Síðustu hádegistónleikar ársins í Hafnarborg verða haldnir þriðjudaginn 3. desember kl. 12. Að þessu sinni verður Íris Björk Gunnarsdóttir, sópran, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá mun þær Íris Björk og Antonía bjóða upp á efnisskrá undir yfirskriftinni „Jólaaríur“, þar sem þær munu flytja tónsmíðar eftir Gounod, Puccini, Verdi og Catalani.
Íris Björk Gunnarsdóttir, sópran, útskrifaðist með bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands og nam í framhaldinu eitt ár við Óperuháskólann í Stokkhólmi og útskrifaðist svo með meistaragráðu frá Óperuháskólanum í Osló sumarið 2023. Leikárið 2023-2024 var hún ráðin við Den Norske Opera & Ballett og fór með hlutverk Anninu í La traviata, Díönu í Orfeus í Undirheimum, Kate Pinkerton í Madama Butterfly og Sœur Mathilde í Dialogues des Carmélites. Haustið 2024 söng hún hlutverk Sylvu í Die Csárdásfürstin eftir Kálmán í Bodø og Tromsø, auk þess sem hún var í söngvarahóp Óperudaga í Reykjavík. Vorið 2025 mun hún svo fara með aðalhlutverkið í heimsfrumsýningu nýrrar óperu Stians Westerhus, Fønix, í leikstjórn Lisa Lie hjá Den Norske Opera.
Íris Björk hefur hlotið fjölda styrkja á Íslandi, í Svíþjóð og Noregi. Þar ber helst að nefna styrk Halldórs Hansen fyrir framúrskarandi námsárangur við Listaháskóla Íslands, styrk Tom Wilhelmsen í Noregi og styrk Ruud-Wallenberg í Svíþjóð. Íris Björk bar sigur úr býtum í söngkeppninni Vox Domini í janúar 2018 og hlaut titilinn „Rödd ársins“. Þá var hún meðal sigurvegara Ungra einleikara vorið 2021 og kom einnig fram á samnefndum tónleikum ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Íris Björk er búsett í Osló.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.