,,Ávinningurinn af kórastarfi er ótvíræður og margþættur,“ segja systurnar Þórkatla og Auður Aðalsteinsdætur og lýsa því hvaða gildi kórastarf gefur lífi þeirra. Þórkatla er sálfræðingur og rekur sálfræðiþjónustuna Líf og sál og Auður starfaði lengst af sem kennari en síðustu árin hjá Menntamálastofnun. ,,Eftir að ég hætti formlegri þátttöku á vinnumarkaði er kórinn hálft lífið og hinn helmingurinn er fjölskyldan,“ segir Auður og brosir. Þórkatla er sammála þótt hún sé ekki hætt að vinna en hún hefur verið meðlimur í Léttsveitinni frá byrjun eða í tæp 30 ár. Auður segist hafa verið búin að máta sig við aðra kóra þegar hún fór á tónleika með Léttsveitinni árið 2000 og þá hafi ekki verið aftur snúið. ,,Það var svo mikið stuð og stemmning á þessum tónleikum og ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa tengst þessum félagsskap.“
Mjög erfitt að taka hlé
Þórkatla hefur aðeins sleppt úr einni önn frá upphafi og segir það hafa verið bara af því að hún þurfti að fara í mjaðmakúluskipti. ,,Ég byrjaði svo bara aftur eins fljótt og ég gat,“ segir hún og hlær. Það var 1995 sem Margrét Pálmadóttir stofnaði hina ýmsu kóra og meðal annars þennan kór en Jóhanna Þórhallsdóttir kom með henni í það starf. ,,Jóhanna tók í byrjun við Léttsveitinni sem stjórnandi og setti þann góða kúrs sem kórinn er enn á,“ segir Þórkatla. ,,Þá hét kórinn Léttsveit kvennakórs Reykjavíkur en heitir nú Léttsveit Reykjavíkur en Gísli Magna tók við af Jóhönnu þegar hún sneri sér að öðru 2012. Arnhildur Valgarðsdóttir er undirleikari hjá okkur og Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir er formaður kórsins sem er mikilvægt starf og forsenda þess að allt starfið geti gengið svo snurðulaust,“ segja þær.
Bíómynd í fullri lengd varð til
Léttsveitin hefur margsinnis ferðast til útlanda og haldið tónleika og 2005 var farið til Poiano á Ítalíu. Þá var sótt um styrk til Kvikmyndasjóðs og með í för var því kvikmyndatökumaður, leikstjóri og hljóðmaður. ,,Frænka okkar, Silja Hauksdóttir, leikstýrði myndinni og úr þessu varð bíómynd í fullri lengd sem var sýnd í sjónvarpinu og í Háskólabíói og nefndist ,,Kórinn“. Við sungum líka í Verona og Feneyjum og úr varð æðisgengið ævintýri. Myndin verður endursýnd á afmælisárinu í Bíó Paradís 30. janúar og við munum örugglega fjölmenna á hana,“ segja þær systur.
Ekki bara söngurinn heldur allt hitt líka
Þórkatla og Auður segja að það hafi verið mikil forréttindi að hafa svo kraftmikla stjórnendur sem bæði Jóhanna og Gísli hafa verið. ,,Það er í sjálfu sér merkilegt að aðeins tveir stjórnendur hafi stjórnað kórnum allan þennan tíma sem segir allt um hversu skemmtilegt þetta er. Félagsskapurinn er nefnilega svo mikil viðbót við lífið,“ segja þær. ,,Jóhanna markaði leiðina með sprúðlandi kátínu og hæfileikum og nú er Gísli sannarlega að gera jafngóða hluti með okkur, m.a. útsetur hann allt fyrir kórinn. Það er ekki bara félagsskapurinn með skemmtilegheitum, ferðalögum og söng, dansi og hlátursköstum sem kórastarfið gefur okkur heldur líka allt hitt sem fylgir. Þar kynnumst við fólki sem við hefðum annars ekki hitt og til verða hópar eins og bókaklúbbar, golfhópar, gönguhópar o.s.frv. Þetta er svo lifandi samfélag þar sem eru konur með alls konar bakgrunn.“
Næsta ár er afmælisár
Léttsveitin mun fara í ferðalag um landið á næsta ári þar sem kórinn mun gleðja landsmenn vítt og breitt með tónleikahaldi í tilefni 30 ára afmælisins. Byrjað verður með tónleikum í Háskólabíói þar sem öllu verður til tjaldað og augljóslega mikil tilhlökkun systranna. ,,Eftir Háskólabíótónleikana munum við hendast upp í flugvél til Akureyrar þar sem við ætlum að syngja í Akureyrarkirkju. Þaðan förum við til Húsavíkur og Raufarhafnar þar sem við munum syngja í risastórum tanki sem þar er og halda tónleika,“ segja þær og eftirvæntingin leynir sér ekki. ,, Svo verður siglt til Flateyjar á Skjálfanda þar sem við munum borða góðan mat í flæðarmálinu. Þetta verður mikið ævintýri og við erum þegar byrjaðar að undirbúa ferðina en hún verður ein allsherjar upplifunarferð í tilefni af afmælinu.“
Fjáröflunin hluti af ævintýrinu
,,Allir leggja sitt af mörkum við fjáröflun og hugmyndaauðgi kórfélaga er viðbrugðið,“ segja þær systur. ,,Fyrsti sópran var til dæmis með happdrætti um daginn sem skilaði miklu í kassann. Svo sá annar sópran um salatbar á löngum laugardegi með miklum glæsibrag og seldi okkur hinum dásamlegan hádegisverð. Allt verður þetta að tilefni til samveru sem er alltaf skemmtileg. Svo verður jólaball þar sem við förum með börn og barnabörn og dönsum í kringum jólatréð í Háteigskirkju og það er líka fjáröflun og enn eru til lausir miðar,“ segja þær og hlæja.
