og hundurinn fluttum út sé ég iðulega myndir af Margréti á móti með hundum á Facebook.
Ég þekki marga sem veigra sér við að skipta um húsnæði, jafnvel þó það væri bæði hagkvæmara fyrir þá sjálfa og samfélagið, vegna þess að þeir óttast að þurfa sjá að baki besta vininum.
Ég gæti alla vega ekki hugsað mér að þurfa skilja við hundinn minn, ljúflinginn og gönguþjálfarann minn, hann Ísar.
Ég er alveg handviss um að hann Ísar vill alls ekki missa besta vin sinn -mig.