Einar Sigurmundsson skrifar
Andi Lothian, skoskur tónleikahaldari, telur sig fyrstan hafa notað orðið eða hugtakið „Beatlemania“, sem á íslensku er kallað „Bítlaæði“, og er notað til að lýsa fárinu sem tengdist hljómsveitinni frá Liverpool sem kallaði sig The Beatles. Það gerði hann í viðtali sem tekið var við hann 7. október 1963, en tilefni þess var tónleikaferð Bítlanna um Skotland. The Daily Mirror notar orðið um tónleika Bítlanna í frétt sem birt var 2. nóvember það sama ár.
Bítlaæðið berst til Íslands
Um það bil fimm mánuðum siðar , eða þann 4. mars 1964 eru haldnir tónleikar sem Morgunblaðið skrifar um tveimur dögum síðar:
Mjög dró til tíðinda í Háskólabíói í fyrrakvöld. Efnt var til miðnæturtónleika, þar sem 5 hljómsveitir léku. 4 hljómsveitanna léku að mestu sömu lögin, hver á fætur annarri. Voru það tónsmíðar, sem hinir margumtöluðu „Beatles“ hafa ært ungt fólk með að undanförnu
Fimmta hljómsveitin var Savanna-tríóið sem spilaði annars konar tónlist en var að sögn Morgunblaðsins engu minna fagnað „með allt öðrum og siðmenntaðri hætti en þegar hinir áttu í hlut.“ Mest urðu lætin þegar að Hljómar frá Keflavík hófu leik sinn eftir hlé:
Um hríð heyrðist ekkert í „Hljómum“ sem þó þykja hafa allhávær tæki í þjónustu sinni. Fyrirmyndir þeirra „The Beatles“ hafa látið hafa eftir sér, að þeir séu ekki ánægðir fyrr en hætt er að heyrast til þeirra fyrir ólátum í salnum, – þá fyrst hafi þeir náð takmarki sínu. Mega „Hljómar“ því vel við una.
Þeir eru sko með hárið í lagi
Aðra birtingamynd bítlaæðisins má sjá í grein Morgunblaðinu 9. október 1964 þar sem rætt er við 14 ára gamlan pilt, Óttar Hauksson sem er að fara að sjá kvikmynd Bítlana „A hard days night“ í þrítugasta sinn. Hann segist orðið kunna myndina utan að og að uppáhaldsbítillinn hans sé Georg Harrison. Þegar hann er spurður hvað sé svona smart við hann er svarið: „-Hárið, maður, hárið…“ Blaðamaður spyr þá hvort að tónlistin skipti ekki meira máli en hárið og fær svarið: „-Ertu frá þér maður! Sjáðu bara Rólling Stóns. Þeir eru sko með hárið í lagi“
Velvakandi Morgunblaðsins fjallar um kvikmynd Bítlana í blaðinu 21. ágúst 1964. Hann segir að myndin sé fengur fyrir hina „bítilóðu unglinga“ og segir að ekki sé seinna að vænna að sjá þessa mynd því að hans mati fari nú bítlaæðið að hjaðna og nefnir að Bítlarnir séu farnir að fara aftur til rakara. Um myndina segir svo Velvakandi.
Ég sá þessa mynd fyrir tilviljun fyrir nokkru – og þegar undanskilin er hljómlistin, sem ég kann ekki að meta, er myndin alls ekki svo bölvuð. Í henni er töluvert af glensi og gamni, sem Bítlarnir fara furðuvel með – og þeir sýna að þeim er ekki alls varnað.
[ot-video type=“youtube“ url=“http://www.youtube.com/watch?v=cthVTVV3nyM“]