,,Við förum alltaf í æfingabúðir á vorin eitthvert út úr bænum og æfum stíft frá föstudegi fram á sunnudag,“ segja þær systur og hlakka strax til næsta vors.
Mjög erfitt að hætta í kórnum
Nú eru meðlimir 98 talsins og í haust voru nýjar raddir prófað inn í kórinn og þá segja þær systur að meðalaldurinn hafi lækkað talsvert. ,,Það er mjög erfitt að hætta í þessum kór samanber mig sem byrjaði 1995 og þá var ég fertug,“ segir Þórkatla hlæjandi. ,,Og hér er ég enn.
Sem betur fer er ekki aldurstakmark í kórnum en Gísli aðstoðar okkur frekar við að staðsetja raddirnar okkar upp á nýtt þegar árin færast yfir því allir vita að raddir ,,dökkna“ með aldrinum. Ég var til dæmis í fyrsta sópran en er núna í öðrum alt og þar líður mér betur núna þótt það hafi tekið í að færa mig um rödd. Ég fann sjálf að röddin hafði breyst en Gísli var svo uppörvandi þegar hann sagði mér að ég væri svo heppin að geta sungið annan alt því maður héldi því raddsviði miklu lengur,“ segir Þórkatla skellihlæjandi. Það skiptir víst miklu máli að syngja eitthvað á hverjum degi til að halda röddinni og bara það að syngja í bílnum á milli staða hjálpar.“
„Nú ljóma afturljósin skær“
Dæmi um hlátursköstin sem kórinn fær reglulega sameiginlega er upprifjunin þegar þær voru í einni ferðinni úti á landi og allar voru komnar upp í rútuna eftir tónleikana nema Þórkatla. Hún hafði hitt fólk sem hún kannaðist við og var að lýsa fjálglega hvað hún væri að gera þarna og hvað kórinn væri frábær o.s.frv. ,,Svo segir maðurinn: ,,Er rútan þín ekki farin af stað? „Nei nei, við pössum upp á hver aðra og myndum aldrei skilja eina eftir“ segi ég. Á því andartaki sé ég að rútan rennur af stað og ég byrja að hlaupa á eftir henni. Eftir 300 metra næ ég rútunni og kemst upp í hana og heyri þá hlátrasköllin í kórsystrum mínum sem voru þá að stríða mér,“ segir Þórkatla. ,,Eftir þetta fékk laglínan „Nú ljóma jólaljósin skær“ nýja merkingu og varð ,,Nú ljóma afturljósin skær!“ segir Þórkatla og skellihlær.
Appið ChoirMate
Þær Þórkatla og Auður eru upprifnar yfir tækninni sem Gísli Magna hefur leitt til þeirra því hann kynnti fyrir þeim sérstakt ,,app“ sem kallast ChoirMate. ,,Gísli spilar og syngur hverja rödd og við spilum heima eða í bílnum og æfum okkur. Þannig verða æfingarnar enn markvissari því við mætum tilbúnar þegar við hittum hann á alvöru æfingu,“ segja þær systur alsælar.
Hátíðlegir jólatónleikar fram undan
Jólatónleikar Léttsveitarinnar verða laugardaginn 30. nóvember í Guðríðarkirkju klukkan 14:30 og 17:00 og systurnar lofa góðri jólastemmningu þar sem með kórnum verður strengjasveit að þessu sinni og gestasöngvari verður Gissur Páll Gissurarson.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.