Tengdar greinar

Nú hef ég tímann sem ég hafði aldrei

Bjarni Þór Jónatansson píanóleikari er mörgum kunnur enda hefur hann verið ötull á tónlistarsviðinu í áratugi. Hann hefur kennt og komið fram sem meðleikari með einsöngvurum, kórum, kvartettum o.fl. ásamt því að hafa einnig starfað sem organisti. Þá hefur Bjarni komið víða við, t.d. kennt þýsku og teflt en hann er einn sárafárra Íslendinga sem hafa unnið hinn heimsfræga skákmeistara Viktor Kortsnoj. Bjarni býr að því að hafa sinnt heilsunni vel en hann hefur m.a. hjólað til og frá vinnu í 40 ár, stundað sund og göngur. Eftir litríkan og farsælan feril sinnir Bjarni áhugamálum sínum af kappi og fær nú loks tímann sem hann aldrei hafði vegna anna.

Hvað leiddi þig á tónlistarbrautina? „Ég fæddist í Baldurshaga á Stokkseyri árið 1950 en þar bjuggu móðurafi minn og móðuramma. Foreldrar mínir byggðu síðar hús á Eyrarbakka, eða Bakkanum, þannig að ég ólst upp fyrstu árin svolítið á báðum stöðum. Afi var með búskap en var mikið inni vegna astma og þurfti síðar að bregða búi vegna hans. Hann var mjög músíkalskur og spilaði oft á harmóníum sem hann átti og söng með. Ég ku hafa sniglast mikið í kringum hann og tel að það hafi vakið áhuga minn á tónlistinni. Á Eyrarbakka var svo stofnaður tónlistarskóli þegar ég átta ára, Ólafur Vignir Albertsson kom og var kennari minn á píanó fyrstu þrjú árin. Hann fór síðan til London til að sérhæfa sig í meðleik en Karl Sigurðsson tók þá við sem var drífandi og skemmtilegur kennari.“ Bjarni fór í landspróf á Selfossi og þaðan lá leiðin í Menntaskólann að Laugarvatni. „Þar var enginn tónlistarskóli en ég spilaði mikið alls konar tónlist og var m.a. í popphljómsveit,“ segir Bjarni.

Útskrifaðist úr tónlistarskóla og háskóla samhliða

„Ég fór í Tónlistarskólann í  Reykjavík eftir stúdentspróf og tók píanókennarapróf þaðan árið 1975 og las jafnframt þýsku og ensku í Háskóla Íslands. Ég kenndi þýsku um tíma í MH og í Menntaskólanum við Sund. Þýskan kom að góðum notum þegar ég var beðinn um að fara í dagsferðir með Herdísi Vigfúsdóttur til Kulusuk á Grænlandi. Þar var ég svo leiðsögumaður mörg sumur sem var mjög skemmtilegt. Þýskunámið hefur komið sér vel í ýmsu, m.a. í tónlistinni í meðleik með nemendum og einnig hef ég lesið mikið á þýsku í gegnum tíðina.“

Eftir að hafa lokið námi var Bjarni skólastjóri tónlistarskólans á Hellissandi í eitt ár en fór svo til London árið 1978 og sótti einkatíma hjá hinum fræga píanista Philip Jenkins sem var þá prófessor við Royal Academy of Music. „Það var mjög góður vetur, ég fór mikið á tónleika og kynntist mörgum. Svo hagaði þannig til að ég fékk stöðu við Tónlistarskólann á Akureyri árið eftir og Philip kom í ársleyfi þangað og við kenndum saman þar. Hann var kvæntur konu frá Akureyri á þeim tíma og ég bjó þar í þrjú ár en árið 1982 sótti ég um starf við Nýja tónlistarskólann hjá Ragnari Björnssyni og starfaði þar í 40 ár.“

