Bókin og barnið

Hann er ólæs og óskrifandi og það hefur markað allt hans líf. Sögumaðurinn í bók Torgny Lindgren, Biblía Dorés, er margbrotin persóna og ekki auðvelt að flokka hann eða setja á ákveðna hillu. Sem ungur drengur heillast hann af myndskreyttri Biblíu Gustav Dorés. Hann lifir sig inn í myndirnar, skynjar þær og í raun les úr þeim bæði boðskap Biblíunnar og heimspeki sem hann tileinkar sér.

Afi hans les með honum eða skoðar Biblíuna þar til hann deyr en afinn hafði misst hæfileikann til að lesa og skrifa þegar hann varð næstum úti í óveðri. Drengurinn og afi hans eru bundnir kærleiksríkum böndum en samband hans við föður sinn er flóknara. Faðirinn ætlast til mikils af honum en þegar drengurinn getur ekki lært að lesa verður vendipunktur. Faðir hans kemur honum fyrir á heimili fyrir þroskahefta. Eftir lát föðurins flytur hann þaðan og ýmislegt markvert drífur á daga hans. Að áeggjan vinar síns hefur hann svo að lesa inn á segulband ævisögu sína. Hefur Biblía Dorés með sínum lifandi og tilfinningaríku myndum spillt hæfileikum hans og gert það að verkum að hann skynjar ekki lengur heiminn eins og annað fólk?

Biblía Dores er lokasagan í þríleik sem hófst með Randafluguhunangi árið 1995 og var framhaldið í Lokasuðunni og lýkur með Biblíu Dorés. Sögupersónur úr báðum fyrri bókunum koma fyrir í þessari. Hér er ekkert alveg eins og það sýnist og lesandinn verður að vera velvakandi til missa ekki af mikilvægum skilaboðum. Þetta er þroskasaga manns og boðskapurinn er að mannkynið tekur á sig margar og margvíslegar myndir og enginn er mikilvægari en annar.

Torgny Lindgren er einn þekktasti og virtasti rithöfundur Svía. Hann fæddist árið 1938 í Raggsjö í Vesturbotni í Norður-Svíþjóð. Hann skrifaði jöfnum höndum ljóð og skáldsögur. Hann er þekktur fyrir kímni, ríkt ímyndunarafl og að í sögum hans getur allt gerst. Sumir tala um að hann sem fulltrúa norðlanda töfraraunsæis. Hann hlaut mörg verðlaun fyrir verk sín en Torgny lést árið 2017.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.

Ritstjórn október 28, 2024 08:55