Breyttur veruleiki hefur áhrif á tónlistarnám

Talið best að tónlistarnámi og hvernig það hefur þróast á þeim tíma sem Bjarni hefur starfað en aðsókn í klassískt tónlistarnám hefur dregist saman. Þrátt fyrir það hefur ungt tónlistarfólk aukið hróður okkar víða. Velgengni þess kemur þó vitanlega ekki úr engu, síður en svo, þetta fólk kemur flest úr tónlistarskólunum. „Tímarnir hafa breyst frá um 1980, það er annar veruleiki nú. Það er kvartað yfir tregri aðsókn í klassískt tónlistarnám, ég held að ástaðan sé m.a. að það er margt annað sem glepur, tæknivæðingin hefur breytt miklu. Það er svo mikið framboð á mörgu um allt, t.d. streymisveitur þar sem er hægt að hlusta á allt efni um leið og það kemur út, þannig að margir af yngri kynslóðinni sækja ekki tónleika eins og áður var. Undir það síðasta í mínu starfi þá fannst mér viðhorf til námsins hafa breyst. Margir voru í hálfu námi, þ.e. ½ klst. á viku sem nýtist ekki vel. Íþróttirnar hafa orðið fyrirferðarmeiri og eru vinsælar, sem er kannski ekki skrýtið. Tíðarandinn breytist hratt en það eru ekki uppörvandi tíðindi að börn og unglingar séu ekki vel læs. Sem betur fer eru alltaf einhverjir inn á milli sem stunda tónlistarnám af fullri alvöru, sem hefur skilað sér í efnilegu og flottu tónlistarfólki. Hafi ég verið að sniglast í kringum afa minn þegar hann spilaði á harmóníumið og það leitt til þess að ég lagði stund á tónlist segir það meira en mörg orð. Orgelið hefur alltaf fylgt mér en það var ekki fyrr en á 10. áratugnum að ég fór í Tónskóla þjóðkirkjunnar og sótti orgeltíma hjá Herði Áskelssyni í þrjú ár, ég hef grun um að orgelið hafi alltaf verið „mitt hljóðfæri“ eins og sagt er. Ég var svo organisti í Grafarvogskirkju í eitt ár og spilaði heilmikið á orgel næstu tvo áratugi, í messum, brúðkaupum og jarðarförum. Ég fór líka seinna til Berlínar og sótti tíma í orgelleik hjá prófessor Erich Piasetzki.“

Bjarni ásamt kvartettinum Út í vorið.

Kallaður yfirkvartari

Bjarni hefur spilað mjög víða og með mörgum; kórum, einsöngvurum, kvartettinum Út í vorið, Þremur klassískum, o.fl. og þá hefur oft komið sér vel sá hæfileiki Bjarna að geta tónflutt og spilað eftir eyranu. Þrátt fyrir að hann hafi hlotið hefðbundið klassískt tónlistaruppeldi hefur hann fullan skilning á mikilvægi þess að geta spilað eftir eyranu og hefur oft kennt nemendum sínum að spila eftir bókstafshljómum meðfram hefðbundnu tónlistarnámi. „Það var bannað í ströngu tónlistaruppeldi áður fyrr að spila eftir eyranu. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ljóðasöng, eða „Lieder“ og reyndar öllum söng og þess vegna sótt mörg námskeið í ljóðasöng bæði hjá Dr. Eric Werba hér heima og tveggja vikna námskeiði hjá Dalton Baldvin í Nice í Frakklandi. Ég spilaði með Árnesingakórnum árum saman en stjórnandi hans var þá Sigurður Bragason barítónsöngvari. Við Sigurður höfum unnið mikið saman og fórum m.a. til Buenos Aires á tónlistarhátíð og héldum þar tvenna tónleika með erlendu og  íslensku efni sem var mjög vel tekið en ferðin sú var mikil ævintýraferð. Bílaflotinn þar var áratugum á eftir því sem maður sá annars staðar en tangótónleikar sem við sóttum þar var einhver sú besta skemmtun sem ég hef upplifað. Við Sigurður héldum víða tónleika, m.a. í Klettakirkjunni í Helsinki, Róm, Washington og víðar. Þrátt fyrir „virðulegan“ aldur er Sigurður enn að og hélt tónleika á Ítalíu nú í sumar.

Ég hef unnið með kvartettinum Út í vorið frá árinu 1993 og ég held að enginn íslenskur karlakvartett hafi starfað jafnlengi óslitið með sömu mönnum. Við héldum tugi tónleika hér heima og erlendis og ég raddsetti einnig mikið fyrir þá og við gáfum út þrjá geisladiska. Kristinn Sigmundsson kallaði mig „yfirkvartara“. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að spila fjölbreytta tónlist, kynnst góðu fólki og upplifa mörg ævintýri á lífsleiðinni. Ein af skrýtnustu uppákomunum í tónlistinni var líklega þegar ég þurfti að spila í algjöru myrkri en það voru söngvarar sem stilltu sér upp beint fyrir ljósi frá kastara og ég sá ekki á nóturnar, þá kom sér vel að geta spilað eftir eyranu.“

  Sigraði heimsfrægan stórmeistara í skák

Þú ert mikill skákáhugamaður og fyrir stuttu rakst ég á gamla frétt um fjöltefli þar sem þú varst sá eini sem sigraðir stórmeistarann heimsfræga Viktor Kortsnoj. Segðu mér aðeins frá því. „Já, ég skil eiginlega ekki í þessum skákáhuga hjá mér, því það var ekki mikið um taflmennsku á Bakkanum. Pabbi tefldi svolítið og mágur hans kenndi mér mannganginn. Ég fór síðan að tefla meira í menntaskóla og hef teflt allar götur síðan. Það var t.d. teflt mikið á kennarastofunni í Nýja tónlistarskólanum og við tókum þátt í stofnanamóti eitt sinn en þarna voru auk mín Þorsteinn Gauti, Pétur Þorvaldsson o.fl. sem voru góðir skákmenn. Viktor Kortsnoj kom hingað 1987 og tefldi fjöltefli í Hveragerði. Ég tók þátt í því og vann stórmeistarann, sem var mjög óvænt ánægja,“ segir Bjarni sem hafði unnið annan frægan stórmeistara áður á Akureyri árið 1980, Tony Miles, sem var á þeim tíma besti skákmaður Breta. „Þar með eru afrekin á skáksviðinu upptalin. Það líður reyndar varla sá dagur að ég spekúleri ekki eitthvað í skák. Ég er ekki keppnismaður en hef mjög gaman af að stúdera skák og tefla, fékk þó aldrei neina sérstaka þjálfun en hef samt yndi af skáklistinni eins og tónlistinni.“

Tími fyrir nýjar áskoranir

Bjarni vaknar snemma daglega og nýtir dagana vel. „Ég spila daglega og er að reyna að kenna sjálfum mér en ég er nú ekki auðveldasti nemandinn,“ segir Bjarni og brosir glettinn, „en nú hef ég tímann sem ég aldrei hafði. Ég hef hvorki verið að kenna né spila opinberlega undanfarið en maður veit aldrei hvað gerist.“

Bjarni hefur sinnt heilsunni vel alla tíð og ber þess merki en hann hefur hjólað til og frá vinnu öll þau 40 ár sem hann starfaði við Nýja tónlistarskólann. „Ég hjóla enn mikið innanbæjar og umferðin hefur breyst mikið eins og tónlistarnámið og stundum er maður fljótari á hjóli en bíl á milli staða. Ég hjóla oft úr Kópavoginum vestur á hjúkrunarheimilið Grund til móður minnar og er ekki nema um 25 mínútur á leiðinni og væri tæpast fljótari á bíl a.m.k. á álagstímum. Nú eru líka komnir hjólastígar nánast út um allt. Flestir eru komnir á rafhjól en ég þrjóskast við að vera á venjulegu hjóli, maður reynir aðeins meira á sig þannig.  Ég stunda líka sund í Sundlaug Kópavogs, það eru mikil hlunnindi að hafa sundlaug í nágrenninu. Við hjónin höfum mjög oft farið í gönguferðir um landið með Ferðafélaginu og fleirum, auk þess sem ég fer líka svolítið í ræktina núna til að þjálfa „efri skrokkinn“, segir Bjarni og brosir við. Það er alltaf nóg að gera, ég les mjög mikið og svo er það skákin sem á hug minn ásamt tónlistinni. Nú hef ég tímann.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn október 18, 2024 09:00